Nýr rammasamningur um bílaleigubíla
20. júní 2025
Fjársýslan hefur nú auglýst eftir tilboðum í nýjan rammasamning um bílaleigubíla

Fjársýslan hefur nú auglýst eftir tilboðum í nýjan rammasamning um bílaleigubíla. Samningurinn nær yfir skammtíma- og langtímaleigu á bifreiðum fyrir allar ríkisstofnanir, með það að markmiði að tryggja hagkvæmni og skilvirkni. Helsta breyting frá fyrri samning er sú að nýr samningur er í þremur hlutum:
Rafbílar
Bílar sem nota aðra orkugjafa en 100% rafmagn
Örútboð
Í fyrri tveimur hlutunum verður valinn forgangsbirgi sem öllum kaupendum samnings ber að beina viðskiptum til. Niðurstaða útboðsins verður kynnt nánar þegar samningur kemst á.
Til stendur að bjóða út rammasamning um ökutækjatryggingar síðar í þessum mánuði. Sá samningur mun ná yfir lögbundnar ökutækjatryggingar fyrir stofnanir ríkisins og tekur til tæplega 1100 ökutækja í umsjón ríkisins.
Í ágúst 2024 tók Fjársýslan við hlutverki miðlægrar innkaupastofnunar fyrir ríkið þegar Ríkiskaup voru lögð niður og verkefnin færð til Fjársýslunnar. Eitt af lykilverkefnum á þessu sviði er að hafa umsjón með gerð miðlægra samninga um innkaup, t.d. rammasamninga.
Hægt er að fylgjast með fyrirhuguðum útboðum á miðlægum samningum hér: https://island.is/fyrirhugud-utbod-a-midlaegum-samningum