Dvalarleyfi fyrir au pair er veitt í jafnlangan tíma og samningur um vistráðningu kveður á um en þó aldrei lengur en í eitt ár.
Dveljist handhafi leyfisins lengur en þrjá mánuði samfellt erlendis getur dvalarleyfið verið fellt niður. Dvalarleyfi útlendings fellur sjálfkrafa niður þegar lögheimili hans, sem skráð var hér á landi, hefur verið skráð erlendis í þrjá mánuði.
Réttur til að skipta um vistfjölskyldu
Ef vistráðningarsamningi er sagt upp, þarf að tilkynna Útlendingastofnun um það á þar til gerðu eyðublaði.
Au pair getur gert nýjan vistráðningarsamning við aðra vistfjölskyldu. Nýja samninginn þarf að leggja fram hjá Útlendingastofnun ásamt framfærslugögnum frá nýju vistfjölskyldunni.
Ef minna en þrír mánuðir eru eftir af gildistíma dvalarleyfis er rétt að sækja heldur um endurnýjun leyfisins.
Réttur til endurnýjunar leyfis
Dvalarleyfið má endurnýja einu sinni til eins árs en þó ekki lengur en samningur um vistráðningu gerir ráð fyrir.
Með umsókn um endurnýjun þarf að leggja fram nýjan vistráðningarsamning ásamt framfærslugögnum frá vistfjölskyldu.
Þrátt fyrir að dvalarleyfi hafi fallið niður er hægt að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi, ef það er gert innan gildistíma fyrra dvalarleyfis og sanngirnisástæður mæla með því.
Réttur til fjölskyldusameiningar
Dvalarleyfið veitir ekki rétt til fjölskyldusameiningar.
Réttur til að vinna
Dvalarleyfið veitir ekki rétt til að vinna á Íslandi, hvorki launað starf né ólaunað.
Réttur til ótímabundins dvalarleyfis
Dvalarleyfið getur ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.
Réttur til að sækja aftur um dvalarleyfi á Íslandi
Au pair getur ekki sótt um dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku á Íslandi fyrr en eftir tveggja ára samfellda dvöl erlendis frá lokum gildistíma au pair leyfisins.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun