Ígræði er samheiti yfir fjölbreyttan flokk lækningatækja sem grædd eru í mannslíkamann. Ígræði geta til dæmis verið gerviliðir, gervibrjóst, stoðnet í kransæðar eða kviðslit, naglar, skrúfur og plötur eftir beinbrot en einnig flóknari tæknibúnaður eins og hjartagangráðar, taugaörvi og lyfjadælur.
Ígræði er langoftast komið fyrir með skurðaðgerð, speglunartækni eða inngripi í æðakerfi. Húðin og vefirnir umhverfis ígræði þurfa að gróa eftir aðgerð og því getur fylgt bólga eða verkir. Húðsvæði eftir skurðaðgerð grær í flestum tilvikum á 2-3 vikum en nauðsynlegt er að viðhalda góðu hreinlæti á skurðsvæði eða á stungustað á meðan. Fylgjast þarf með blæðingum, hita og roða frá skurðsári. Þegar ígræði er komið fyrir í speglun eiga upplýsingar um skurðsár ekki við.
Ekki er mælt með sundferðum á meðan húðin er að gróa. Ígræði eru viðkvæm fyrir sýkingum og erfitt er að meðhöndla sýkingar sem koma upp þau Til að uppræta sýkingu getur komið til þess að fjarlægja þurfi ígræði.