Ársskýrsla 2019
Nýr forstjóri hóf störf hjá Vinnueftirlitinu í ársbyrjun og var hafin vinna við að skerpa á hlutverki, framtíðarsýn og stefnu stofnunarinnar. Vinnuumhverfi vinnustaða er að taka miklum breytingum dag frá degi vegna aukinnar þekkingar, tækniframfara og hnattvæðingar samhliða breyttum samfélagsháttum. Kröfur um að standast andlegt álag og tileinka sér nýjungar hafa aukist. Þessar breytingar kalla á breytt viðhorf og nýjar nálganir á sviði vinnuverndar sem óhjákvæmilega hafa áhrif á störf okkar.
Hlutverk Vinnueftirlitsins er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu. Framtíðarsýn og stefna Vinnueftirlitsins til ársins 2023 var samþykkt á vordögum sem endurspegla þær áskoranir sem eru fyrir hendi á innlendum vinnumarkaði. Nýtt skipurit tók gildi í maí og tóku nýir stjórnendur til starfa á árinu.
Aukin áhersla er á samþættingu sérfræðiþekkingar og eftirlits með einstökum áhættuþáttum í vinnuumhverfi. Með öflugu fyrirtækjaeftirliti beinum við kröftum okkar að þeim áskorunum þar sem við höfum mest samfélagsleg áhrif. Við beinum sjónum okkar jafnt að þeim áhættuþáttum sem hafa áhrif á líkamlegt álag og félagslegum áhættuþáttum sem ekki eru alltaf sýnilegir í vinnuumhverfinu. Vinnuvélar og tæki eru á mörgum vinnustöðum og með skilvirku vinnuvélaeftirliti tryggjum við öryggi og heilsu starfsmanna og annarra og stuðlum að auknu öryggi við notkun vélanna.
Svo við náum árangri í vinnuvernd vinnustaða á innlendum vinnumarkaði viljum við eiga góða samvinnu við bæði atvinnurekendur, stjórnendur og starfsmenn um að allir taki ábyrgð á að bæta öryggismenningu og stuðla að góðu, öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi í daglegum störfum vinnustaða sinna. Öflug vinnuvernd getur aldrei verið eingöngu á ábyrgð atvinnurekanda eða stjórnenda. Þeir gegna vissulega þýðingamiklu hlutverki við að koma á góðri öryggismenningu en það dugar ekki til ef aðrir sem starfa innan vinnustaðarins axla ekki einnig ábyrgð. Hvert og eitt okkar höfum áhrif á vinnuumhverfið sem við störfum innan og við þurfum að vera meðvituð um það.
Kæri lesandi, mig langar því að hvetja þig til að skoða vel hvað þú getur lagt af mörkum til að gera vinnustað þinn að góðum vinnustað þar sem öllum líður vel. Ábyrgðin er okkar allra.
Kær kveðja,
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir
Forstjóri
Hlutverk
Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu.
Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum. Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi. Vinnueftirlitið tekur jafnframt þátt í rannsóknarstarfi á sviði vinnuverndar.
Gildi Vinnueftirlitsins
Frumkvæði
Felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.
Forvarnir
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.
Fagmennska
Felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.
Stjórn
Félags- og barnamálaráðherra skipar stjórn Vinnueftirlitsins til fjögurra ára í senn. Hlutverk stjórnar er að vera ráðherra og forstjóra stofnunarinnar til ráðgjafar í málum sem tengjast vinnuvernd. Stjórnarfundir eru að öllu jöfnu haldnir mánaðarlega að frátöldum sumarmánuðunum.
Stjórnarmenn eru níu. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Einn stjórnarmaður kemur frá fjármálaráðuneytinu en aðrir stjórnarmenn eru tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins.
Varamenn í stjórn eru skipaðir með sama hætti. Tveir áheyrnarfulltrúar starfsfólks sitja einnig stjórnarfundi, annar úr hópi starfsfólks sem eru félagsmenn aðildarfélaga BHM og hinn úr hópi starfsfólks sem eru félagsmenn Sameyki.
