Byltur og byltuvarnir
Orsakir og afleiðingar
Bylta er skilgreind sem atburður þar sem einstaklingur fellur óviljandi niður á gólf, jörð eða annan lágan flöt og eru meðal algengustu óvæntu atvika sem skráð eru á heilbrigðisstofnunum.
Tilgangur
Markmiðið með átakinu er að draga úr byltum og afleiðingum þeirra með markvissum aðgerðum sem heilbrigðisstarfsfólk getur notað.

Orsakir byltu
Byltur á heilbrigðisstofnunum eiga sér oft stað á fyrstu dögum innlagnar og stafar af mörgum og oft samverkandi innri (það sem á við sjúklinginnn sjálfan) og ytri (umhverfis- og atferlislegir) þáttum og þeir helstu eru:
fyrri byltur, óráð, jafnvægistruflanir, minnkaður vöðvastyrkur, göngulagstruflun, réttstöðublóðþrýstingsfall, vannæring, þvagleka, sjónskerðingu, fjöllyfjanotkun
umhverfishættur og skortur á notkun stuðningstækja.
aldur: byltur eru algengar meðal aldraðra og hætta á byltu eykst með hækkandi aldri.
Þriðjungur 65 ára og eldri sem býr heima dettur árlega og meira en helmingur þeirra sem búa á öldrunarheimilum. Sjúklingar eldri en 64 ára og þeir 50-64 ára með undirliggjandi sjúkdóma eru í sérstakri hættu.
Afleiðingar byltu
Byltur geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og þeim fylgir gríðarlegur kostnaður. Afleiðingar byltna geta verið beinbrot, verkir, skerðing á færni og aukin stuðningsþörf.
Mjaðmabrot
Mjaðmabrot er ein af alvarlegum afleiðingum byltna en nýleg rannsókn á Landspitala leiddi í ljós 21% dánartíðni hjá konum og 36% hjá körlum einu ári eftir mjaðmabrot og tíðnin jókst með hækkandi aldri. Önnur íslensk rannsókn á sjúklingum sem gengust undir aðgerð vegna mjaðmabrots á Landspítala, leiddi í ljós að sjálfsbjargargeta þeirra sem lifa af mjaðmabrot var verulega skert, færri gátu búið á eigin heimili og fleiri þurftu vistun á hjúkrunarheimili.
Sálræn áhrif
Sálræn áhrif byltu geta verið töluverð, meðal annars:
kvíði
þunglyndi
hræðsla við að detta aftur
Byltur geta hrint af stað keðjuverkun atburða sem er erfitt að stöðva. Skelkaðir einstaklingar verða ósjálfstæðir, breyta lífsmynstri sínu og hreyfa sig minna af hræðslu við að detta.
Óttinn getur þannig dregið úr styrk, liðleika og úthaldi og leitt til fleiri byltna.
