Fara beint í efnið

Vorviður – umsókn um stuðning við skógrækt félaga og samtaka

Umsókn um stuðning til skógræktar

Almennt

Gert er ráð fyrir að Vorviður auglýsi eftir umsóknum frá félögum og samtökum um stuðning til skógræktar fljótlega á árinu 2025.

Verkefnið Vorviður er hluti aðgerðaráætlunar ríkisstjórnar­innar í loftslagsmálum og bættri landnýtingu í þágu loftslags. Með því gefst almannafélögum og félagasamtökum kostur á að binda kolefni með eigin skógrækt.

Umsóknarfrestur fyrir verkefni árið 2025 er til 1. apríl 2025.

Umsóknarferli

Í umsókn þarf að koma fram:

  • Heiti félags og kennitala ef við á, heimilisfang, símanúmer og netfang félags og forsvarsmanns eða tengiliðar

  • Ræktunarsvæði, staðsetning og landgerð, lýsing ásamt mynd eða korti.

  • Skipulagsleg staða landsins og verndarákvæði ef einhver eru.

  • Áætlað umfang, landstærð og stuðningur sem óskað er eftir

  • Upplýsingar um fyrirkomulag eignarhalds eða umráðaréttar á landi

Skilyrði

Umsækjendur

Eftirfarandi félög geta sótt um:

  • Formleg félög sem ekki hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, til dæmis góðgerðarfélög og áhugamannasamtök.

  • Óformleg félög sem ekki hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, til dæmis vinnustaða­félög.

  • Félög sem hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, til dæmis skógræktar­félög.

Fyrirtæki og opinberar stofnanir eða félög eins og hf., ehf., sf., ohf. koma ekki til greina.

Land

Eftirfarandi landsvæði koma til greina:

  • Stærri lönd sem eru skipulögð til skógræktar og eru friðuð fyrir beit eða svæði inn­an slíkra heilda, til dæmis svæði innan skógræktarsvæða sveitarfélaga eða annarra aðila.

  • Stærri einkalönd sem eru friðuð fyrir beit.

  • Minni svæði sem eru friðuð fyrir beit, en þó ekki minni en 1 hektari.

Frístundalóðir og svæði sem ekki eru friðuð fyrir beit koma ekki til greina.

Úthlutun

Niðurstöður verða kynntar í maí 2025.

Félög sem hyggjast nota land sem þegar er skilgreint sem skógræktarland í skipulagi munu njóta forgangs. Forgangsröðun mótast einkum af ræktunaröryggi, aðallega hvað varðar beitarfriðun og örugga getu félaga til að koma hlutum í verk.

Félag sem hlýtur stuðning gerir samning við Land og skóg fyrir eitt ár í senn. Samningurinn er byggður á upplýsingum umsækjanda, einfaldri ræktunaráætlun og kostnaðaráætlun.

Uppgjör

Fyrir 1. október skulu styrkþegar skila inn framkvæmdaskýrslu á þar til gerðu eyðu­blaði ásamt útlínum hins nýja skógar, hnituðu inn með sérstöku appi eða með útlínum teiknuðum á loftmynd.

Bökkum undan skógarplöntum ber að skila á afhendingarstað sem fyrst eftir gróðursetningu.

Umsókn um stuðning til skógræktar

Þjónustuaðili

Land og skógur