Ársskýrsla 2018
Eyjólfur Þór Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, lést 5. október 2018. Hann var forstjóri stofnunarinnar frá stofnun hennar í janúar 1981 til dánardags en hafði tekið við embætti Öryggismálastjóra ríkisins árinu áður.
Eyjólfur var mikill áhugamaður um vinnuvernd og bar hag stofnunar sinnar og starfsfólks fyrir brjósti. Hann var óþreytandi í baráttu sinni við að vekja athygli ráðamanna, atvinnurekanda og annarra á mikilvægi þess að atvinnurekendur gerðu áhættumat og innleiddu forvarnir til að koma í veg fyrir slys á starfsfólki sínu. Honum var sérstaklega umhugað um að hlúa vel að ungu fólki sem var að taka fyrstu skrefin sín á vinnumarkaði. Tók hann það sérstaklega nærri sér þegar ungt fólk varð fyrir slysum eða öðrum skakkaföllum við vinnu sína.
Oft var á brattan að sækja í þessum efnum enda tíðarandinn um margt ólíkur því sem við þekkjum í dag er Eyjólfur hóf störf hjá Vinnueftirlitinu. Almennt var lítil þekking á vinnuverndarstarfi og hvorki atvinnurekendur né starfsfólk var endilega meðvitað um hætturnar. Fólk harkaði af sér og lét sig hafa ýmsar aðstæður þar sem það þekkti ef til vill ekki annað. Þessu vildi Eyjólfur breyta og tileinkaði málaflokknum mestan hluta starfsævi sinnar.
Þátttakendur á innlendum vinnumarkaði eiga því eldmóði Eyjólfs og þrautseigju margt að þakka enda ekki maður uppgjafar. Notaði hann hvert tækifæri sem honum gafst til að koma mikilvægi vinnuverndar áleiðis enda þótti honum það eðlileg mannréttindi að fólk gæti starfað við öryggi og góðan aðbúnað á vinnustöðum.
Eyjólfur var virkur þátttakandi í erlendu samstarfi á sviði vinnuverndar og kom hann þar víða fram sem verðugur fulltrúi íslenskra stjórnvalda. Hann var sjálfur hafsjór af fróðleik á þessu sviði sem hann var óeigingjarn á að miðla áfram, bæði hér heima og erlendis. Tók hann þátt í evrópsku og norrænu samstarfi og sat í stjórnarnefnd Vinnuverndarstofnunar Evrópu.
Vinnueftirlitið þakkar Eyjólfi fyrir vel unnin störf í þágu vinnuverndar hér á landi í hartnær 40 ár.
Hlutverk
Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu.
Lykilþáttur í starfsemi stofnunarinnar er að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi með áherslu á forvarnir og eftirlit með vinnuumhverfi, vinnuvélum og tækjum.
Þá annast stofnunin fræðslu um vinnuvernd, virka innleiðingu öryggismenningar á vinnustöðum og innleiðingu markvissra aðferða í vinnuverndarstarfi.
Vinnueftirlitið tekur jafnframt þátt í rannsóknarstarfi á sviði vinnuverndar.
Gildi Vinnueftirlitsins
Frumkvæði
Felst í því að leggja óumbeðið fram tillögur sem stuðla að framförum og taka þátt í því að hrinda þeim í framkvæmd þegar við á.
Forvarnir
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir heilsutjón og draga úr afleiðingum atburða og aðstæðna sem gætu valdið heilsutjóni.
Fagmennska
Felur í sér að verk séu unnin heiðarlega, á grundvelli fullnægjandi þekkingar og í samræmi við lög, reglur og viðurkennt verklag.
Nýjar reglugerðir
Vinnueftirlitið vinnur í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og samtök aðila vinnumarkaðarins að gerð reglugerða sem settar eru á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Reglugerð nr. 727/2018 um Tæki sem brenna gasi
Reglugerð nr. 728/2018 um Gerð persónuhlífa
Reglugerð nr. 729/2018 um Röraverkpalla
Reglugerð nr. 1070/2018 um Togbrautabúnað til fólksflutninga
Eftirlit með vélum og tækjum er stór þáttur í starfsemi Vinnueftirlitsins. Sömuleiðis fyrirtækjaeftirlit þar sem haft er eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og gefin fyrirmæli um úrbætur gerist þess þörf. Slysaskrá stofnunarinnar er ekki síður mikilvægur hornsteinn í starfseminni en þar er haldið utan um öll vinnuslys sem tilkynnt eru til stofnunarinnar lögum samkvæmt. Markmiðið með því að halda miðlæga skrá er ekki hvað síst að sjá hvar úrbóta er þörf til að fyrirbyggja frekari slys og heilsutjón.
