Um lesfimipróf og nýja birtingu á niðurstöðum
26. janúar 2026
Í kjölfar opnunar stafræns viðmóts Matsferils hefur Miðstöð menntunar og skólaþjónustu gert breytingar á því hvernig niðurstöður úr lesfimiprófum eru birtar. Breytingarnar eru hluti af heildstæðri endurskoðun prófanna og miða að því að veita skýrari og gagnlegri upplýsingar um stöðu hvers nemanda og næstu skref í lestrarnámi.

Hvað meta lesfimipróf?
Lesfimipróf meta hversu hratt og nákvæmlega barn les texta við sitt hæfi miðað við aldur. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um:
að hvaða marki lesturinn er orðinn sjálfvirkur
hversu nákvæmur lesturinn er
hvort þörf sé á markvissum stuðningi í lestrarkennslu
Prófin eru fyrst og fremst verkfæri til stuðnings - ekki til samanburðar eða einkunnagjafar.
Helstu breytingar á niðurstöðum
1. Eldri lesfimiviðmið falla úr gildi
Áður voru niðurstöður bornar saman við fyrirfram ákveðin viðmið sem lýstu væntingum um árangur. Nú byggir matið á raunverulegum gögnum frá síðustu árum sem sýna hvernig lesfimi barna á Íslandi þróast í reynd. Þetta gefur réttari og nákvæmari mynd af stöðu hvers nemanda.
2. Mælitala og lýsing á stöðu nemanda
Í stað þess að bera niðurstöður saman við ákveðin viðmið í lok skólaárs eru þær nú settar fram sem mælitala. Mælitölunni fylgir:
lýsing á stöðu nemandans,
upplýsingar um styrk- eða veikleika í lestri,
og leiðbeiningar um áherslur í áframhaldandi lestrarkennslu.
Mælitölur sýna hvort færni nemanda er lítil, í meðallagi eða mikil miðað við jafnaldra og gera það jafnframt kleift að bera saman niðurstöður ólíkra prófa yfir tíma.
3. Lesin orð í mínútum breytast
Niðurstöður lesfimiprófsins eru áfram gefnar upp í lesnum orðum á mínútu. Eins og í Skólagátt eru orðin vegin með tilliti til:
þyngdar textans
lestrarnákvæmni
Vegna þessara breytingar geta niðurstöður í Matsferli litið öðruvísi út en eldri niðurstöður í Skólagátt og er það eðlilegt.
Þess vegna er mikilvægt að bera ekki saman niðurstöður í Skólagátt við niðurstöður í Matsferli þar sem útreikningar er ekki þeir sömu. Breytingarnar ná allt aftur til septembermælingarinnar 2019.
Hvað þýða þessar breytingar fyrir forsjáraðila?
Breytingarnar eru gerðar til að:
veita skýrari upplýsingar um stöðu barnsins,
styðja betur við samtal heimilis og skóla,
og tryggja að börn fái viðeigandi stuðning í lestri á réttum tíma.
Þessi framsetning á niðurstöðum á að hjálpa - ekki valda áhyggjum. Kennarar nota þær sem grunn að faglegu mati og skipulagningu kennslu.
Nánari upplýsingar
Allar upplýsingar um lesfimi- og stuðningspróf má finna hér.