Umsókn um fullnaðarskírteini og staðfesting á akstursmati orðin stafræn
29. október 2021
Umsókn um útgáfu fullnaðarskírteinis er nú orðin stafræn og hægt að fylla út á Ísland.is. Þá geta ökukennarar nú gengið frá akstursmati með stafrænum hætti.
Umsókn um útgáfu fullnaðarskírteinis er nú orðin stafræn og hægt að fylla út á Ísland.is. Þá
geta ökukennarar nú gengið frá akstursmati með stafrænum hætti.
Ferlið virkar þannig að ökukennari skráir sig inn á Ísland.is og staðfestir að nemandi hafi
lokið akstursmati. Ökunemi fær svo tilkynningu í tölvupósti um að hann geti sótt um fullnaðarskírteini. Báðir aðilar þurfa að vera með rafræn skilríki til að auðkenna sig á Ísland.is.
Ef ökunemi þarf ekki að skila neinum gögnum til sýslumanns fer skírteinið beint í pöntun og er það sótt eftir þrjár vikur á þeim stað sem valinn var í umsóknarferli.
Bráðabirgðarskírteininu er svo skilað um leið og það nýja er sótt.
Afgreiðslutími tekur um 3-4 vikur eftir að búið er að ganga frá stafrænni umsókn.
Umsækjendur þurfa þó að hafa í huga að ef þeir vilja aðra mynd en þá sem er til í gagnagrunni eða þurfa að skila inn læknisvottorði er þörf á að skila þeim gögnum inn til sýslumanns áður en skírteinið er pantað.
Hér er hægt að nálgast umsókn um fullnaðarskírteini og frekari upplýsingar.
Ökukennarar geta staðfest akstursmat vegna fullnaðarskírteinis hér.
Stafræn umsókn um fullnaðarskírteini er enn einn liður hjá embættum sýslumanna í að mæta þeirri miklu aukningu í stafrænni þjónustu og sjálfafgreiðslulausnum og er samstarfsverkefni milli Samgöngustofu, Sýslumanna, Ríkislögreglustjóra og Stafræns Íslands.
Í stafræna ferlinu eru einnig sóttar persónuupplýsingar úr Þjóðskrá og ökuskírteinaskrá og öll afgreiðsla er mjög notendavæn.
Þá notast stafræna umsóknin við nýja greiðslugátt sem ber heitið ARK. Fjársýslan og Greiðsluveitan sáu um innleiðinguna á henni í samstarfi við Stafrænt Ísland.
Mynd: Guðný María Nínudóttir