Fara beint í efnið
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða

Hljóðbókasafn Íslands

Fyrir blinda, sjónskerta og fólk með lestrarhömlun

Fyrir útgefendur

Hljóðbókasafn Íslands gerir bækur aðgengilegar fyrir blinda, sjónskerta, lesblinda eða þá sem eiga erfitt með prentað letur. Allir lánþegar þurfa að skila inn vottorði um að þeir glími við prentleturshömlun. 

Hljóðbókasafnið vill kaupa hljóðbækur 

Hljóðbókasafnið vill gjarnan kaupa fleiri hljóðbækur frá útgáfum en með þeim hætti að tryggt sé að þjónusta við lánþega okkar haldist áfram góð. Mikilvægt er að þeir sem ekki geta nýtt sér hefðbundin bókasöfn hafi gott aðgengi að hljóðbókum á okkar sértæka bókasafni. Þetta þýðir að hljóðbækur sem við höfum hug á að kaupa þurfa að vera tilbúnar á sama eða svipuðum tíma og prentuðu eintökin og að útgefendur séu tilbúnir að selja safninu bækurnar innan viss tímaramma. Safnið hefur ekki tök á að kaupa allar bækur sem bjóðast og sér bókvalsnefnd um að velja bækurnar með áherslu á fjölbreytt efni. 

  

Meira samstarf 

Aðgengi að útgefnu prentefni er sífellt í þróun og nýir tímar og tækni gera möguleikana á jafnara aðgengi betri. Öllum má vera ljóst hversu takmörkuð hljóðbókin er þegar kemur að námsefni og því leggjum við áherslu á að samhæfa texta, myndir, töflur og hljóð þegar kemur að gerð námsbóka. Gríðarleg hagræðing fengist með því að fá frá útgefendum texta bókanna á tölvutæku formi og sleppa við þá seinlegu aukavinnu að skanna bækurnar. Hljóðbókasafnið er einnig tilbúið að vera útgefendum til aðstoðar og ráðgjafar varðandi það að gefa út bækur sem væru aðgengilegar strax við útgáfu. 

  

Misnotkun á aðgangi?  

Gegnum tíðina hafa útgefendur ekki allir verið sáttir við þann lagaramma sem safnið starfar eftir[1] og þeir hafa bent á að bæta þurfi varnir safnsins gegn misnotkun. Sjálfsagt verður aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir misnotkun en starfsfólk safnsins leggur sig í líma við að fara vel með dýrmæta undanþágu frá höfundalögum. Hámark er á útlánum eins og hjá öðrum bókasöfnum, endursetja þarf lykilorð árlega og ekki er hægt að hlusta nema í einu tæki í einu á sama aðgangi. 

  

Bókalistar og hvaða bækur eru í farvatninu 

Það er mikils virði fyrir safnið að fá að vita tímanlega hvaða bækur eru væntanlegar hjá útgefendum og hvaða bækur verða einnig gefnar út sem hljóðbækur. 

  

 [1] Hljóðbókasafnið starfar samkvæmt bókasafnalögum nr. 150/2012 og samkvæmt 19. grein höfundalaga

Úr bókasafnalögum: Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda. 

Bókasöfn gegna öll því hlutverki að jafna aðgang og í þeim tilgangi að allir geti lesið framleiðir Hljóðbókasafn Íslands efni fyrir lánþega sem eru blindir, sjónskertir og lesblindir og/eða aðra sem eiga erfitt með að lesa prentað letur. 

19. grein höfundalaga: Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrar-hamlaða eða aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi. 

Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. 

Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar. 

Hljóðbókasafn Íslands

Hafðu samband

Símaafgreiðsla: 545 4900

Hljóðver: 545 4910

Netfang: hbs@hbs.is

Opnun­ar­tími

Safnið er opið mánudaga til fimmtudag frá
10 til 16 og föstudaga 10 til 14:30

Símaafgreiðsla er opin alla virka daga 10 til 14

Heim­il­is­fang

Digranesvegur 5

200 Kópavogur