Fara beint í efnið
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða

Hljóðbókasafn Íslands

Fyrir blinda, sjónskerta og fólk með lestrarhömlun

Upplýsingar fyrir rithöfunda og þýðendur

Hljóðbókasafnið starfar samkvæmt bókasafnalögum nr. 150/2012 og samkvæmt 19. grein höfundalaga

Úr bókasafnalögum: Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda. 

Bókasöfn gegna öll því hlutverki að jafna aðgang og í þeim tilgangi að allir geti lesið framleiðir Hljóðbókasafn Íslands efni fyrir lánþega sem eru blindir, sjónskertir og lesblindir og/eða aðra sem eiga erfitt með að lesa prentað letur. 

19. grein höfundalaga: Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrar-hamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi. 

Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. 

Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar. 

Greiðslur 

Upphæðir til rithöfunda og þýðenda eru ákvarðaðar samkvæmt samningi á milli Hljóðbókasafns Íslands og Rithöfundasambands Íslands. Þar er kveðið á um eingreiðslu vegna almennra nota á rétti höfunda vegna eigin verka og afnota á vegum safnsins á upptökum.   

Upphæðir eru uppfærðar 1. janúar ár hvert út frá launavísitölu og þær eru aðgengilegar hér

RSÍ sér um að koma greiðslum til höfunda. 

Samninginn má sjá í heild sinni á heimasíðu Rithöfundasambandsins

 Má safnið lesa og lána út bókina án samráðs við höfund? 

Já, safnið má það. Hljóðbókasafnið er ekki útgáfa þótt bækur séu lesnar inn í þeim tilgangi að gera þær aðgengilegar fyrir blinda, sjónskerta, lesblinda og aðra sem ekki geta nýtt sér prentað letur til náms, fróðleiks og ánægju. 

Í gildi er alþjóðlegur samningur um réttinn til að gefa út og dreifa öllu höfundaréttarvörðu prentefni á aðgengilegu formi fyrir prenthamlaða einstaklinga. Samningurinn er kenndur við Marrakesh og er mikið fagnaðarefni og réttarbót. Íslensk stjórnvöld skrifuðu undir samninginn 2021 og það hafa öll lönd Evrópusambandsins gert ásamt flestum löndum heimsins.  

Hljóðbókasafn Íslands gerði á árinu 2023 alls 374 hljóðbækur aðgengilegar sem er um fimmtungur allra bóka sem koma út árlega á Íslandi. Safnið hefur ekki fjármagn til að lesa inn allar bækur og gera aðgengilegar fyrir prentleturshamlaða en leitast er við að lesa inn fjölbreytt efni með áherslu á óskir og þarfir lánþega. 

Á safninu starfa um 30 lesarar í verktöku og reynt er eftir fremsta megni að velja raddir sem passa hverju verki fyrir sig. Margir sækjast eftir að fá starf við innlestur en allir þurfa að ganga í gegnum strangt próf, þar sem m.a. skýrleiki og framsetning eru prófuð. Oft eru það leikarar sem sjá um að lesa en einnig mjög vanir lesarar. 

Safninu ber ekki skylda til að hafa samband við rétthafa verka áður en þau eru lesin inn en hafi höfundur samband og óski eftir að fá að lesa bókina sjálfur er reynt að koma til móts við þá ósk. Höfundar sem hafa hug á því að lesa bækur sínar sjálfir eru beðnir um að hafa samband við safnið með góðum fyrirvara, helst áður en bókin kemur út. Þá er kannað hvort til standi að lesa bókina og eins þarf höfundur að vera viss um að hafa tíma til að lesa innan viss tímaramma svo  þjónusta við sjónskerta skerðist ekki. Greiddar eru 10.500 krónur fyrir hvern innlesinn tíma. Allir nýir lesarar fara í lesprufu áður en lestur á heilu verki hefst, líka höfundar verka. 

Hljóðbókasafn Íslands

Hafðu samband

Símaafgreiðsla: 545 4900

Hljóðver: 545 4910

Netfang: hbs@hbs.is

Opnun­ar­tími

Safnið er opið mánudaga til fimmtudag frá
10 til 16 og föstudaga 10 til 14:30

Símaafgreiðsla er opin alla virka daga 10 til 14

Heim­il­is­fang

Digranesvegur 5

200 Kópavogur