Það er á ábyrgð umsækjanda
að leggja fram nauðsynleg fylgigögn umsóknar til staðfestingar á því að hann uppfylli skilyrði laga og reglugerða fyrir veitingu dvalarleyfis
að tryggja að gögnin séu á því formi sem gerð er krafa um og staðfest með þeim hætti sem nauðsynlegt er, sjá leiðbeiningar neðar á síðunni.
Ef fullnægjandi gögn berast ekki með umsókninni getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað.
Útlendingastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum þegar sérstakar ástæður mæla með því.
Skila þarf inn greiðslukvittun, ef greitt er fyrir umsókn með millifærslu í banka.
Á greiðslukvittun þurfa þessar upplýsingar að koma fram:
nafn greiðanda
fæðingardagur / kennitala greiðanda
viðtakandi greiðslu
skýring: nafn og fæðingardagur umsækjanda
upphæð og
dagsetning greiðslu.
Passamynd skal vera af stærðinni 35x45 mm.
Gildistími vegabréfs skal vera minnst 90 dagar umfram gildistíma dvalarleyfis sem sótt er um.
Ljósrit þarf að vera af:
síðu með persónuupplýsingum
síðu með undirskrift umsækjanda
Athugið að tölvulæsilegar öryggisrendur þurfa að vera vel sýnilegar á afritinu.
Sakavottorð
þarf ekki að vera lögformlega staðfest,
þarf að vera gefið út af búseturíki umsækjanda,
má ekki vera eldra en 12 mánaða þegar það er lagt fram, og
skal gefið út af æðsta yfirvaldi sem heimilt er að gefa út slíkt vottorð í viðkomandi ríki.
Komi fram dómur á sakavottorði, þarf einnig að leggja fram staðfest gögn frá yfirvöldum um hvort og hvenær umsækjandi hafi lokið afplánun.
Ef vottorðið er á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli þarf einnig að leggja fram þýðingu þess, sjá kröfur til skjalaþýðinga neðst á síðunni.
Ef ástæða er til getur Útlendingastofnun óskað eftir lögformlega staðfestu frumriti sakavottorðs eða að lögð séu fram sakavottorð frá fleiri ríkjum en búseturíki.
Ólíkar reglur eftir löndum
Mismunandi reglur geta gilt um útgáfu sakavottorða eftir löndum. Vottorðið þarf að sýna að leitað hafi verið í gagnagrunnum alls landsins en ekki einungis á ákveðnum svæðum (til dæmis ríkjum eða fylkjum).
Dæmi um réttmætan útgefanda:
Bandaríkin – FBI sakavottorð
Það eru tvær leiðir til að nálgast FBI sakavottorð. Annars vegar með því að póstleggja beiðni til FBI og fá útgefið sakavottorð sent til umsækjanda í bréfpósti og hins vegar með því að sækja um rafrænt sakavottorð beint frá FBI eða hjá sérstökum veitum sem samþykktar hafa verið af FBI. Það tekur styttri tíma að fá sakavottorð útgefið rafrænt með aðstoð slíkra veitna.
Á heimasíðu FBI hefur verið tekinn saman listi yfir þær veitur sem samþykktar hafa verið af FBI. Hafa þarf í huga að vottorð frá sumum veitum er ekki hægt að opna utan Bandaríkjanna og því ekki hægt að nota þjónustu þeirra til að skila sakavottorði til Útlendingastofnunar.Í báðum tilfellum þarf umsækjandi að láta taka af sér fingraför og senda þau með beiðni um sakavottorð. Hér á landi eru fingraför tekin af umsækjanda hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Kanada – RCMP sakavottorð byggt á fingraförum
Filippseyjar – NBI sakavottorð
Taíland – Royal Thai Police
Brasilía – Ministério da Justica – Polícia Federal
Mexíkó – SEGURIDAD - (Secretaría De Seguridad Y Protección Ciudadana)
Bretland – ACRO sakavottorð (ACRO Criminal Records Office - Police Certificates)
Athugið að oft tekur nokkurn tíma að fá útgefið sakavottorð og viðeigandi staðfestingu.
Leggja þarf fram staðfestingu á því að umsækjandi hafi keypt sjúkratryggingu þar sem fram kemur að tryggingin
gildi á Íslandi,
í minnst sex mánuði frá skráningu lögheimilis umsækjanda á Íslandi,
að lágmarksupphæð 2.000.000 kr.
Á vef Fjármálaeftirlitsins má finna lista yfir íslensk tryggingafélög (undir liðnum Vátryggingafélög) og erlend tryggingafélög (undir liðnum Erlend vátryggingafélög).
Gildistími
Gildistími tryggingarinnar þarf að vera minnst sex mánuðir frá skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Skráning í þjóðskrá miðast að öllu jöfnu við þann dag sem umsækjandi kemur til myndatöku hjá Útlendingastofnun eða sýslumanni vegna útgáfu dvalarleyfiskorts, hafi hann dvalið hér á landi samfellt frá því að myndatakan fór fram.
