SES fyrir alla fjölskylduna
Það að börn alist upp á tveimur heimilum verður sífellt algengara í nútímasamfélagi. Samfélagsverkefnið www.sesfamily.com (áður samvinna eftir skilnað – barnanna vegna) er stafrænt velferðarúrræði fyrir börn, foreldra og fagfólk í tengslum við skilnað eða sambúðarslit foreldra. Inni á vefnum má finna fjölmörg námskeið fyrir foreldra og börn á aldrinum 3-17 ára, sem eru hugsuð til að hjálpa fjölskyldum og börnum við að takast á við breyttar fjölskylduaðstæður og áskoranir í tengslum við skilnað eða sambúðarslit. Efnið sem er ætlað börnum tekur á fjölþættum áskorunum við það að alast upp á tveimur heimilum.
Hugmyndafræði SES byggir á heildarsýn á fjölskyldusamskipti þar sem tilgangurinn er að efla foreldrasamvinnu í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita með vellíðan og hagsmuni barna að leiðarljósi. Lagt er upp úr því að aðstoða foreldra við það að fara úr parsambandi yfir í foreldrasamband með uppbyggilegri foreldrasamvinnu.
• SES fyrir alla fjölskyklduna - Stafrænn vettvangur og stuðningsefni fyrir foreldra, börn og fagfólk
Auk efnis fyrir foreldra og börn er að finna á vefnum sérhæft námsefni, fræðslu og verkfæri fyrir fagfólk til að nota í daglegum störfum sínum með umræddum fjölskyldum og börnum.
Stafræni vettvangurinn hefur verið aðgengilegur á Íslandi frá 2020, fyrst sem reynsluverkefni í nokkrum sveitarfélögum og svo frá 2021 í öllum sveitarfélögum landsins. Vefurinn er að danskri fyrirmynd, þýddur, staðfærður og innleiddur á Íslandi í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið sem gerði samning við Samarbejde efter skilsmisse ApS í Danmörku.
Stafræni vettvangur SES er gagnreyndur, studdur rannsóknum og klínískri beitingu, ásamt reynslu bæði foreldra og fagfólks. Fjöldi danskra rannsókna hafa sýnt fram á verulegan ávinning fyrir foreldra og börn af því að nota SES. Íslensk rannsókn hefur jafnframt sýnt að foreldrar á Íslandi meta stafræna vettvang SES sem auðveldan í notkun, að fræðsluefnið veiti þeim nýja og nytsamlega þekkingu sem sé trúverðug og fagleg og auki skilning foreldra á áhrifum skilnaðar á sjálf sig og börn sín.
Velferðarúrræðið fellur vel að lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, félagsþjónustulögum, barnalögum og barnaverndarlögum sem fyrirbyggjandi úrræði, auk þess sem fagfólk getur notað efnið í dýpri vinnu með fjölskyldum. Samkvæmt íslenskum lögum ber stjórnvöldum að veita skilnaðarráðgjöf og getur SES nýst sem gagnreynt velferðarúrræði á öllum þjónustustigum.
