Nýrnasjúkdómar
Nýrun og starfsemi þeirra
Hver einstaklingur fæðist yfirleitt með tvö nýru en eitt nýra dugar samt til að sinna þeirri starfsemi sem nauðsynleg er.
Nýrun liggja baklægt í kviðarholi, umvafin fituvef og eru varin af hrygg og neðstu rifbeinum
Hægra nýra liggur aðeins neðar en það vinstra
Nýrun eru um það bil 150 gr. hvort um sig
Frá hvoru nýra liggur þvagleiðari niður í þvagblöðru og frá þvagblöðru liggur þvagrás út úr líkamanum.
Hlutverk nýrna
Starfsemi nýrnanna er margþætt og er einstaklingum lífsnauðsynleg. Nýrun hreinsa / sía úrgangsefni úr blóðinu, sér í lagi niturúrgangsefni.
Þau viðhalda salta- og vökvajafnvægi með síun og seytun, taka þátt í að stjórna sýrustigi líkamans og hafa áhrif á blóðþrýstingsstjórnun og myndun rauðra blóðkorna með framleiðslu á rauðkornahormóni ( e. erythropoietin))
Langvinnur nýrnasjúkdómur og nýrnabilun
Nýrnabilun (e. kidney failure) er sjúkdómsástand þegar nýrun geta ekki sinnt hlutverki sínu og líkaminn losnar ekki við umframvökva og úrgangsefni. Nýrnabilun getur verið á grunni bráðs eða langvinns nýrnasjúkdóms.
Langvinnum nýrnasjúkdómi er skipt í fimm stig eftir starfshæfni nýrna. Stig 5 telst vera lokastigsnýrnabilun, en þá er GSH (gauklasíunarhraði) kominn niður fyrir 15 ml/mín./1,73 m2
Meðferð og stig sjúkdómsins
Þegar einstaklingur greinist með sjúkdóm í nýrum er oft hægt að meðhöndla sjúkdóm og einkenni með lyfjum.
Meðferð langvinns nýrnasjúkdóms beinist einkum að því að seinka eða koma í veg fyrir hnignun á nýrnastarfsemi og þar með að langvinnur nýrnasjúkdómur fari yfir í lokastigsnýrnabilun.
Nýrnabilun á lokastigi er lífshættulegt ástand, nýrun verða óstarfhæf, hætta að útskilja þvag og nýrnavefurinn skemmist varanlega. Nýgengi nýrnabilunar á lokastigi hefur aukist jafnt og þétt um allan heim á undanförnum áratugum.
Einstaklingur með lokastigsnýrnabilun þarf annað hvort á skilunarmeðferð að halda eða ígrætt nýra. Hægt er að halda einkennum niðri í lengri eða skemmri tíma með sérhæfðri lyfja-og næringarmeðferð.
Algengustu orsakir lokastigsnýrnabilunar eru:
gauklabólga (e. glomerulonephritis)
langvinn millivefsnýrnabólga
arfgengur blöðrunýrnasjúkdómur
hækkaður blóðþrýstingur
sykursýki
nýrnaæðasjúkdómur
Sýkingar og lyf geta valdið nýrnaskemmdum og jafnvel nýrnabilun.
