Hvernig opin vinnurými eru skipulögð getur haft mikil áhrif á líðan starfsfólks, afköst og vinnuanda. Í opnum vinnurýmum er erfiðara að stjórna umhverfisþáttum fyrir hvern og einn starfsmann. Meðal umhverfisþátta sem þarf að huga að eru eftirfarandi:
Loftgæði hafa umtalsverð áhrif á starfsumhverfið og algengustu kvartanir almennt vegna óþæginda í starfsumhverfi tengjast innilofti. Huga þarf vel að loftgæðum í opnum rýmum og taka tillit til að þarfir og skynjun starfsfólks getur verið mjög mismunandi og skiptar skoðanir hvenær opna skuli glugga svo dæmi sé tekið.
Hljóðvist hefur mikil áhrif á starfsumhverfið og líðan starfsfólks. Hljóð skapast fyrst og fremst af umgangi starfsfólks og tali. Hægt er að skapa góða hljóðvist með ýmsum hætti svo sem hljóðdempandi skilrúmum milli vinnustöðva, loftplötum sem draga í sig hljóð og ísogefni á veggjum. Í umgengnisreglum má setja reglur um mismunandi vinnurými svo sem í næðisrýmum og einbeitingarrýmum, notkun á símum í einstaka rýmum og svo framvegis.
Lýsing í opnu rými er eðli máls samkvæmt eins fyrir alla starfsmenn. Lýsing og birta hefur mikil áhrif á almenna líðan og skap. Hægt er að aðlaga lýsingu að þörfum hvers og eins með sérlýsingu á hverri vinnustöð.
Sjónáreiti felst í truflun sem starfsfólk verður fyrir við sjónræna truflun, til dæmis í hvert skipti sem samstarfsfólk kemur inn í eða fer út úr rýminu. Röðun vinnustöðva, skilrúm, skyggt gler, skipulagning gönguleiða og aðrir þættir geta dregið úr sjónáreiti.
Lyktaráreiti felst í truflun af lykt. Lykt getur verið af matvælum og almennt er ekki leyft að borða við vinnustöð í opnum rýmum. Einnig getur verið sterk lykt af ilmvötnum og rakspírum sem geta truflað samstarfsfólk.