Í stjórn árið 2019 sátu Margrét S. Björnsdóttir, formaður, Björn Ágúst Sigurjónsson og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir frá ASÍ, Georg Brynjarsson frá BHM, Sverrir Björn Björnsson frá BSRB, Jón Rúnar Pálsson og Kristín Þóra Harðardóttir frá SA, Inga Rún Ólafsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Helgi Valberg Jensson frá fjármálaráðuneytinu.
Eftirlit með vélum og tækjum er stór þáttur í starfsemi Vinnueftirlitsins. Sömuleiðis fyrirtækjaeftirlit þar sem haft er eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og gefin fyrirmæli um úrbætur gerist þess þörf. Slysaskrá stofnunarinnar er ekki síður mikilvægur hornsteinn í starfseminni en þar er haldið utan um öll vinnuslys sem tilkynnt eru til stofnunarinnar lögum samkvæmt. Markmiðið með því að halda miðlæga skrá er ekki hvað síst að sjá hvar úrbóta er þörf til að fyrirbyggja frekari slys og heilsutjón.
Vinnuvélaeftirlit
18.125 vinnuvélar og tæki voru skoðuð á árinu eða 70% af skráðum vinnuvélum og tækjum.
94% Hlutfall skoðaðra lyfta
27864 tæki og vélar skoðaðar í lok árs
1065 Nýskráningar tækja og fært af forskrá frá fyrra ári
831 Tækja ekki færð til skoðunar á árinu
107 Vinnuvélar sem notkun var bönnuð á árinu
Fyrirtækjaeftirlit
1.079 fyrirtækjaskoðanir á þessu ári. Flestar í veitinga- og hótelrekstri, bygginga- og mannvirkjagerð, opinberri þjónustu og fiskiðnaði.
653 Reglubundnar skoðanir
3 Reglubundnar endurskoðanir
412 Takmarkaðar úttektir
11 Takmarkaðar endurskoðanir
Fjöldi fyrirmæla: 3.198 Algengast er að gefa fyrirmæli um öryggismál undir þann lið eru fyrirmæli sem gefin voru í mannvirkjagerð og varðandi vélar og tæki. Næst algengast var að gefa fyrirmæli um vinnuverndarstarf og efnaáhættur.
Tilefni skoðana voru að stærstum hluta vegna ákvörðunar Vinnueftirlitsins eða í 582 tilfellum. Í 291 tilfelli voru þær að beiðni eigenda, í 127 tilfellum vegna slyss eða óhapps og í 42 tilfellum vegna kvörtunar.
Fjöldi þar sem notkun tækja eða vinna hefur verið bönnuð: 144
Fjöldi dagsektarmála:127
Fjöldi leyfisveitinga (þ.e. umsagnir um veitingaleyfi, starfsleyfi, leyfi fyrir niðurrifi á asbesti og löggildingu rafvirkja): 1118, þar af 969 umsagnir um veitingaleyfi
Vinnuslys
2 Banaslys við vinnu
2215 Tilkynnt vinnuslys. Þar af 1364 karlar og 851 konur.
360 Slys í opinberri stjórnsýslu
344 Slys í opinberri þjónustu
208 Slys í mannvirkjagerð
210 Slys í flutningastarfsemi
Regluleg námskeið Vinnueftirlitsins
Vinnueftirlitið býður upp á fjölbreytt námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum.
Árið 2019 sátu samtals 3157 nemendur námskeið hjá Vinnueftirlitinu.
Samtals sátu 798 nemendur vinnuverndarnámskeið, þar af 366 námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og 432 önnur vinnuverndarnámskeið.
Samtals sátu 2011 réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla, þar af 671 frumnámskeið á íslensku, 147 frumnámskeið á ensku og 177 frumnámskeið á pólsku, 18 byggingakrananámskeið og 998 önnur vinnuvélanámskeið.
