Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Dvalarleyfi fyrir au pair

Dvalarleyfi fyrir au pair

Skilmálar

Umsækjandi og vistfjölskylda þurfa að gera með sér skriflegan samning sem gefinn er út af Útlendingastofnun.

Fæði og húsnæði

Vistfjölskylda skal útvega au pair fæði og læsanlegu sérherbergi með glugga á heimili fjölskyldunnar. Framfærslu- og uppihaldsskylda vistfjölskyldu nær einnig til frídaga og veikindadaga hins vistráðna.

Sjúkratrygging

Vistfjölskylda skal kaupa sjúkratryggingu fyrir au pair sem gildir fyrstu 6 mánuði dvalartímans.

Vasapeningar

Vistfjölskyldu ber að greiða au pair að lágmarki 15.000 krónur í vasapening á viku. Hærri upphæð vasapeninga veitir ekki heimild til að krefjast aukins vinnuframlags.

Verkefni á heimili vistfjölskyldu

Verkefni au pair á heimili vistfjölskyldu mega vera barnagæsla, fylgd barna til og frá skóla og í frístundir, og heimilisstörf, svo sem einföld þrif, einföld matreiðsla og létt innkaup.

Au pair á ekki að sjá um langveik börn eða aðra einstaklinga í svipaðri stöðu.

Vinnutími

Vinnutími au pair má að hámarki vera 30 tímar á viku eða 5 tímar á dag. Störfin eiga að vera unnin á dagvinnutíma og ekki má semja um lengri vinnutíma. Au pair á ekki að sinna næturvinnu en barnagæsla á nóttunni telst til næturvinnu.

Frítími

Au pair á rétt á einum frídegi í viku og minnst einni fríhelgi í mánuði. Eftir 26 vikna vinnu hjá vistfjölskyldu á au pair rétt á vikulöngu fríi og er au pair heimilt að dveljast annars staðar en hjá fjölskyldunni.

Ferðakostnaður

Vistfjölskylda og au pair skulu semja um greiðslu ferðakostnaðar til og frá Íslandi. Vistfjölskylda borgar að lágmarki helming ferðakostnaðar en hægt er að semja um að vistfjölskylda borgi allan ferðakostnað eða stærri hluta hans.

Vistfjölskyldan borgar allan ferðakostnað:

  • Ef fjölskyldan sjálf segir upp samningnum, án vanefnda au pair.

  • Ef au pair getur ekki staðið við samninginn vegna veikinda eða slyss.

  • Ef au pair segir upp samningi vegna vanefnda eða misferils vistfjölskyldu.

Ef upp kemur ágreiningur milli vistfjölskyldu og au pair um greiðslu ferðakostnaðar í kjölfar vistaslita (hvort heldur sem er vegna endurgreiðslu kostnaðar sem annar málsaðila hefur stofnað til vegna vistráðningarinnar eða kostnaðar sem fyrirsjáanlegt er að falli til vegna ferðar au pair aftur til heimalands) hefur Útlendingastofnun ekki úrræði til innheimtu á meintum kröfum annars eða beggja aðila. Ef vistfjölskylda og au pair ná ekki sáttum um kröfur sínar má leita til dómstóla til að leysa úr slíkum einkaréttarlegum ágreiningi.

Ráðningarslit

Unnt er að segja upp samningi um vistráðningu vegna misferlis samningsaðila eða vegna annarra alvarlegra aðstæðna.

Um misferli getur verið að ræða þegar samningsaðilar brjóta í verulegum atriðum gegn ákvæðum samnings um vistráðningu, til dæmis misnota starfskrafta au pair eða au pair brýtur af sér í starfi eða sinnir ekki starfsskyldum sínum. Dæmi um alvarlegar aðstæður eru veikindi eða slys þar sem annað hvort au pair eða vistfjölskylda er ófær um að efna samningsskuldbindingar sínar.

Samningsaðilum ber að segja samningi um vistráðningu upp skriflega og skal sá sem riftir samningnum tilkynna Útlendingastofnun um þá ráðstöfun á þar til gerðu eyðublaði. Riftun samnings tekur gildi þegar hún hefur verið birt gagnaðila.

Geri au pair nýjan samning við aðra vistfjölskyldu skal leggja samninginn fram hjá Útlendingastofnun ásamt framfærslugögnum frá nýju vistfjölskyldunni.

Au pair er bent á að leita til Útlendingastofnunar eða lögreglu þurfi viðkomandi á aðstoð að halda.

Dvalarleyfi fyrir au pair

Þjónustuaðili

Útlend­inga­stofnun