Fara beint í efnið

Prentað þann 20. jan. 2022

Stofnreglugerð

1440/2020

Reglugerð um skrár yfir samsettar afurðir sem skulu sæta eftirliti á landamæraeftirlitsstöðvum.

1. gr. Efni.

Í reglugerð þessari er mælt fyrir um reglur varðandi samsettar afurðir sem eiga að falla undir opinbert eftirlit á landamæraeftirlitsstöðvum (við komu inn í Sambandið).

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. samsett afurð: matvæli, sem eru ætluð til manneldis og innihalda bæði unnar afurðir úr dýraríkinu og jurtaríkinu, þ.m.t. afurðir þar sem vinnsla frumframleiðsluvöru er óaðskiljanlegur hluti af framleiðslu lokaafurðarinnar,
 2. kjötafurðir: afurðir eins og þær eru skilgreindar í lið 7.1 í I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004,
 3. unnar afurðir: unnar afurðir sem eru tilgreindar í 7. lið I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004,
 4. mjólkurafurðir: afurðir eins og þær eru skilgreindar í lið 7.2 í I. viðauka við reglugerð (EB) nr. 853/2004.

3. gr. Opinbert eftirlit með samsettum afurðum.

Samsettar afurðir, sem tilgreindar eru í I. viðauka við framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2012/31 og I. viðauka við framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1196, falla undir opinbert eftirlit á landamæraeftirlitsstöðvum í samræmi við reglugerð nr. 234/2020 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi með matvælum, fóðri o.fl.

Við upphaflegt val á samsettum afurðum vegna opinbers eftirlits, sem er framkvæmt á grundvelli sameinuðu nafnaskrárinnar í 1. dálki I. viðauka, skal taka mið af vísun til sérstaks texta eða löggjafar sem um getur í 3. dálki I. viðauka.

4. gr. Samsettar afurðir sem falla undir opinbert eftirlit.

Eftirfarandi samsettar afurðir skulu falla undir opinbert eftirlit:

 1. Samsettar afurðir sem innihalda unnar kjötafurðir.
 2. Samsettar afurðir þar sem a.m.k. helmingur innihaldsins er unnin afurð úr dýraríkinu önnur en unnin kjötafurð.
 3. Samsettar afurðir sem innihalda engar unnar kjötafurðir og þar sem innan við helmingur innihaldsins er unnin mjólkurafurð ef lokaafurðin uppfyllir ekki kröfur 6. gr.

5. gr. Vottorð sem eiga að fylgja samsettum afurðum.

Um útgáfu vottorða fyrir sendingar af samsettum afurðum gilda reglur þær sem settar eru fram í reglugerð nr. 886/2014, með síðari breytingum.

6. gr. Undanþága fyrir tilteknar samsettar afurðir.

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skulu eftirfarandi samsettar afurðir, sem innihalda engar kjötafurðir, ekki falla undir opinbert eftirlit:

 1. samsettar afurðir, þar sem minna en helmingur innihaldsins er einhver önnur unnin afurð, að því tilskildu að slíkar afurðir:

  1. haldi stöðugleika við geymslu við umhverfishita eða það sé öruggt að þær hafi verið fulleldaðar við framleiðslu eða meðhöndlaðar með hitun, svo að allt efnið hitni í gegn, þannig að allri hrárri afurð sé eðlisbreytt,
  2. séu greinilega auðkenndar sem afurðir ætlaðar til manneldis,
  3. séu pakkaðar í tryggum umbúðum eða í innsigluðum, hreinum gámum,
  4. hafi meðfylgjandi viðskiptaskjal og séu merktar með opinberu tungumáli aðildarríkis, þannig að bæði skjal og merkingar veiti upplýsingar um eðli, magn og fjölda pakkninga með samsettu afurðunum, upprunaland, framleiðanda og innihaldsefni,
 2. samsettar afurðir sem tilgreindar eru í II. viðauka við ákvörðun (EB) 2007/275, með síðari breytingum.

Allar mjólkurafurðir í samsettum afurðum skulu þó aðeins vera frá löndum sem tilgreind eru í I. viðauka við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 605/2010 og hafa verið meðhöndlaðar eins og fram kemur í þeim viðauka.

7. gr. Opinbert eftirlit.

Matvælastofnun fer með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við lög nr. 93/1995, um matvæli, lög nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

8. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi. Um þvingunarúrræði og viðurlög vísast til laga nr. 93/1995, um matvæli, laga nr. 54/1990, um innflutning dýra og laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, öll með síðari breytingum.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 93/1995, um matvæli og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2007/275/EB, með síðari breytingum. Ákvörðunin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 148/2007, frá 7. desember 2007. Ákvörðunin er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa.

Reglugerð þessi gildir frá 1. janúar 2021 til og með 20. apríl 2021.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 22. desember 2020.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Kolbeinn Árnason.

Iðunn Guðjónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.