Samtals sátu 225 ADR námskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm á götum úti.
123 sátu námskeið um meðhöndlun á Asbesti.
Mannauður
Starfsfólk Vinnueftirlitsins var 72 í lok árs 2019, 47 karlar og 25 konur með fjölbreytta menntun og víðtæka þekkingu og reynslu á starfssviði stofnunarinnar.
Starfsemin er dreifð á 9 starfsstöðvar um allt land. Árið 2019 var 64% starfsfólks starfandi í Reykjavík en 36% í öðrum landshlutum. Fjöldi stöðugilda (ársverk) voru hins vegar 73 á árinu.
Janúar
Nýr forstjóri
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, skipaði Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins frá og með 1. janúar.
Hanna Sigríður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og BA-próf í sálfræði. Hún á baki langan starfsferil innan stjórnsýslunnar og lengst af sem stjórnandi, eða allt frá því hún var sett yfir skrifstofu jafnréttis- og vinnumála í félagsmálaráðuneytinu árið 2004.
Hanna Sigríður hefur yfirgripsmikla þekkingu á verkefnum sem lúta að vinnumálum í víðu samhengi enda hefur hún um langt árabil unnið á sviði vinnuverndar og vinnumála.
Febrúar
Undirritun viljayfirlýsingar um heilsueflingu á vinnustöðum
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir forstjóri Vinnueftirlitsins, Alma D Möller landlæknir og Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs undirrituðu viljayfirlýsing um heilsueflingu á vinnustöðum hinn 21 febrúar. Markmið verkefnisins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan á vinnustöðum á Íslandi meðal annars með því að móta viðmið fyrir heilsueflandi vinnustaði.
Samstarfsaðilarnir komu sér saman um að eigi síðar en haustið 2019 yrði farið formlega af stað með tilraunaverkefni tíu vinnustaða af mismunandi stærðum og gerðum sem myndu innleiða viðmið heilsueflandi vinnustaða og var því verkefni hleypt af stokkunum í nóvember.
Stofnanirnar stóðu jafnframt fyrir þremur morgunfundum undir yfirskriftinni heilsueflandi vinnustaðir á árinu. Hamingja á vinnustöðum er alvörumál (febrúar); Er ávaxtakarfa og líkamsræktarstyrkur nóg? (maí) og Fara teymisvinna og vellíðan saman (september).
Mars og apríl
Vinnuvélahermar teknir í notkun
Vinnueftirlitið tók í mánuðinum í notkun herma fyrir vinnuvélar bæði til verklegrar próftöku og til verklegrar þjálfunar stjórnenda vinnuvéla.Fram að því höfðu verkleg próf eingöngu verið framkvæmd við misgóðar aðstæður á vinnustöðum þar sem vélarnar eru í notkun. Í hermunum er hægt að prófa á samræmdan hátt með stöðluðum aðferðum og við öruggar aðstæður.
Ný framtíðarsýn til 2023 var samþykkt í mars og ný stefna í apríl. Sýn Vinnueftirlitsins er að allir komi heilir heim úr vinnu og áhersla á þróun öryggismenningar, hvort sem er líkamlegt eða félagslegt öryggi.
Maí
Nýtt skipurit
Nýtt skipurit var innleitt 15. maí. Samkvæmt því greinist starfsemin í heilsu- og umhverfissvið, öryggis- og tæknisvið og vinnuvélasvið ásamt sviði rekstrar og innri þjónustu.
Ágúst
Ráðstefna um vinnu við klifur í trjám
Vinnueftirlitið hefur frá árinu 2016 verið þátttakandi í Erasmus verkefninu „Safe climbing“ en mikið er um alvarleg slys við trjáklifur og skógarhögg á heimsvísu. Skógarhögg er vaxandi atvinnugrein hér á landi og því mikilvægt að vekja athygli á þeirri hættu sem henni fylgir og hvernig unnt er að gera viðeigandi ráðstafanir til að draga úr henni.
