Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Almennt um sykursýki barna

Börn og unglingar
Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómar

Sykursýki hjá börnum og unglingum

Sykursýki af tegund 1 er efnaskiptasjúkdómur sem orsakast af insúlínskorti í líkamanum. Insúlín er hormón sem framleitt er í briskirtlinum og án þess hækkar sykurinn í blóðinu.

Insúlínháð sykursýki er einn algengasti langvinni sjúkdómurinn meðal barna og unglinga á Íslandi. Tíðnin fer vaxandi og greinast um 18 ný tilfelli á hverju ári.

Orsök sykursýki

Ekki er vitað nákvæmlega hvað veldur sykursýki. Talið er að erfðaþættir geri ákveðna einstaklinga næmari fyrir áhrifum umhverfisins, sem svo hrindir sjúkdómnum af stað.

Gott er að vita:

  • Sykursýki er ekki smitandi.

  • Sykursýki stafar ekki af of mikilli sykurneyslu.

  • Aðeins um eitt af hverjum tíu börnum á nákominn ættingja með sykursýki.

Einkenni

Algengustu einkennin við greiningu eru:

  • Mikill þorsti og tíð þvaglát (eykst líka að nóttu til eða eldri börn gætu farið að væta rúmið).

  • Þyngdartap, þreyta og úthaldsleysi vegna vökvataps og frumusveltis.

Alvarleg einkenni sem krefjast heinsóknar á bráðamóttöku sem fyrst:

  • Kviðverkir, ógleði og uppköst.

  • Aceton-lykt (eins og naglalakkshreinsir) úr munni eða nefi (vitum).

Greining og meðferð

Greining byggir á skoðun og mati læknis ásamt blóðprufu til að mæla blóðsykur.

Meðferð miðar að því að halda blóðsykri í skefjum til að líkja eftir eðlilegri starfsemi líkamans.

  1. Insúlíngjafir: Notast er við insúlínsprautur eða insúlíndælur nokkrum sinnum á dag.

  2. Blóðsykursmælingar: Tíðar mælingar eru nauðsynlegar daglega.

  3. Heilsusamlegar lífsvenjur: Ráðlagt er að fjölskyldur viðhaldi heilsusamlegum lífsvenjum.

Fræðsla og stuðningur er veitt af Sykursýkisteymi barna við greiningu og á reglubundnum heimsóknum á göngudeild.