Sé ljóst að breyta þurfi gildistíma íslenskrar tryggingar, til dæmis vegna þess að umsækjandi er ekki kominn til landsins og vinnslutími umsóknar er lengri en áætlað var, þarf umsækjandi að hafa samband við tryggingafélagið vegna þessa.
Þegar sex mánuðir eru liðnir frá lögheimilisskráningu hefur umsækjandi áunnið sér rétt til að vera sjúkratryggður hér á landi samkvæmt almannatryggingakerfi Íslands.
Börn yngri en 18 ára
Börn og unglingar, yngri en 18 ára, eru sjúkratryggð með foreldrum sínum eða forsjármönnum hafi þeir verið skráðir með lögheimili hér á landi í að minnsta kosti sex mánuði. Ekki er því þörf á að kaupa sérstaka sjúkratryggingu fyrir börn sem flytja til foreldra sinna. Sama gildir um kjörbörn, stjúpbörn og fósturbörn.
Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir þurfa að greiða hærra gjald fyrir heilbrigðisþjónustu.
Frekari upplýsingar er að finna á vef Tryggingastofnunar ríkisins og Sjúkratrygginga Íslands.
Gögn sem sýna fram á trygga framfærslu skulu
lögð fram í frumriti
staðfest af atvinnurekanda eða þeirri stofnun sem er útgefandi þeirra
Trygg framfærsla getur stuðst við fleiri en einn þátt, til dæmis bæði launatekjur og eigið fé eins og bankareikninga.
Námsstyrkur eða námslán
Hafi umsækjandi fengið styrk til náms eða námslán teljast þær greiðslur til tryggrar framfærslu nái þær þeirri lágmarksupphæð sem krafist er. Námslán eða námsstyrkur þarf að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands. Leggja þarf fram staðfestingu á lánagreiðslum frá viðeigandi lánastofnun og staðfestingu á styrk frá styrkveitanda eftir því sem við á.
Nægilegt eigið fé til framfærslu
Bankayfirlit sem sýnir fjárhæð inneignar á bankareikningi umsækjanda, hérlendis eða erlendis. Fjárhæðin þarfa að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og hægt er að taka út og nýta til framfærslu. Yfirlitið þarf að vera staðfest af bankanum sjálfum og í frumriti. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting. Upplýsingar um skráningu gjaldmiðla er að finna hjá Seðlabanka Íslands. Ef umsækjandi er á framfæri maka sem búsettur er á Íslandi er heimilt að leggja fram staðfest bankayfirlit frá maka.
Ráðningarsamningur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi
Ef umsækjandi stundar atvinnu á Íslandi getur hann sýnt fram á trygga framfærslu með því að leggja fram ráðningarsamning í frumriti. Ef umsækjandi er á framfæri maka sem búsettur er á Íslandi er heimilt að leggja fram ráðningarsamning viðkomandi. Það athugist að heimild erlends ríkisborgara til að framfleyta öðrum á grundvelli sjálfstæðrar atvinnustarfsemi er takmörkuð. Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 getur eingöngu útlendingur sem er undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi sem og maki íslensks ríkisborgara.
Launaseðlar síðustu þriggja mánaða og staðgreiðsluyfirlit launa
Umsækjandi getur sýnt fram á launatekjur með því að leggja fram staðgreiðsluyfirlit eða útgefna reikninga stimplaða af skattyfirvöldum auk launaseðla síðustu þriggja mánaða. Launaseðlar, útprentun úr heimabanka er fullnægjandi ella þarf staðfestingu launagreiðanda. Ef umsækjandi er á framfæri maka sem búsettur er á Íslandi er heimilt að leggja fram launaseðla maka fyrir síðustu þrjá mánuði sem og staðgreiðsluyfirlit maka.
Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu
Slíkar greiðslur geta verið greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og styrkir sem umsækjandi fær til dæmis vegna rannsókna. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða á þeim greiðslum sem hér geta átt við.
Almennir námsmenn
Þegar sótt er um í fyrsta sinn þurfa almennir námsmenn að leggja fram staðfestingarbréf frá háskólanum þar sem þeir hafa fengið inngöngu. Í bréfinu þarf að koma fram að umsækjandi sé skráð/skráður í fullt nám næsta skólaár og að skólavist sé óskilyrt. Ekki er nægjanlegt að leggja fram staðfestingu á skráningu sem er bundin fyrirvara um að umsækjandi ljúki öðru námi. Fullt nám er 30 ECTS á önn.
Doktorsnemar við erlenda háskóla í samstarfi við íslenskan háskóla
Þurfa að leggja fram staðfestingu á samstarfi erlenda háskólans við íslenskan háskóla, þar sem fram kemur í hverju samstarfið felst.
Skiptinemar
Þurfa að leggja fram
Staðfestingu frá íslenskum framhaldsskóla.
Skriflegt samþykki fósturfjölskyldu á Íslandi.
Ef umsækjandi um dvalarleyfi sem skiptinemi er yngri en 18 ára þarf einnig að leggja fram.
Staðfest fæðingarvottorð umsækjanda.
Skriflegt samþykki foreldra / forsjármanna og afrit af vegabréfi þeirra.