Vinnueftirlitið og Landbúnaðarháskólinn héldu ráðstefnu um verkefnið í ágúst en því lauk í september. Verkefnið hafði þann tilgang að útbúa og þróa rafrænt námsefni og áfangalýsingar fyrir trjáklifur auk þess að þjálfa klifrara til að starfa við og kenna klifur við Landbúnaðarháskóla Íslands í framtíðinni. Nánari upplýsingar um verkefnið og afurðir þess má finna á safeclimbing.net
Ágúst – nóvember
Þrír nýir sviðsstjórar
Þrír nýir sviðsstjórar tóku til starfa á bilinu ágúst til nóvember en stöður þeirra voru auglýstar samkvæmt nýju skipuriti stofnunarinnar sem tók gildi 15. maí. Þeir eru Svava Jónsdóttir sem stýrir heilsu- og umhverfissviði, Brynjar Þór Jónasson sem fer fyrir öryggis- og tæknisviði og Heimir Guðmundsson sem stýrir vinnuvélasviði. Sviðsstjórarnir eru jafnframt hluti af framkvæmdastjórn Vinnueftirlitsins.
Október
Tvær ráðstefnur um meðferð hættulegra efna á vinnustöðum
Vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA) um meðferð hættulegra efna var hleypt af stokkunum árið 2018. Átakið var til tveggja ára og tók Vinnueftirlitið virkan þátt bæði 2018 og 2019. Tvær ráðstefnur voru haldnar um efnið 2018 og aðrar tvær 2019. Fyrri ráðstefnan 2019 var haldin á Ísafirði 9. október með áherslu á öryggismál og meðferð hættulegra efna hjá starfsmönnum í fiskeldi og fiskvinnslu. Síðari ráðstefnan var haldin á Grand Hóteli í Reykjavík 23. október en þar var sjónum beint að rafrænum verkfærum á netinu sem ætlað er að auðvelda áhættumat og stýringu hættulegra efna í vinnuumhverfinu.
Nóvember
Norræn vinnumarkaðsráðstefna
Norræna ráðstefnan „The Working Conditions of Tomorrow“ – nýjar áskoranir á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi var haldin þann 7. nóvember á Grand Hótel í Reykjavík og var þátttaka mjög góð. Að henni stóðu félagsmálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun í samstarfi við norrænu fræðslustofnunina NIVA.Félagsmálaráðherra opnaði ráðstefnuna en fyrirlesarar voru sérfræðingar í vinnuumhverfis- og vinnumarkaðsmálum, bæði innlendir og frá öðrum Norðurlöndum. Helstu áherslur voru:
breytingar á vinnumarkaði sem geta haft áhrif á vinnuumhverfi framtíðarinnar og starfsaðstæður.
hvernig hægt er að skapa góða vinnustaði sem stuðla að heilsu, öryggi og réttindum starfsfólks.
skipulegt samstarf þvert á landamæri og innanlands til þess að uppræta félagsleg undirboð og vinnumarkaðsglæpi.
Í lok ráðstefnunnar var pallborð með þátttöku aðila vinnumarkaðarins og annarra sérfræðinga.
Samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undirritað
Stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði, það er lögreglan, ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun gerðu hinn 15. nóvember með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf og samráð gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Í lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda var mikilvægi aðgerða gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi áréttað og kveðið á um að samkomulag af þessu tagi yrðu gert.
Markmið samkomulagsins er að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á vinnumarkaði lúti þeim lögum og kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
Desember
Vinnueftirlitið hlýtur jafnlaunavottun
Vinnueftirlitið hlaut jafnlaunavottun Jafnréttisstofu samkvæmt staðlinum ÍST 85:2012 þann 23. desember. Vottunin staðfestir að starfsfólk Vinnueftirlitsins sem vinnur sömu og/eða jafnverðmæt störf fær sömu laun og að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.