Ættleiðing stjúpbarns undir 18 ára aldri
Málsmeðferð hjá sýslumanni
Þegar umsókn berst sýslumanni fer málið í svokallaða upphafsvinnslu hjá embættinu þar sem aflað er sakavottorða og gagna frá Þjóðskrá Íslands. Að upphafsvinnslu lokinni er málinu úthlutað til fulltrúa sem yfirfer umsókn og fylgigögn.
Ef einhver skilyrði eru augljóslega ekki uppfyllt, svo sem skilyrði um aldur eða sambúðartíma, getur sýslumaður hafnað umsókninni á þessu stigi með úrskurði, án þess að óska fyrst umsagnar barnaverndarnefndar. Umsækjendum er þó áður gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn umsókn sinni til stuðnings
Kynforeldri er sent bréf þar sem því er kynnt framkomin umsókn og þess er óskað að það geri grein fyrir afstöðu sinni til umsóknarinnar.
Umsögn barnaverndarnefndar
Sýslumaður sendir málið því næst til umsagnar barnaverndarnefndar og óskar eftir því að nefndin kanni hagi og aðstæður umsækjanda og barns og veiti umsögn sína þar að lútandi, þ.e. hvort ættleiðing sé talin hagsmunum barnsins fyrir bestu og hvort mælt sé með því að ættleiðing verði heimiluð eða ekki. Barnaverndarnefndum er almennt veittur 3-4 mánaða frestur til að skila umsögn. Meðan málið er til umsagnar hjá barnaverndarnefnd er það í bið hjá sýslumanni.
Þegar umsögn barnaverndarnefndar berst sýslumanni er hún yfirfarin af hálfu fulltrúa sýslumanns. Umsögnin er kynnt umsækjanda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Á þessu stigi tekur sýslumaður afstöðu til umsóknarinnar. Séu öll skilyrði uppfyllt gefur sýslumaður út leyfi til ættleiðingar.
Umsögn ættleiðingarnefndar
Telji sýslumaður þörf á, svo sem ef vafi er talinn á því hvort skilyrði fyrir útgágu forsamþykkis eru uppfyllt, getur sýslumaður óskað eftir umsögn ættleiðingarnefndar. Sé leitað umsagnar ættleiðingarnefndar er nefndinni almennt veittur þriggja mánaða frestur til að skila umsögn. Þegar umsögnin liggur fyrir er hún kynnt umsækjendum og þeim gefinn kostur á athugasemdum.
Þegar nægilegar upplýsingar liggja fyrir tekur sýslumaður ákvörðun um hvort gefið er út ættleiðingarleyfi eða umsókninni hafnað.
Taka skal fram að umsagnir barnaverndarnefndar og ættleiðingarnefndar eru ekki bindandi fyrir sýslumann þegar hann ákveður hvort gefið er út forsamþykki eða því hafnað.
Telji sýslumaður ættleiðingu ekki hagsmunum barnsins fyrir bestu er umsókninni hafnað með úrskurði.
Þjónustuaðili
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu