Upplýsingar um ígræði
Almennar upplýsingar
Ígræði nefnist lækningatæki sem grætt er í mannslíkamann. Þetta er stór og fjölbreyttur flokkur lækningatækja. Ígræði geta til dæmis verið gerviliðir, gervibrjóst, stoðnet í kransæðar eða kviðslit, naglar, skrúfur og plötur eftir beinbrot en einnig flóknari tæknibúnaður eins og hjartagangráðar, taugaörvi og lyfjadælur. Ástæður fyrir því að fólk fær ígræði eru jafn margar og ígræðin sem eru notuð.
Þegar ígræði eru sett inn þarf í langflestum tilvikum að framkvæma skurðaðgerð. Húðin og vefirnir sem taka við ígræðinu þurfa að jafna sig og það getur valdið bólgu og verkjum. Húðsvæðið grær í flestum tilvikum á 2-3 vikum og nauðsynlegt að viðhalda góðu hreinlæti á skurðsvæðinu á meðan. Fylgjast þarf með blæðingum og roða frá skurðsári.
Ekki er mælt með sundferðum á meðan húðin er að gróa. Ígræði eru viðkvæm fyrir sýkingum og erfitt er að meðhöndla sýkingar sem koma upp við ígræði. Í sumum tilvikum getur það leitt til þess að fjarlægja þurfi ígræði til að uppræta sýkingu.
Ígræði sem gefa frá sér rafstraum eru t.d. hjartagangráðar og bjargráðar (hjartagangráður með stuðvirkni) og ígræði sem notuð eru við verkjameðferð annars vegar og ígræði sem notuð eru við hægða- eða þvagleka hins vegar (Sacral nerve stimulators).
Mænuraförvar (spinal cord stimulators) eru ígræði sem notuð eru við verkjameðferð. Þar er ígræði sem gefur frá sér rafstraum staðsett undir húð á kviðvegg og frá því liggja leiðslur að mænuganginum þar sem raförvunin er gefin. Sömu reglur gilda um gróanda og umhirðu skurðsvæðis og fyrir önnur ígræði.
Ígræði sem innihalda málm geta virkjað málmleitartæki við vopnaleit á flugvöllum. Í þeim tilvikum fylgja öryggisverðir alltaf sínum verklagsreglum, sem getur þýtt að farþegar gangist undir líkamsleit. Fjöldi fólks er með ígræði og því algengt að þessar aðstæður komi upp og þá er hægt að benda öryggisverði á ef ígræði sé til staðar í líkamanum.
Einstaklingar með ígræði mega í langflestum tilfellum fara í segulómun (MRI). Það eru einstaka ígræði sem mega alls ekki fara í segulómun en sum ígræði mega fara með ákveðnum skilyrðum.
Allir einstaklingar sem mæta í segulómun eru spurðir um ígræði og er mikilvægt að svara þeim spurningum rétt. Í einstaka tilfellum þarf að leita eftir frekari upplýsingum um tegund ígræðis.
Upplýsingar um sérhvert ígræði má finna á ígræðiskorti, að auki eru þær geymdar í gagnagrunnum Landspítala og hjá embætti landlæknis.
Landspítali afhendir ígræðiskort rafrænt í Landspítala-app. Þar má finna upplýsingar um ígræðið sjálft, framleiðanda og aðrar upplýsingar sem krafist er samkvæmt lögum um lækningatæki nr. 132/2020.
Ígræði sem gefa frá sér rafstraum birtast einnig í Landspítala-appinu en að auki fær sjúklingur afhent ígræðiskort frá framleiðanda.
Ígræðakort í Landspítalaappinu
Ef þú hefur farið í aðgerð á Landspítalanum og fengið ígræði þá geturðu séð ígræðakort fyrir hvert ígræði í Landspítala appinu. Ígræðakort birtast undir Heilsufar/Ígræði og þegar búið er að smella á ígræðakort birtist valmöguleiki á að bæta því við í veski símans.

Sjá nánar hér um Landspítalaappið - Innskráning og leiðbeiningar
