Skimun fyrir leghálskrabbameini
HPV sýking (human papilloma virus)
HPV sýking er orsök krabbameins í leghálsi í 99% tilvika og smitast veiran við kynmök. Algengt er að konur sýkist af veirunni á aldrinum 20-30 ára. Flestar konur finna ekki fyrir einkennum sýkingar og vinna bug á henni á innan við 2 árum. Um 10-15% kvenna fá hins vegar langvinna sýkingu sem getur valdið frumubreytingum á leghálsi með tímanum. Eina leiðin til að vita hvort sýking hafi átt sér stað er að skima reglulega með sýnatöku frá leghálsi. Ekki er mælt með skimun hjá konum sem farið hafa í fullkomið legnám (total hysterectomy) þar sem þær eru ekki með legháls.
Bólusetning
Bólusetningar gegn HPV hófust hérlendis 2011. Byrjað var að bólusetja stúlkur fæddar 1998 og 1999 en lengst af átti bólusetningin eingöngu við12 ára stúlkur þar sem megintilgangur var að hindra leghálskrabbamein. Frá 2023 er HPV-bólusetningin hluti af almennum bólusetningum allra 12 ára barna, óháð kyni.
Bólusetningin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi en læknar ekki sjúkdóma sem orsakast af HPV-sýkingum. Einn skammtur veitir töluverða vörn og eru bólusetningar í sumum löndum nú miðaðar við einn skammt. Hér á landi eru upplýsingar um ávinning bólusetningar til að draga úr útbreiðslu HPV sýkinga enn að koma fram og ekki tímabært að fækka skömmtum úr tveimur í einn.
Eldri einstaklingar eiga kost á að fá bóluefnið gegn lyfseðli og með því að greiða fyrir það.
Enn er mjög mikilvæg að hindra þróun krabbameins meðan HPV er útbreitt í samfélaginu. Þar sem ekki fæst full vörn gegn krabbameinsvaldandi HPV með bólusetningunni er mikilvægt fyrir konur að fara reglulega í leghálskrabbameinsskimun þar sem tekið er frumustrok frá leghálsi til greiningar forstigsbreytinga eða krabbameins á byrjunarstigi.
HPV frumskimun
Mikil þróun hefur átt sér stað með HPV frumskimun á síðustu árum og eru mörg lönd búin að taka upp sjálftökupróf, þ.e. konan tekur sjálf sýnið með sérstökum búnaði sem sendur er í HPV mælingu. Þær konur sem mælast með HPV í þessum sjálftökuprófum eru síðan kallaðar inn í frekari skoðun en gera má ráð fyrir að um 15% af konum mælist með veiruna. Stefnt er að því að taka upp sjálftökupróf að hluta á næstu árum og verður það kynnt þegar þar að kemur.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknisTengd stofnun
Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu