Rannsóknarsjóður kvenna- og barnaþjónustu úthlutar styrkjum til rannsókna í fæðinga- kvenna- barna- og fjölskyldufræðum á Landspítala.
Frestur til að sækja um rennur út á miðnætti 1.október 2025
Markmið sjóðsins er að styðja við rannsóknarvirkni vísindamanna sem stunda rannsóknir í fæðinga-, kvenna-, barna- og fjölskyldufræðum
Rannsóknarsjóðurinn úthlutar styrkjum árlega á haustin. Tekið er við umsóknum frá maí og er umsóknarfrestur til september. Umsókn að hámarki 1,5, milljón skal skilað rafrænt í rannsókna- og styrkumsjónakerfis Landspítala.
Skilyrði fyrir styrkveitingu
Starfsmenn kvenna- og barnaþjónustu Landspítala eða samstarfsaðilar þeirra geta sótt um. Ekki aðrir.
Umsókn er í samræmi við leiðbeiningar og reglur um úthlutun styrkja úr sjóðnum.
Staðfesting á leyfi siðanefndar fylgir umsókn.
Aðalumsækjandi er fastráðinn starfsmaður kvenna- og barnaþjónustu Landspítala.
Með umsókn fylgja uppfærð ferilskrá og ritalisti aðalumsækjanda.
Allar umbeðnar upplýsingar koma fram í umsókn og öll umbeðin gögn fylgja.
Mikilvægar upplýsingar
Aðeins einn styrkur er í boði fyrir hvert verkefni.
Umsóknir eru metnar út frá vísindalegu gildi, nýnæmi verkefna, gæðum umsókna og reynslu og vísindalegum bakgrunni aðalumsækjenda.
Sé verkefnið hluti af meistara- eða doktorsnámi þá skal leiðbeinandinn að öllu jöfnu vera aðalumsækjandi.
Ekki skal sækja um styrk fyrir verkefni eða verkhluta sem þegar er lokið.
Styrkjum erúthlutað í nóvember. Styrkur skal sóttur innan 12 mánaða, annars verður fénu endurúthlutað.
Vakin er athygli á því að umsækjendur sem eru starfsmenn kvenna- og barnaþjónustu Landspítala þurfa að stofna sinn eigin notendareikning í styrkumsjónarkerfinu, Researchweb.
Hægt er að afrita texta úr hefðbundnu textaskjali og líma inn í styrkumsóknarkerfið.
Umsækjandi sem nú þegar hefur notendareikning skráir sig inn í kerfið með sínu tölvupóstfangi og lykilorði með því að smella á innskráning í hægra horni vefsíðunnar.
Nýskráning
Við nýskráningu skráir notandi upplýsingar um sig inn í kerfið með því að smella á og þar smella á Skrá nýjan reikning.
Við stofnun notendareiknings er mikilvægt að velja ekki „Hide my user account…“ í öryggisstillingum heldur annan hvorn "show my user account…“.
Mikilvægt að haka við aðgang kerfisstjóra að reikningi (administrator access).
Við lok skráningar persónuupplýsinga er smellt á „Skrá“ neðst í hægra horni síðunnar.
Kerfið sendir sjálfvirkan póst til staðfestingar á að skráning hafi tekist með tímabundnu aðgangsorði sem notandi verður að breyta í notendareikning sínum. Það er gert með því að:
setja bendilinn á notendanafnið í hægra horni síðunnar og velja Notendareikning. Þá opnast nýr gluggi þar sem smellt er aðgangsorð neðst á síðunni til að breyta aðgangsorði.
Researchweb rannsóknar– og styrkumsjónarkerfið getur haldið utan um ferilskrá notenda (CV).
Til að skrá, breyta og/eða bæta við í ferilskrá er bendillinn settur á notendanafnið í hægra horni og valið er Breyta ferilskrá.
Umsækjendur eru hvattir til að notfæra sér kerfið en einnig er tekið á móti ferilskrám og ritalistum sem viðhengi.
Þegar smellt er á Stofna nýja umsókn til vinstri á síðunni birtist listi af umsóknarformum sem eru virk á hverjum tíma (opið fyrir umsóknir). Einnig er hægt að fara í Mínar síður til að sjá virk umsóknareyðublöð/form.
Umsækjandi:
er beðinn um að samþykkja að persónuupplýsingar úr notendareikningi fylgi umsókninni. Til þess að geta notað kerfið verður það samþykki að liggja fyrir.
merkir við að um nýtt verkefni sé að ræða.
Heiti verkefnis
Beðið er um titil rannsóknar á íslensku eða á ensku. Titill skal vera skýr og lýsandi fyrir rannsóknina.
Aðalumsækjandi skal vera fastráðinn starfsmaður á Landspítala og bera ábyrgð á verkefninu.
Ef um meistara- eða doktorsverkefni er að ræða skal aðalleiðbeinandi að öllu jöfnu vera aðalumsækjandi styrksins.
Ef aðalleiðbeinandi er ekki fastráðinn starfsmaður Landspítala, en meðleiðbeinandi verkefnisins er það, þá skal hann sækja um sem aðalumsækjandi.
Beðið er um kennitölu aðalumsækjanda án bandstriks.
Samstarfsaðilar
Hér skal skrá upplýsingar um samstarfsaðila.
Skrá þarf nafn, starfsheiti, vinnustað/háskólastofnun, síma og tölvupóstfang.
Pláss er fyrir 6 samstarfsaðila en séu þeir fleiri skal færa upplýsingar um þá sem umfram eru í athugasemdir neðst í umsókninni.
Hér skal tilgreina áætlað upphaf og lok verkefnis sem mán/ár (MM/YYYY).
Ef verkefni er þegar hafið skal skrá hvenær það hófst.
