Breytingar á lögum um útlendinga
4. júlí 2024
Styttri gildistími dvalarleyfa á grundvelli verndar og biðtími eftir fjölskyldusameiningu
Tekið hafa gildi breytingar á lögum um útlendinga sem samþykktar voru á Alþingi þann 14. júní. Breytingarnar varða meðal annars málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og réttaráhrif alþjóðlegrar verndar. Unnið er að því að uppfæra vef Útlendingastofnunar til samræmis við breytingarnar en helstu atriði þeirra eru talin upp hér að neðan.
Gildistími dvalarleyfa
Dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar fyrir flóttamenn, fyrir ríkisfangslausa einstaklinga og fyrir kvótaflóttamenn gilda héðan í frá í þrjú ár í stað fjögurra.
Dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar gilda í tvö ár í stað fjögurra.
Dvalarleyfi á grundvelli verndar vegna fjölskyldusameiningar við flóttamann geta lengst gilt í þrjú ár í stað fjögurra. Þau geta þó aldrei gilt lengur en leyfi þess sem rétturinn byggir á.
Dvalarleyfi af mannúðarástæðum verður heimilt að endurnýja í eitt ár í senn í stað tveggja ára eins og áður.
Breytingin gildir um dvalarleyfi sem veitt eru á þessum grundvelli eftir gildistöku laganna, það er frá og með 4. júlí 2024.
Fjölskyldusameiningar við handhafa viðbótarverndar
Aðstandendur þeirra sem fá veitta viðbótarvernd mega ekki leggja fram umsókn um fjölskyldusameiningu fyrr en dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar hefur verið endurnýjað. Frá þessu eru eftirfarandi undanþágur:
Ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða.
Ef sá sem rétturinn byggir á hefur haft hér dvalarleyfi í eitt ár, hefur verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði í átta mánuði, uppfyllir skilyrði um trygga framfærslu, uppfyllir skilyrði um íslenskukunnáttu og hefur til umráða íbúðarhúsnæði fyrir þá aðstandendur sem hyggjast koma hingað.
Breytingin gildir um meðferð umsókna um fjölskyldusameiningar sem lagðar eru fram eftir gildistöku laganna, það er frá og með 4. júlí 2024.
Fjölskyldusameiningar við handhafa mannúðarleyfa
Aðstandendur þeirra sem fá veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum mega ekki leggja fram umsókn um fjölskyldusameiningu fyrr en dvalarleyfi af mannúðarástæðum hefur verið endurnýjað tvisvar sinnum. Frá þessu er eftirfarandi undanþága:
Ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því vegna aðkallandi umönnunarsjónarmiða.
Breytingin gildir um meðferð umsókna um fjölskyldusameiningar sem lagðar eru fram eftir gildistöku laganna, það er frá og með 4. júlí 2024.
Aðgengi að efnismeðferðar umsókna um vernd
Með brottfalli 2. málsgreinar 36. greinar þarf ekki lengur að taka afstöðu til sérstakra ástæðna og sérstakra tengsla við málsmeðferð umsókna um vernd:
sem íslensk stjórnvöld bera ekki ábyrgð á samkvæmt reglum Dyflinnarsamstarfsins,
frá einstaklingum sem hafa þegar fengið vernd í öðru ríki eða
frá einstaklingum sem geta öðlast rétt til dvalar í öruggu ríki.
Þá fellur einnig úr gildi ákvæði um að taka skuli umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram.
Breytingin gildir um meðferð umsókna um vernd sem lagðar eru fram eftir gildistöku laganna, það er frá og með 4. júlí 2024.
Aðrar breytingar
Kjörbörnum hefur verið bætt við upptalningu þeirra sem eiga rétt á að fá vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Tekinn er af vafi um að bráðabirgðadvalarleyfi skuli ekki veitt hafi Útlendingastofnun synjað umsókn um alþjóðlega vernd.
Sú breyting er gerð á skipun kærunefndar útlendingamála að nú verða nefndarmenn ekki í hlutastarfi heldur verða þrír nefndarmenn í fullu starfi. Formanni og varaformanni er einnig gert heimilt að úrskurða einir í fleiri málum.