Kynntu þér námsefnið okkar!
17. nóvember 2025
Í tilefni dags íslenskrar tungu sem við fögnuðum í gær bendum við á allt það fjölbreytta og skemmtilega námsefni sem er í boði fyrir börn, ungmenni og íslenskt skólakerfi.

Hér er aðeins brot af því sem finna má á vef Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu en við hvetjum þig til að kynna þér efnið!
Leikskóli
Álfakrílin – Litrík og skemmtileg bók sem kveikir áhuga yngstu barnanna á hljóðum, orðum og sögum.
Fjör og fræðsla – Fjölbreyttar þrautir, orðaleikir og verkefni sem þjálfa íslenskukunnáttu á leikrænan og glaðlegan hátt.
Yngsta stig
Skriftarvefurinn – Þegar börn skrifa með skriffæri styrkist tenging hugar og handar og minni og stafsetning þjálfast. Góð skriftarkunnátta styður skapandi skrif, lengri og áhugaverðari texta og eflir trú á eigin getu – skrift er frábær grunnur fyrir framtíðar rithöfunda!
Mið- og unglingastig
Sögulandið | Hólma sól í háska | Brennd á báli – Í þessum bókum öðlast lesendur innsýn í dularfull, átakanleg og spennandi ævintýri úr sögnum, bókmenntum og þjóðararfi.
Hinsegin saga – Fræðandi bók sem eflir skilning á samfélaginu, mannréttindum og frelsi til sjálfsmyndar og tjáningar. Hún gefur lesendum einnig innsýn í fjölmörg orð og hugtök sem hafa rutt sér til rúms á síðari árum og teljast fremur ný í íslenskri tungu - orð sem endurspegla lifandi, breytilegt og fjölbreytt samfélag.
Allur aldur
Memm – Vefur sem miðlar gagnlegum verkfærum, fræðslu og hugmyndum sem styðja við menntun barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Hann nýtist vel til að efla nemendur sem eru nýfluttir til landsins í íslensku.
Ljóðaflóð – Ljóðaflóð er skemmtileg ljóðasamkeppni sem MMS stendur fyrir í samstarfi við KrakkaRÚV. Við hvetjum kennara til að hjálpa nemendum að virkja sköpunarkraftinn og senda inn ljóð á fjölbreyttu formi. Það geta verið bundin ljóð og óbundin, ferskeytlur, limrur, hækur, tönkur og myndljóð – sannkallað ljóðaflóð! Skilafrestur er til og með 10. desember næstkomandi.
Tökum höndum saman um að halda íslenskunni lifandi, í dag og alla daga!
Fleiri hugmyndir á mms.is/namsefni