Áætluð lok verkefnis miðast við að markmiðum og skilgreindum vörðum (áfangar verkefnis, á ensku milestones) verkefnis hafi verið náð og niðurstöður birtar.
Hér skal setja inn hnitmiðaða lýsingu á verkefninu (mest 2000 stafir eða um 250-300 orð).
Lýsa skal í örstuttu máli hvað verkefnið snýst um með lýsingu á fræðilegum bakgrunni og markmiði rannsóknar, efniviði og aðferðum ásamt vísindalegu gildi og nýnæmi.
Rannsóknarsjóður kvenna- og barnaþjónustu áskilur sér rétt til að birta ágrip verkefnis.
Gera skal grein fyrir stöðu þekkingar á sviði verkefnisins með vísun í heimildir, þar með talið þær nýjustu (mest 6000 stafir eða um 2 blaðsíður með 1,5 línubili).
Markmið greinargerðar er að veita gott yfirlit yfir stöðu þekkingar á sviðinu og lýsa vel þeim þekkingarskorti eða vöntun upplýsinga sem vakti rannsóknarspurningu(ar) sem verkefninu er ætlað að svara.
Skýra og vel rökstudda rannsóknarspurningu(ar) þarf að setja fram.
Ekki nægir að vísa í eldri umsóknir, hvorki hvað varðar fræðilegan bakgrunn né annað.
Heimildir sem vísað er til í fræðilegum bakgrunni verkefnis.
Nota skal að hámarki 20 heimildir og mælt er með notkun á Vancouver-sniði: "Gunnarsson RK, Lanke J. The predictive value of microbiologic diagnostic tests if asymptomatic carriers are present. Statistics in medicine 2002:21(12):1773-85."
Gera skal skýra grein fyrir hvort vísindarannsóknin sé líkleg til að leiða til nýrrar þekkingar og þá hverrar.
Gerið einnig grein fyrir hvort, og þá hvaða, mælanlegur árangur verður af verkefninu.
Gerið ítarlega grein fyrir:
Rannsóknarefniviðnum, þar með talið viðmiðunarhópi ef hann er til staðar.
Aðferðafræði rannsóknarinnar.
Helstu mælitækjum sem nýtt verða og ef við á, hvort þau hafi verið forprófuð.
Breytulistum og/eða spurningalistum fylgi umsókn eftir því sem við á, nema um sé að ræða þekkta og staðlaða lista, þá skal þeim lýst með tilvísun í viðeigandi heimildir.
Fyrirhugaðri úrvinnslu á niðurstöðum, þar á meðal tölfræðiaðferðum.
Framkvæmdaáætlun og lýsið verkefnatengdum vörðum (áfangar verkefnis).
Skýrri og raunsærri tímaáætlun.
Hlutverki og vinnuframlagi allra aðila í verkefninu.
Mikilvægt er að kostnaðaráætlunin sé trúverðug og rökstudd.
Nota skal töfluna til þess að gera grein fyrir fjárhagsáætlun verkefnis á komandi styrktímabili.
Gerið ítarlega grein fyrir öllum kostnaðarþáttum sem sótt er um í aðskildum liðum.
Styrkur mun birtast á launamiða og styrkþegi þarf sjálfur að setja inn kostnað á móti eins og reglur Ríkisskattstjóra leyfa.
Dæmi um skilgreinda kostnaðarliði
Launakostnaður
Styrkir vegna launakostnaðar eru hugsaðir til að greiða laun aðstoðarfólks sem ráðið er til að aðstoða við framkvæmd verkefnis og/eða laun til nema sem taka þátt í verkefninu.
Miða skal við launatöflu aðstoðarmanna í rannsóknum, upplýsingar um laun aðstoðarmanna í rannsóknum má nálgast á síðu Rannsóknarsjóðs Háskóla Ísland.
Skila skal inn staðfestingu á launalausu leyfi ef óskað er eftir styrk fyrir launakostnaði.
Efniskostnaður við
kaup á rannsóknarefnum. Gefa skal upp áætlað verð per einingu og áætlað magn (rökstyðja) og sýna útreikninga.
prentun spurningalista, póstsendingar og sambærilegur kostnaður skal einnig gera grein fyrir og sýna útreikninga.
Sjóðurinn styrkir ekki
Greinabirtingar (open access) eða yfirlestur/prentunar ritgerða.
Tölfræðiaðstoð því slík þjónusta er í boði á Landspítala rannsakendum að kostnaðarlausu.
Ráðstefnuferðir eða annan kostnaðar sem tengist kynningu á rannsóknarniðurstöðum.
Kaup á búnaði sem Landspítali leggur að jafnaði til starfsemi sinnar eins og tækjum eða tölvum.
Gefið upp dagsetningu útgefins leyfis (dd.mm.yyyy) og númer leyfis.
Ef um verkefni er að ræða þar sem ekki þarf leyfi frá siðanefndum skal merkja x í viðkomandi reit.
Almennt gildir að ef leyfis er þörf en ef leyfið hefur ekki verið gefið út hjá siðanefndum er umsókninni hafnað, nema þegar færa má rök fyrir töf á leyfisveitingu.
Athugasemdir/Annað - Hér getur umsækjandi komið á framfæri upplýsingum sem hann telur brýnt að komi fram en ekki var gert ráð fyrir í umsóknareyðublaðinu.
Viðhengi - Hér má hlaða inn:
myndum/skjölum sem fylgja eiga texta umsóknarinnar, sem dæmi ferilskrá.
staðfestingu klínísks yfirmanns á launalausu leyfi starfsmanns sem ætlunin er að greiða laun með styrkjafénu.
Smellt er á bæta við viðhengjum og opnast þá nýr gluggi með leiðbeiningum.