Fara beint í efnið

Straumurinn (X-Road)

Straumurinn (X-Road) er gagnaflutningslag sem er ætlað að auðvelda samskipti milli upplýsingakerfa á öruggan hátt sem gerir stofnunum kleift að veita stafræna þjónustu.

Efnisyfirlit

Straumurinn er undirstaða miðlægrar þjónustugáttar fyrir borgara landsins. Lögð er áhersla á að sinna öllum borgurum jafn vel. Straumurinn er undirstaða þess að borgarar landsins geti sótt alla þjónustu hins opinbera á einum stað í miðlægri þjónustugátt.

Allar opinberar stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki í landinu geta nýtt sér Strauminn til að flytja gögn sín á milli með það að markmiði að bæta þjónustu við almenning í landinu.

Þróun Straumsins
Ísland er aðili að NIIS (Nordic Institute for Interoperability Solutions) sem vinnur að framþróun Straumsins. Straumurinn er þróaður af Eistum og Finnum fyrir opinbera þjónustu og hefur verið í notkun frá 2002.
Innleiðing á Straumnum (X-Road) á Íslandi hófst formlega í nóvember 2018 þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði samstarfssamning við Finna og Eista.

Öryggi gagna

Samskipti stofnana og fyrirtækja um Strauminn (X-Road) eru tryggð með dulkóðuðum samskiptum þar sem miðlæg þjónusta Stafræns Íslands tengir samskipti þjónustuveitanda og þjónustuþega saman með stöðluðum hætti.

Réttleiki
Réttleiki gagna er tryggður með beinum samskiptum beggja aðila án aðkomu milliliða, gögn þjónustuveitanda eru ætíð uppfærð og aðgengileg þeim þjónustuþega sem þjónustuveitandi hefur heimilað aðgang að.

Rekjanleiki
Samskipti beggja aðila eru að fullu rekjanleg þeirra í millum og ljóst hver og hvenær þjónustuþegi nýtti gögnin þar sem samskipti eru tímastimpluð af miðlægum heimildarþjóni Stafræns Íslands.

Öryggiskerfi
Straumurinn er með fjölþætt öryggiskerfi: Sannvottun og auðkenningu notenda, dulkóðun á gögnum og tímastimplaðar aðgerðir til að tryggja rekjanleika.

Ávinningur fyrir stofnanir

  • Öruggur flutningur gagna

  • Stýring og yfirsýn á aðgengi

  • Hagræðing í uppsetningu og rekstri

  • Staðlaðar samskiptaleiðir milli upplýsingakerfa koma í veg fyrir tvíverknað í samskiptum við hið opinbera

  • Gögn fara á milli stofnana en ekki fólk
    Upplýsingar um einstaklinga, sem skráðar eru í einu kerfi get flætt yfir í annað og ekki þarf að óska eftir upplýsingum frá borgurunum, sem ríkið býr þegar yfir.

Þegar Straumurinn hefur verið settur upp og er tilbúinn til notkunar munu stofnanir geta miðlað upplýsingum sín á milli. Hægt verður að sjá á vefsíðunni Stafræn skref hvort stofnun hefur innleitt Strauminn.

Hvað þarf stofnun að gera?

  • Prókúruhafi stofnunar sendir inn umsókn á Ísland.is með upplýsingar um tæknilegan tengilið

  • Tengjast skjalaveitu við Strauminn (X-Road)

Tilgangur umsóknar um Stauminn

Mikilvægt er að hafa skýran tilgang fyrir aðild að Straumnum og uppsetningu á X-Road öryggisþjónum. Tilgangurinn ætti að vera tengdur við ákveðin verkefni, svo sem innleiðingu á þjónustum Stafræns Íslands.

Sótt um samstarf

Umsókn um aðgang að Straumnum hefst með samstarfsbeiðni til Stafræns Íslands.

Umsókn að Straumnum ætti að vera lögð fram af einstaklingi sem gegnir ábyrgðarstöðu hjá umsækjanda (helst prókúruhafi). Ástæðurnar fyrir þessu eru tvær:

  • Traust milli samstarfsaðila er grundvallaratriði í Straumnum, og því er nauðsynlegt að umsóknin njóti stuðnings og sé kunnug stjórnendum umsækjanda.

  • Það auðveldar sannreyningu á lögmæti umsóknar f.h. Umsækjanda

Í umsókninni er mikilvægt að tilgreina bæði stjórnunarlegan og tæknilegan tengilið, sjá neðar.

Umsókn móttekin og samþykkt af Stafrænu Íslandi

Stafrænt Ísland metur umsóknina. Á þessu stigi hefur Stafrænt Ísland boðið upp á almenna kynningu á Straumnum / X-Road fyrir umsækjendur.

Við samþykkt umsóknar þarf að liggja fyrir ákvörðun um uppsetningu, rekstrarfyrirkomulag og hýsingu þeirra X-Road öryggisþjóna sem umsækjandi hyggst nýta, hvort sem er í eigin umhverfi eða með aðstoð þriðja aðila. 

Athugið að Stafrænt Ísland mælir gegn ákveðnum rekstrarfyrirkomulögum þar sem þau torvelda rekstur Straumsins.

Uppsetning, umsókn um skilríki og auðkenning öryggisþjóna

Umsækjandi setur upp öryggisþjóna er hann hyggst nýta, annað hvort sjálfur eða í samstarfi við þriðja aðila.

Eftir uppsetningu þarf að skrá þjónana í Miðjuna til að tengja þá við Strauminn. Það er gert með því að senda skráningar beiðni á rekstraraðila “Miðjunar” sem eru Opin Kerfi. Opin Kerfi útvega nauðsynleg skilríki og upplýsingar til að auðkenna þjónana í inn Straumnum. 

ATH: Þessi skráning þarf að koma frá tæknilega tengiliðnum sem tilgreindur var þegar sótt var um samstarf.

Frekari leiðbeiningar um uppsetningu og skráningu öryggisþjóna í Strauminn.

Hönnun og þróun vefþjónusta

Umsækjandi ber ábyrgð á þróun, viðhaldi og rekstri sinna vefþjónusta sem tengjast Straumnum (X-Road). Umsækjandi skráir þessar þjónustur í sinn öryggisþjón og getur veitt öðrum aðilum Straumsins aðgang að þeim, ef hann svo kýs eða tengst þjónustum annara aðila Straumsins, eftir því sem við á.

Athugið að hönnun og útfærsla vefþjónusta er sjálfstætt ferli, ótengt þessu umsóknar- og skráningarferli, en Stafrænt Ísland mælist til þess að aðilar sem hyggjast bjóða upp á vefþjónustur í Straumnum kynni sér vefþjónustustefnu Stafræns Íslands.

Hvert er hlutverk Stafræns Íslands?

  • Aðstoðar við tenginu á Straumnum

Skilmálar

Þjónustuskilmálar Straumsins (X-Road) mynda samkomulag þjónustuþega og rekstraraðila um gæðakröfur, aðgengi og viðhald vegna notkunar á Straumnum.

Lesa þjónustuskilmála