Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Um líknarmiðstöð Landspítala

Líknarmeðferð er einstaklingsmiðuð nálgun veitt til að bæta lífsgæði sjúklinga með lífsógnandi sjúkdóma og fjölskyldna þeirra. Áhersla er á að veita árangursríka meðferð verkja og annarra einkenna og veita stuðning í samræmi við þarfir, gildi og menningu sjúklings og fjölskyldu hans.

Hlutverk líknarmiðstöðvar Landspítala er að:

  • Veita ráðgjöf og þjálfun til fagstétta og þjónustuveitenda um allt land.

  • Miðla þekkingu og fræðslu til fagstétta.

  • Vinna að þróun almennrar líknarmeðferðar í samstarfi við heilsugæslu, heimahjúkrun og hjúkrunarheimili.

  • Vera stuðningur fyrir aðra sérhæfða líknarþjónustu í landinu, innan og utan spítalans.

  • Tryggja gæði þjónustu með klínískum leiðbeiningum, stöðluðu verklagi og árangursmælingum.

Markmið líknarmeðferðar

Líknarmeðferð er veitt í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga sem eru með langvinna og lífsógnandi sjúkdóma, eins og krabbamein, hjarta-, lungna-, tauga-, og nýrnasjúkdóma .

Markmiðið er að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni og vanlíðan vegna sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er og styðja við bestu mögulegu lífsgæði sjúklinga og fjölskyldu, óháð sjúkdómsgreiningu, sjúkdómsstigi eða annarri meðferð. Það á einnig við um andlegar, sálrænar og félagslegar afleiðingar veikindanna.

Líknarmeðferð samhliða læknandi eða lífslengjandi meðferð. Vægi líknarmeðferðar eykst síðan með versnandi sjúkdómi og er mest þegar sjúklingur er deyjandi.

Í líknarmeðferð er lögð áhersla á:

  • samræður um stöðu sjúkdóms, hvert stefna eigi í meðferð og óskir sjúklings

  • að meta líðan og þarfir sjúklings og fjölskyldu hans

  • að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni

  • að styðja sjúkling og fjölskyldu hans til að takast á við breyttar aðstæður

  • samstarf heilbrigðisstarfsfólks

Allt heilbrigðisstarfsfólk á að hafa grunnþekkingu í almennri líknarmeðferð og heildrænni nálgun í meðferð sjúklinga.

Tegund líknarmeðferðar

Gerður er greinarmunur á almennri og sérhæfðri líknarmeðferð.

  • Allt heilbrigðisstarfsfólk ætti að hafa grunnþekkingu í líknarmeðferð og heildrænni nálgun. Það þarf að veita stuðning og meðferð sem bætir lífsgæði sjúklinga með lífsógnandi eða versnandi sjúkdóma, óháð sjúkdómsgreiningu eða meðferð.

  • Í sérhæfðri líknarþjónustu Landspítala er megináherslan á að sinna sjúklingum með versnandi sjúkdóma, erfið, fjölþætt og flókin einkenni af ýmsum toga.