Klínísk starfsemi Landspítala verður frá 1. janúar næstkomandi fjármögnuð í samræmi við umfang veittrar þjónustu þar sem byggt er á DRG; alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma. „Þessi breyting er bylting, jafnt fyrir spítalann og fjárveitingarvaldið. Markmiðið er að fjármögnun spítalans sé sanngjörn og raunhæf, í samræmi við þjónustuna sem sjúkrahúsið veitir og skýr markmið fjárveitingarvaldsins um magn hennar og gæði“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við undirritun samnings Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala um innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar Landspítala í dag. Þetta er stærsti samningur um kaup á heilbrigðisþjónustu sem gerður hefur verið hér á landi.