Byltur og byltuvarnir
Vinnulag á Landspítala
Byltuvarnir á Landspítala byggja á gagnreyndri þekkingu, vinnulagi og alþjóðlegum leiðbeiningum. Margar deildir á Landspítala hafa einnig innleitt regluleg öryggisinnlit til sjúklinga.
Kortlagning áhættuþátta
Mælt er með kortlagningu algengra áhættuþátta byltna hjá 65 ára og eldri og yngri einstaklingum sem eru í byltuhættu vegna sjúkdóma eða ástands. Í framhaldi skal meta hvern sjúkling með tilliti til áhættuþátta og grípa til einstaklingsmiðaðra byltuvarna til að draga úr áhættu á byltu. Nánar um mat á byltuhættu í gæðahandbók Landspítala.
Á meðan innlögn stendur er lögð áhersla á:
meðhöndlun áhrifaþátta, eins og með yfirferð lyfjalista, brugðist er við réttstöðublóðþrýstingsfalli, greiningu og meðferð óráðs og ráðgjöf næringarfræðings.
að kenna sjúklingum aðferðir til að auka stöðugleika og öryggi í daglegum athöfnum. Byltuhættur í umhverfi eru fjarlægðar og viðeigandi hjálpartæki útveguð.
Fyrir heimferð
Rannsóknir hafa sýnt fram á að jafnvægisþjálfun getur komið í veg fyrir byltur og æfingar sem beinast að forvörnum byltna hjá öldruðum virðast hindra áverka vegna byltna og fækka byltum sem leiða til sjúkrahúss innlagna.
Fyrir útskrift er í samráði við sjúklinga og aðstandendur:
metin þörf fyrir heimilisathugun
útveguð viðeigandi hjálpartæki og kennt er á þau.
skipulögð jafnvægisþjálfun og önnur endurhæfing
Óraunhæft er að ætla að hægt sé að koma í veg fyrir allar byltur en erlendar rannsóknir sýna að með markvissum aðgerðum er hægt að fækka þeim umtalsvert og þar með draga úr þjáningum sjúklinga og kostnaði þeim samfara