Vinnuvélaeftirlit
17.988 vinnvélar og tæki voru skoðuð á árinu eða 72% af skráðum vinnuvélum og tækjum
94 % Hlutfall skoðaðra lyfta
28.026 Tæki og vélar í lok árs
2.208 nýskráð tæki færð af forskrá frá fyrra ári
132 fjöldi bannaðra vinnuvéla á árinu
Fyrirtækjaeftirlit
1.205 fyrirtækjaskoðanir voru framkvæmdar. Flestar í veitinga- og hótelrekstri, bygginga- og mannvirkjagerð, opinberri þjónustu, fiskiðnaði og smásöluverslun.
683 Reglubundnar skoðanir
8 Reglubundnar endurskoðanir
501 Takmarkaðar úttektir
13 Takmarkaðar endurskoðanir
Tilefni skoðana var að stærstum hluta að frumkvæði Vinnueftirlitsins eða í 658 tilfellum. Í 230 tilfellum voru þær að beiðni eigenda, í 157 tilfellum vegna slyss eða óhapps og í 55 tilfellum vegna kvörtunar.
Fjöldi
fyrirmæla: 3.170. Algengast er að gefa fyrirmæli um öryggismál, vinnuverndarstarf, vélar og tæki.
þar sem notkun tækja eða vinna hefur verið bönnuð: 156
dagsektarmála: 121
leyfisveitinga (þ.e. umsagnir um veitingaleyfi, starfsleyfi, leyfi fyrir niðurrifi á asbesti og löggildingu rafvirkja): 1.076, þar af 967 umsagnir um veitingaleyfi.
Vinnuslys
3 Banaslys við vinnu
2203 Fjöldi tilkynntra vinnuslysa. Þar af 1439 karlar og 764 konur.
369 Slys urðu í opinberri stjórnsýslu
201 Slys í opinberri þjónustu
268 Slys í mannvirkjagerð
220 Slys í flutningastarfsemi
Þróun tilkynntra vinnuslysa 2008 – 2018
Öll slys þar sem starfsmaður er fjarverandi að minnsta kosti einn dag til viðbótar við slysdaginn skal tilkynna til Vinnueftirlitsins. Tilkynningum hefur fjölgað síðustu árin í takt við fjölgun starfandi á vinnumarkaði.
Vinnuslys 2008-2018
Á árabilinu 2014-2016 urðu um 1,10-1,11% þeirra sem voru á vinnumarkaði fyrir vinnuslysum en hlutfallið var lægst árið 2010 eða 0,8% (sjá töflu hér að neðan). Árið 2017 má sjá að aðeins dregur út tilkynntum slysum miðað við fjölda starfandi (1,10%) borið saman við árið 2016 (1,11%), en hlutfallið 2018 er sama og 2015 og 2016. Má því telja að litlar breytingar hafa orðið á fjölda tilkynntra vinnuslysa.
Hlutfall slasaðra af þeim sem starfa á vinnumarkaði árin 2008-2018.
Ár | Fjöldi starfandi | Fjöldi slysa | Hlutfall slasaðra |
---|---|---|---|
2008 | 179.100 | 1865 | 1,04% |
2009 | 168.000 | 1367 | 0,81% |
2010 | 167.400 | 1339 | 0,80% |
2011 | 167.400 | 1557 | 0,93% |
2012 | 169.100 | 1642 | 0,97% |
2013 | 175.000 | 1801 | 1,03% |
2014 | 177.800 | 1964 | 1,10% |
2015 | 183.700 | 2052 | 1,11% |
2016 | 190.600 | 2117 | 1,11% |
2017 | 194.000 | 2137 | 1,10% |
2018 | 198.400 | 2203 | 1,11% |
Byggt á tilkynningum til Vinnueftirlitsins og fjölda starfandi skv. Hagstofu Íslands.
Flestar tilkynningar um vinnuslys árin 2014-2018 voru vegna starfa í opinberri stjórnsýslu, opinberri þjónustu, bygginga- og mannvirkjagerð og flutningastarfsemi.
