Fótamein eru meðal alvarlegustu og flóknustu langvinnu fylgikvilla sykursýki.
Meðal fótameina teljast
fótasár
aflaganir
skynskerðing
taugaverkir
og margt fleira
Fótamein verða vegna skemmda í æðum og taugum. Þessar skemmdir geta valdið:
Skynskerðingu í fótum (úttaugakvilli)
Truflun á blóðflæði (blóðþurrð)
Skemmdirnar geta þróast smátt og smátt, á löngu tímabili, án þess að þú gefir því gaum. Fyrirbyggjandi eftirlit og stjórn áhættuþátta eru því mikilvæg atriði.
Fótaeftirlit
Ætti að vera í höndum þverfaglegs teymis, það er lækna, hjúkrunarfræðinga og fótaaðgerðafræðinga. Meðferðaráætlun ætti að vera samkomulag milli þín og ofantalinna fagaðila. Með góðri stjórn blóðsykurs, blóðfitu og blóðþrýstings er hægt að minnka líkur á fótameinum og öðrum fylgikvillum sykursýki.
Á innkirtladeild Landspítala hefur skimunarkerfi verið þróað og innleitt þar sem fætur allra eru skoðaðir að minnsta kosti einu sinni á ári. Út frá þessari einföldu en gagnreyndu skoðunaraðferð er gert áhættumat sem frekari meðferð fer eftir.
Einnig er starfandi þverfagleg göngudeild fótameina á Sáramiðstöð Landspítala þar sem alvarlegri vandamál eru meðhöndluð. Stefnt er að því að innleiða þetta verklag alls staðar þar sem fólk með sykursýki er í eftirliti og ætti það að tryggja viðunandi og viðeigandi þjónustu.
Tímabókanir
Aðeins er hægt að fá tíma með tilvísun frá heimilslækni, hjúkrunarfræðingi eða fótaaðgerðafræðingi.
Ef ekki næst í lækni og erindið þolir enga bið skal leita á bráðamóttöku.
Stjórn áhættuþátta:
Reykingar auka líkur á fótameinum. Með reykingum minnkar blóðflæði til fóta og hætta á að grípa þurfi til aflimunar eykst. Við hvetjum skjólstæðinga okkar eindregið til að hætta að reykja.
Umhirða fóta
Skoða þarf fætur daglega og athuga hvort blöðrur, sár , sprungur eða merki um sýkingu séu fyrir hendi en þar geta einkenni eins og roði, hiti, bólga eða verkur orðið áberandi. Hitastig milli hægri og vinstri fótar á að vera jafnt.
Þvo þarf fætur með mildri sápu þegar farið er í bað eða sturtu. Skola þarf sápuna vel af og gæta þess að þurrka vel milli tánna.
Rakakrem ætti að nota daglega til að koma í veg fyrir húðrof. Kremið ætti þó ekki að fara milli tánna.
Táneglur á að klippa oft en lítið í einu. Klippt skal þvert á nöglina því þá eru minni líkur á að hún geti vaxið inn. Leita þarf til fótaaðgerðafræðinga ef umhirða reynist erfið.
Alltaf ætti að klæðast sokkum. Þeir þurfa þó að hafa víða teygju þannig að bjúgur aukist ekki við notkun. Saumlausir sokkar eru bestir því saumar geta valdið sárum.
Aldrei ætti að ganga berfættur/berfætt því það eykur líkur á sárum.
Skór þurfa að rúma fótinn vel. Þeir eru algengasta orsök fótasára og því þarf að vanda valið. Hægt er að fá aðstoð fagfólks með val á skóm. Sóli skósins þarf að vera stífur og hann þarf að styðja við ökkla. Ef hægt er að snúa upp á skóinn eins og borðtusku hefur skórinn ekki þá eiginleika sem hann þarf að hafa fyrir fólk með sykursýki.
Fylgstu vel með hvort þú finnur fyrir eftirfarandi einkennum:
Eru nýir verkir eða óþægindi?
Einnst þér fæturnir heitari en vanalega?
Er bólga eða roði á nýjum svæðum?
Sérðu einhvers staðar vessa eða graftarútferð?
Finnur þú lykt sem þú kannast ekki við frá fótum?
Ertu með hita eða flensulík einkenni?
Sáraumbúðir
Sáraumbúðir mega ekki blotna. Ef umbúðirnar blotna eiga bakteríur greiðari leið að sárinu og meiri hætta er á sýkingu. Auk þess er meiri hætta á að umbúðirnar losni eða nuddist og myndi ný sár. Mikilvægt að skipta um blautar umbúðir sem fyrst. Ekki reyna að þurrka umbúðir með því að setja fætur nálægt ofni eða öðrum varmagjöfum. Hægt er að fá poka eða plasthlífar til að verja sáraumbúðir fyrir vatni þannig að þú komist í sturtu.
Skór
Oftast þarf að nota sérstakan skóbúnað til að létta þrýstingi af sárasvæðinu. Í sumum tilfellum er einnig notað gips eða spelka. Þú ættir ekki að nota annan skóbúnað en meðferðaraðili mælir með þar til sárið er gróið.
Sýklalyfjameðferð
Ef sýking er í sárinu þarft þú sýklalyfjameðferð. Notkun sýklalyfja getur valdið aukaverkunum, oftast útbrotum, ógleði og niðurgangi. Ekki hætta sýklalyfjameðferð nema að hafa fengið ráðleggingar um slíkt frá lækni. Gættu þess að eiga nóg af sýklalyfjum til að klára meðferðina. Ef sýking ágerist gætir þú þurft að leggjast inn á spítala og fá sýklalyf í æð.
Aðgerðir
Ef blóðflæði í fætinum er skert gæti þurft litla aðgerð til að bæta blóðflæðið þannig að sárið grói. Í þeim tilvikum þar sem sýkingin verður alvarleg gætir þú þurft að fara í litla aðgerð þar sem sárið er hreinsað. Ef sýking verður mjög alvarleg gæti þurft að aflima tær eða hluta fótar til að bjarga heilbrigðum hluta fótarins.