Starfsnemar
Þurfa að leggja fram
Staðfestingu á innritun í háskóla þar sem fram kemur að starf á Íslandi sé hluti námsins.
Greinargerð þar sem starfsnámi er lýst.
Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna náms.
í frumriti
staðfest af viðeigandi stéttarfélagi
undirrituð af umsækjanda og vinnuveitanda.
Ráðningarsamningur við íslenskt fyrirtæki
í frumriti
með upplýsingum um launakjör umsækjanda en þau verða að ná viðmiði um lágmarkslaun
undirritaður af umsækjanda og vinnuveitanda.
Útlendingastofnun áframsendir umsókn um atvinnuleyfi og ráðningarsamning til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu.
Iðnnemar og starfsnemar á framhaldsskólastigi
Þurfa að leggja fram
Staðfestingu íslensks skóla á innritun í fullt nám samkvæmt námskrá skólans.
Þú þarft að sækja um atvinnuleyfi til að mega vinna á Íslandi. Þú getur ekki sótt um atvinnuleyfi fyrr en þú hefur fengið vinnu. Umsókn um atvinnuleyfi þarf ekki að fylgja umsókn um dvalarleyfi, hana má einnig leggja fram eftir að dvalarleyfi hefur verið veitt.
Skila þarf eftirfarandi gögnum til Útlendingastofnunar sem áframsendir þau til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu.
Umsókn um atvinnuleyfi vegna náms
í frumriti
staðfest af viðeigandi stéttarfélagi
undirrituð af umsækjanda og vinnuveitanda.
Ráðningarsamningur
í frumriti
með upplýsingum um launakjör umsækjanda en þau verða að ná viðmiði um lágmarkslaun
undirritaður af umsækjanda og vinnuveitanda
Ef þú vilt að einhver annar en þú fái upplýsingar um vinnslu umsóknarinnar hjá Útlendingastofnun þarftu að skila inn umboði þess efnis.
Kröfur til skjala
Útskýringar á kröfum sem gerðar eru til skjala sem skila þarf inn með umsókn.
Frumrit er aðaleintak skjals, það er fyrsta rit og ekki afrit.
Gerð er krafa um að frumrit erlendra skjala sem lögð eru fram með umsókn séu lögformlega staðfest. Frumrit íslenskra skjala þurfa ekki að vera staðfest.
Tvær viðurkenndar leiðir eru til þess að lögformlega staðfesta skjöl: apostille vottun og keðjustimplun. Hvor leiðin er farin ræðst af útgáfulandi skjals.
Apostille vottun
Apostille vottun er gerð í útgáfulandi vottorðs.
Til að fá apostille vottun þarf umsækjandi að fara með frumrit skjals til þess stjórnvalds sem veitir slíka vottun í útgáfulandi skjalsins áður en hann leggur inn umsókn.
Upplýsingar um hvaða lönd eru aðilar að Apostille samningnum.
Keðjustimplun
Keðjustimplun (einnig kallað tvöföld staðfesting) er notuð í löndum þar sem ekki er hægt að fá apostille vottun.
Það þýðir að vottorð þarf tvo stimpla til að geta talist lögformlega staðfest, annan frá útgáfulandi skjalsins og hinn frá sendiskrifstofu Íslands gagnvart útgáfulandinu.
Til að fá slíka stimplun þarf fyrst að senda frumskjalið til utanríkisráðuneytis þess lands sem gaf út skjalið. Viðkomandi ráðuneyti staðfestir skjalið og sendir það áfram til sendiráðs Íslands gagnvart útgáfulandinu eða umsækjandi sér sjálfur um að koma skjalinu til sendiráðsins. Sendiráð Íslands gagnvart útgáfulandinu staðfestir að lokum að fyrri stimpillinn sé réttur.
Upplýsingar um sendiskrifstofur Íslands
Með staðfestu afriti er átt við að afrit sé tekið af frumriti skjals og það staðfest af stjórnvaldi sem hefur heimild til að staðfesta skjöl.
Opinbert stjórnvald í útgáfulandi (útgáfuaðili eða annar opinber aðili) getur tekið staðfest afrit af skjölum.
Mikilvægt er að frumrit skjals hafi fengið lögformlega staðfestingu áður en tekið er af því staðfest afrit.
Ef erlent skjal er gefið út á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli, þarf einnig að leggja fram þýðingu þess.
Þýðing þarf að vera í frumriti eða staðfestu afriti.
Þýðing þarf að vera gerð af löggiltum skjalaþýðanda.
Þýðing má vera á íslensku, ensku eða Norðulandamáli.
Ef þýðing er unnin af skjalaþýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi þarf frumrit þýðingarinnar að vera lögformlega staðfest.
Listi yfir löggilta skjalaþýðendur
Félag löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda
Í sumum tilvikum þarf umsækjandi að leggja fram vottaða yfirlýsingu. Gerð er krafa um að yfirlýsingar séu lagðar fram í frumriti og séu dagsettar og undirritaðar af þeim aðila sem gefur yfirlýsinguna. Þá þarf yfirlýsingin að vera vottuð af opinberum aðila, til dæmis af lögbókanda (notarius publicus).
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun