Sarkmein
Krabbamein í bandvef, beinum og vöðvum, svokölluð sarkmein, eru hópur sjaldgæfra sjúkdóma, með mjög mismunandi hegðun og horfur. Þessi æxli eru um 1-2% allra illkynja æxla á Íslandi, skiptast gróflega í mjúkvefja og beinaæxli og koma fyrir á öllum aldursskeiðum. Orsakir þessara krabbameina eru að mestu leyti óþekktar.
Helstu einkenni
Sarkmein eru sjaldgæf og gefa oft lítil einkenni sem geta verið breytileg eftir því hvar æxlin myndast. Algengustu einkennin eru verkir í beinum og verkjalausir hnútar eða fyrirferðir í mjúkvefjum.
Mjúkvefjaæxli: Birtingarmynd mjúkvefjaæxla er oftast eymslalaus fyrirferð. Mjúkvefjaæxli eru algeng og þar af eru góðkynja æxli mun algengari en æxli af illkynja uppruna (sarkmein).
Beinæxli: Birtingarmynd beinæxla er mismunandi en getur verið verkir, þreifanleg fyrirferð eða önnur einkenni án augljósra orsaka (saga um áverka/annað).
Hvenær skal leita til læknis
Ef vart verður við vaxandi fyrirferð á yfirborði líkamans ætti að leita til læknis.
Heimilislæknir eða skurðlæknir vísar sjúklingi til sarkmeinateymis Landspítala.
Nauðsynlegar rannsóknir sem þurfa að liggja fyrir eru eftirfarandi:
MR af mjúkvefjum, röntgenmynd og sneiðmynd (CT) af beinum
Sneiðmynd (CT) af lungum
Nánari upplýsingar um sarkmein má finna á vef Krabbameinsfélagsins