Við samanburð milli áranna 2017 og 2018 kemur í ljós að það er hlutfallslega mest fjölgun tilkynntra slysa frá veitingahúsum og hótelum (32%), flutningastarfsemi (12%) og opinberri stjórnsýslu (4%). Vöxtur í ferðaþjónustu hefur haft áhrif á þessar starfsgreinar og verkefnum fjölgað hjá vissum starfshópum, meðal annars hjá lögreglunni og í þjónustugreinum. Fjölgun tilkynninga frá hótelum og veitingastöðum getur ef til vill einnig skýrst af aukinni vitund í starfsgreininni, meðal annars eftir eftirlitsátak Vinnueftirlitsins á hótelum árin 2017-2018. Það getur hafa stuðlað að aukinni vitneskju um skyldu atvinnurekenda að tilkynna vinnuslys.
Vinnuslysum í bygginga- og mannvirkjagerð hefur fjölgað um 35% á árabilinu 2014-2018, að teknu tilliti til fjölda starfandi í greininni. Erlent starfsfólk er margt í greininni og er það í aukinni áhættu vegna félagslegra undirboða, sem geta haft þau áhrif að vinnuslys eru síður tilkynnt. Það er áskorun sem Vinnueftirlitið ásamt öðrum eftirlitsstofnunum stendur frammi fyrir og vinnur kerfisbundið að því að ráða bót á.
Regluleg námskeið Vinnueftirlitsins
Vinnueftirlitið býður upp á fjölbreytt námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum.
Árið 2018 sátu samtals 3729 nemendur námskeið hjá Vinnueftirlitinu.
Samtals sátu 944 nemendur vinnuverndarnámskeið, þar af 587 námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og 357 önnur vinnuverndarnámskeið.
Samtals sátu 2376 réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla. Þar af 775 frumnámskeið á íslensku, 138 frumnámskeið á ensku og 385 frumnámskeið á pólsku, 61 byggingakrananámskeið og 1017 önnur vinnuvélanámskeið.
Samtals sátu 332 ADR námskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm á götum úti. 77 sátu námskeið um meðhöndlun á Asbesti.
Mannauður
78 störfuðu hjá Vinnueftirlitinu í lok árs 2018, 51 karlar og 27 konur með fjölbreytta menntun og víðtæka þekkingu og reynslu á starfssviði stofnunarinnar.
Starfsemin er dreifð á 9 starfsstöðvar um allt land. Árið 2018 var 64% starfsfólks starfandi í Reykjavík en 36% í öðrum landshlutum.
Fjöldi stöðugilda (ársverk) voru hins vegar 71 á árinu.
Norræn vinnueftirlitsráðstefna á Selfossi
Norræna vinnueftirlitsráðstefnan var haldin á Selfossi dagana 7. – 8. maí 2018 og var vel sótt. Slík ráðstefna er haldin annað hvert ár til skiptis á Norðurlöndunum. Þema ráðstefnunnar, sem var haldin í samstarfi við NIVA sem er norræn fræðslustofnun í vinnuvernd, var Árangursríkt eftirlit – betra vinnuumhverfi. Áhersla var lögð á að kynna og dreifa dæmum um árangursríkar aðferðir og nálgun í eftirliti sem gætu verið hvatning til frekari þróunar á Norðurlöndunum.
Evrópskt samstarfsverkefni um eftirlit með starfsfólki starfsmannaleiga
Vinnueftirlitið tók á árinu þátt í evrópsku eftirlitsátaki sem beindist að vinnuaðstæðum starfsfólks starfsmannaleiga en samkvæmt evrópskum rannsóknum eru vinnuslys tíðari hjá starfsmönnum starfsmannaleiga en öðrum starfshópum. Farið var í sérstakt eftirlitsátak sem beindist að starfsmannaleigum og notendafyrirtækjum í bygginga- og mannvirkjagerð.
Helstu niðurstöður þess voru að töluverður misbrestur var á að upplýsingaflæði milli starfsmannaleiga og notendafyrirtækja væri í samræmi við reglur. Aðeins um þriðjungur notendafyrirtækja upplýsti viðkomandi starfsmannaleigu um þær áhættur sem fylgdu starfinu sem átti að ráða í og hvaða forvarnarráðstafanir væru gerðar til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna, eins og reglur kveða á um. Frekari grein er jafnframt gerð fyrir niðurstöðunum í lokaskýrslu átaksins Safety and Health of Temoprary Agency Workers and Cross-Border Workers.
Áhersla á meðferð hættulegra efna
Vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA) um meðferð hættulegra efna var hleypt af stokkunum á árinu og tók Vinnueftirlitið virkan þátt í því og hélt tvær ráðstefnur um efnið. Önnur var haldin á Akureyri og hin í Reykjavík.
