Skimun fyrir leghálskrabbameini
Leghálsspeglanir
Leghálsspeglun er smásjárskoðun á leghálsi, sem gerð er ef forstigsbreytingar finnast í leghálsstroki við skimun. Forstigsbreytingar eru hááhættu HPV sýking og/eða frumubreytingar. Frumubreytingar eru oftast orsakaðar af HPV veirusýkingu (human papilloma virus). Vægar frumubreytingar hverfa oft sjálfkrafa án meðferðar og því er nægjanlegt að hafa eftirlit með þeim eftir 6-12 mánuði. Ef forstigsbreytingar eru viðvarandi eða ef hágráðu frumubreytingar finnast, er þörf á leghálsspeglun til frekari greiningar. Við leghálsspeglun er leghálsinn skoðaður og vefjasýni tekin til vefjagreiningar.
Hvernig fer leghálsspeglun fram?
Læknir framkvæmir rannsóknina sem tekur um 10-15 mínútur. Gerð er hefðbundin kvenskoðun, leghálsinn er skoðaður og tekin sýni.
Að jafnaði tekur um 2-3 vikur að fá niðurstöður úr leghálsspeglun. Þá er tekin ákvörðun um áframhaldandi eftirlit eða meðferð. Æskilegt er að leghálsspeglanir séu framkvæmdar af læknum sem fengið hafa sérstaka þjálfun.
Tilvísanir í leghálsspeglun
Leghálsspeglanir eru framkvæmdar á göngudeild kvennadeildar á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og hjá nokkrum kvensjúkdómalæknum á stofu. Samhæfingarstöð krabbameinsskimana og kvensjúkdómalæknar senda tilvísun fyrir leghálsspeglun.
Tilvísun til göngudeildar kvennadeildar á Landspítala er send úr Heilsugátt
Tilvísun til göngudeildar kvennadeildar Sjúkrahússins á Akureyri skal send á hefðbundnu pappírsformi á Sjúkrahúsið á Akureyri, Kvensjúkdómadeild við Eyrarlandsveg, 600 Akureyri
Fyrir heilbrigðisstarfsfólk:
Leghálsspeglanir - leiðbeiningar og flæðirit
Þjónustuaðili
Embætti landlæknisTengd stofnun
Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu