Áhugasamir íslenskukennarar óskast í faghóp um þróun námsefnis í íslensku
8. október 2025
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hyggst á komandi misserum ráðast í heildstæða endurskoðun á námsefni í íslensku. Samkvæmt lögum ber okkur að tryggja nemendum í skyldunámi aðgang að vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum, og öðrum nemendahópum eftir því sem stofnuninni er falið. Við höfum reglulega kallað saman faghópa til ráðgjafar um forgangsröðun námsefnis en nú er komið að því að endurskoða og þróa námsefni í íslensku í samvinnu við breiðan hóp kennara og sérfræðinga sem þekkja kennsluna af eigin raun.

Hlutverk hópsins
Faghópurinn mun kortleggja hvaða áhersluþættir eru lykilatriði í íslenskukennslu og hvernig námsefni getur best stutt við þá. Markmiðið er að tryggja að námsefnið sé markvisst, aðlaðandi og gagnlegt fyrir nemendur.
Vinnan mun byggja á:
Við óskum eftir að í hópnum verði kennarar með víðtæka reynslu, sérfræðingar úr háskólasamfélaginu og mennta- og barnamálaráðuneytinu, fulltrúar fagfélagsins og nemendur. Markmiðið er að fá fram sem flest sjónarmið til að geta tekið ákvörðun um hvers konar námsefni er best að gefa út svo það nái þeim árangri sem því er ætlað, m.a. að efla lesskilning. Efnið verði gefið út á fjölbreyttu formi (bæði prentuðu og stafrænu) og hannað með hliðsjón af algildri hönnun (aðgengilegt og nothæft fyrir sem flesta nemendur, óháð aldri, getu eða aðstæðum).
Tímarammi og vinnuframlag
Upphaf vinnu: fyrir lok október 2025
Fjöldi funda: 4–5 fundir (stað- og/eða fjarfundir)
Vinna á milli funda: hófleg undirbúningsvinna/umsagnir
Skil á niðurstöðum: fyrir áramót 2025
Greitt er fyrir þátttöku samkvæmt gildandi taxta Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu fyrir verktaka í tímavinnu.
Við leitum að áhugasömum íslenskukennurum sem vilja leggja sitt af mörkum til þróunar íslenskukennslu og námsefnis. Við leggjum áherslu á fjölbreytt sjónarmið og jafnrétti, m.a. að hugað sé að kynjajafnvægi.
Ef þú hefur áhuga, sendu umsókn í síðasta lagi 14. október 2025 á harpa@midstodmenntunar.is og láttu fylgja:
nafn, starfsheiti og netfang,
stutta ferilskrá (höfuðáherslur/reynsla sem tengist viðfangsefninu),
2–3 línur um áhugasvið innan íslenskukennslu.
Á vefsíðu Miðstöðvarinnar má sjá hvaða námsefni er í útgáfu í íslensku sem og í kynningarskrá námsefnis.