Meðferð hættulegra efna er ein stærsta öryggis- og heilbrigðisváin á vinnustöðum og í tengslum við átakið þýddi Vinnueftirlitið og staðfærða hagnýtt rafrænt verkfæri vegna hættulegra efna. Tilgangur þess er að auka með hagnýtum hætti vitneskju um hættuleg efni og gera það eins auðvelt og unnt er fyrir fyrirtæki og starfsfólk að meta aðstæður og grípa til aðgerða sem draga úr hættu.
Fundur um vinnu barna og unglinga í samvinnu við umboðsmann barna
Mikil atvinnuþátttaka barna og unglinga hér á landi vakti á árinu upp spurningar um hvernig þau eru undirbúin undir margvísleg störf, hvernig eftirliti er háttað, hve oft þau verða fyrir vinnuslysum, þekkingu atvinnulífsins á þeim reglum sem gilda um vinnu barna og unglinga og þekkingu þeirra sjálfra á réttindum og skyldum. Til að varpa ljósi á þessi mál stóðu umboðsmaður barna og Vinnueftirlitið fyrir fundi um málið þann 8. nóvember.
Á fundinum voru kynntar niðurstöður úttektar á fyrirkomulagi vinnuskóla sveitarfélaganna fyrir 13-15 ára sem umboðsmaður barna stóð fyrir sumarið 2018. Einnig voru kynntar nýjar upplýsingar frá Hagstofunni um atvinnuþátttöku barna eftir atvinnugreinum og aldri. Þá fjölluðu fulltrúar Vinnueftirlitsins um þau lög og reglur sem gilda um vinnu barna og unglinga og skráningu vinnuslysa.
OiRA, rafrænt áhættumat á netinu fyrir skrifstofuvinnu uppfært
Vinnueftirlitið er í samstarfi við Vinnuverndarstofnun Evrópu um OiRA sem er rafrænt gagnvirkt áhættumat á netinu. Síðla árs 2018 var verkfæri fyrir áhættugreiningu á skrifstofuvinnu uppfært.
OiRa hentar öllum sem vilja meta hættu sem snýr að öryggi og heilbrigði á vinnustað þeirra en verkfærið býr til aðgerðaráætlun um úrbætur sem fyrirtækið þarf að framkvæma. Önnur OiRA verkfæri sem búið er að þýða á íslensku eru fyrir veitingahús og mötuneyti, hársnyrtistofur, landbúnað og þá sem vinna við rafmagn.
Könnun á vinnuumhverfi starfsfólks í hótelþrifum
Vinnueftirlitið gerði könnun og úttekt á vinnuumhverfi starfsfólks í hótelþrifum þar sem umfang ferðaþjónustu hafði aukist mikið árin á undan. Stærstur hluti þátttakenda í spurningalistakönnuninni voru konur af erlendum uppruna. Stór hluti svarenda sagði samskipti við næsta yfirmann valda sér streitu en lítill hluti taldi sig vera undir miklu líkamlegu álagi við vinnu sína.
Niðurstöður eftirlitsátaksins leiddu í ljós að margt má bæta í vinnuumhverfi starfsfólks sem sinnir hótelþrifum.
Stjórn Vinnueftirlitsins
Félags- og barnamálaráðherra skipar stjórn Vinnueftirlitsins til fjögurra ára í senn. Hlutverk stjórnar er að vera ráðherra og forstjóra stofnunarinnar til ráðgjafar í málum sem tengjast vinnuvernd. Stjórnarfundir eru að öllu jöfnu haldnir mánaðarlega að frátöldum sumarmánuðunum.
Stjórnarmenn eru níu. Ráðherra skipar formann án tilnefningar. Einn stjórnarmaður kemur frá fjármálaráðuneytinu en aðrir stjórnarmenn eru tilnefndir af aðilum vinnumarkaðarins. Varamenn í stjórn eru skipaðir með sama hætti. Tveir áheyrnarfulltrúar starfsfólks sitja einnig stjórnarfundi, annar úr hópi starfsfólks frá BHM og hinn úr hópi starfsfólks frá SFR.
Í stjórn árið 2018 sátu Margrét S. Björnsdóttir, formaður, Björn Ágúst Sigurjónsson og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir frá ASÍ, Georg Brynjarsson frá BHM, Sverrir Björn Björnsson frá BSRB, Jón Rúnar Pálsson og Kristín Þóra Harðardóttir frá SA, Inga Rún Ólafsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Helgi Valberg Jensson frá fjármálaráðuneytinu.