Prentað þann 4. des. 2024
1351/2021
Reglugerð um hámarkslánshlutfall og hámarksfjárhæð HMS-veðbréfa.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um lánshlutfall og fjárhæðir HMS-veðbréfa, sem gefin eru út samkvæmt VI. kafla laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, um almenn lán til einstaklinga.
Um framkvæmd og nánari skilyrði lánveitinga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar samkvæmt VI. kafla laga um húsnæðismál, um almenn lán til einstaklinga, gildir reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf.
2. gr. Lánshlutfall.
Lánveiting samkvæmt HMS-veðbréfi getur numið allt að 80% af matsverði íbúðar. Taka ber tillit til framar áhvílandi lána þannig að HMS-veðbréfið ásamt áhvílandi lánum framar í veðröð séu innan þessara marka.
3. gr. Hámarksfjárhæð.
Hámarksfjárhæð HMS-veðbréfs bæði til kaupa á notaðri íbúð og vegna nýbygginga er 44.000.000 kr. Hámarksfjárhæð skv. 1. málsl. miðast við að veðbréfið hvíli á fyrsta veðrétti. Ella skulu uppfærð, framar áhvílandi lán koma til frádráttar hámarksfjárhæð.
4. gr. Hámark lána vegna viðauka og til endurbóta.
Lán vegna viðauka og til endurbóta skv. VII. kafla reglugerðar um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, ásamt öllum uppfærðum lánum sem á undan hvíla, skal rúmast innan 80% af matsverði viðkomandi íbúðar.
Fjárhæð láns samkvæmt þessari grein og uppreiknaðra áhvílandi lána Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, má samanlagt ekki nema hærri fjárhæð en 44.000.000 kr. Aukalán til einstaklinga með sérþarfir skerða ekki þetta hámark.
Útgefið HMS-veðbréf samkvæmt þessari grein skal að lágmarki nema 400.000 kr.
5. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 2. mgr. 19. gr. og 29. gr. laga um húsnæðismál öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð ÍLS-veðbréfa, nr. 540/2006, með síðari breytingum.
Félagsmálaráðuneytinu, 12. nóvember 2021.
Ásmundur Einar Daðason.
Gissur Pétursson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.