Fara beint í efnið

Prentað þann 1. des. 2021

Stofnreglugerð

1357/2011

Reglugerð um landshæðarkerfi Íslands ISH2004.

I. KAFLI Markmið.

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að viðhalda og staðfesta landshæðarkerfi Íslands og tryggja þannig sameiginlegt hæðarkerfi fyrir allt landið. Jafnframt er markmiðið að auðvelda öll samskipti og samvinnu um kort og landfræðileg gögn er tengjast m.a. verklegum framkvæmdum, skipulagi og landupplýsingakerfum.

2. gr.

Landmælingar Íslands annast innleiðingu viðmiðana og staðla um landmælingar og kortagerð og leiðbeiningar um notkun þeirra. Stofnunin ber ábyrgð á landshæðarkerfi Íslands og sér um að tryggja viðhald og nákvæmni þess sbr. lög um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006.

Stofnunin skal hafa tiltækar grunnupplýsingar um landshnitakerfi Íslands. Stofnunin skal einnig hafa upplýsingar um hver hafi framkvæmt mælingar, áreiðanleika þeirra og aðgengi.

II. KAFLI Hæðarviðmiðun ISH2004.

3. gr.

Landshæðarkerfi Íslands ISH2004 uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

(1) Hæðarviðmiðunin ISH2004 er skilgreind sem jafnmættisyfirborð þar sem þyngdarmætti jarðar er fasti:
W0=W0E=fasti
og í samræmi við meðalsjávarhæð í Reykjavík á tíma 2004.6.
(2) Lengdareining ISH2004 er metri (SI). Tímaeiningin er sekúnda (SI). Þessi kvarði er í samræmi við jarðmiðjutíma (TCG) tímahnit fyrir staðbundinn jarðmiðjuramma, í samræmi við ályktun alþjóðlegu stjörnufræðisamtakanna (IAU, International Astronomical Union) og alþjóðlegu landmælinga- og jarðeðlisfræðisamtökin (IUGG, International Union of Geodesy and Geophysics) (1991). Þetta er fengið fram með viðeigandi afstæðislíkani.
(3) Hæðarþátturinn er munurinn DWP milli þyngdarmættisins WP í gegnum punkt P og þyngdarmættisins W0E fyrir ISH2004. Mættismunurinn -DWP er kölluð jafnmættistala cP.
-DWP=cP=W0E-WP
Hæðir í ISH2004 eru normalhæðir og eru jafngildar jafnmættistölum að því tilskildu að viðmiðunarþyngdarsvið sé tilgreint. Skilgreiningu á normalhæðum er að finna í I. viðauka.
(4) ISH2004 er "zero tidal" kerfi í samræmi við ályktanir alþjóðlegu landmælingasamtakanna (IAG, International Associaton of Geodesy) nr. 9 og 16 sem teknar voru upp í Hamborg árið 1983.

III. KAFLI Landshæðarnet.

4. gr.

Landshæðarkerfi Íslands (ISH2004) byggir á mælingum á 3544 fastmerkjum sem mæld hafa verið frá árinu 1992, sbr. II. viðauka með reglugerð þessari.

5. gr.

Landmælingar Íslands skulu vinna að því að bæta landshæðarkerfið með því að fjölga fastmerkjum og svæðum sem landshæðarnetið nær yfir.

6. gr.

Landmælingar Íslands skulu sjá um viðhald og eftirlit með landshæðarnetinu. Skal stofnunin sjá um endurmælingu fastmerkja eftir því sem ástæða er til. Verði höggun á landi eða landshlutum skal sá hluti netsins sem höggunin tekur til mældur að nýju með viðeigandi mæliaðferðum og tækjabúnaði eins fljótt og aðstæður leyfa.

7. gr.

Landmælingar Íslands skulu mæla viðmiðunarfastmerki, skv. III. viðauka, með gervihnattaleiðsögukerfistækni (GNSS, Global Navigation Satellite System), á um 10 ára fresti.

IV. KAFLI Fastmerki í landshæðarneti.

8. gr.

Fastmerki í landshæðarnetinu skal vera varanlegt, helst málmbolti úr ryðfríu efni. Skal það merkt greinilega með númeri, ártali og einkennisstöfum stofnunar eða fyrirtækis sem framkvæmir mælinguna.

9. gr.

Númer fastmerkja má vera allt að átta stöfum. Skulu tveir einkennisstafir þess aðila sem setur upp stöðina vera fremst og síðan allt að sex stafa tala. Seinni hluti nafnsins má þó þegar sérstaklega stendur á vera allt að átta stafa. Hafa skal samráð við Landmælingar Íslands um notkun einkennisstafa.

10. gr.

Gera skal lýsingu á fastmerki þegar það er sett upp. Skal hún vera glögg og greinargóð þannig að hægt sé á auðveldan hátt að finna merkið og meta notkunarmöguleika þess. Lýsingunni skal halda við og breyta jafnóðum ef ástæða er til, svo sem vegna breytinga á leið að fastmerki eða næsta nágrenni hennar. Lýsingar á fastmerkjum skulu vera aðgengilegar á heimasíðu Landmælinga Íslands.

11. gr.

Við innmælingu á nýjum punkti skal tvímælt frá punkti með þekktri hæð í ISH2004 þannig að ekki muni meira en jafnamm þegar mælt er fram og tilbaka. Senda skal innmælinguna til Landmælinga Íslands á stafrænu formi.

12. gr.

Þurfi að færa til fastmerki í hæðarnetinu eða fjarlægja það skal það gert í samráði við Landmælingar Íslands og á kostnað framkvæmdaraðila. Komi í ljós að fastmerki hafi verið fjarlægt án samráðs við Landmælingar Íslands skal sá sem ber ábyrgð á því að merkið er fjarlægt greiða allan kostnað af innmælingu nýs merkis í landshæðarnetið.

13. gr.

Endurmerkja skal fastmerki þegar það hefur verið fært til, það raskast eða glatast. Endurmerkingu má aðeins framkvæma með samþykki Landmælinga Íslands sem mun hafa samráð við þá stofnun eða fyrirtæki sem upphaflega merkti mælistöðina.

14. gr.

Ef fastmerki er endurmerkt skal það fá nýtt nafn í samræmdu númerakerfi Landmælinga Íslands, sbr. 9. gr.

V. KAFLI Ýmis ákvæði.

15. gr.

Landmælingar Íslands skulu veita nánari upplýsingar og leiðbeiningar um landshæðarkerfið, svo og um önnur atriði sem reglugerð þessi fjallar um.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga um landmælingar og grunnkortagerð nr. 103/2006.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 22. desember 2011.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.