Fara beint í efnið

Prentað þann 23. jan. 2022

Stofnreglugerð

1349/2018

Reglugerð um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi.

1. gr. Almennt.

Reglugerð þessi kveður á um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi á grundvelli laga nr. 137/2001.

Styrkir sem veittir eru á grundvelli reglugerðar þessarar falla undir reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 1407/2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttar aðstoð, sbr. ákvörðun sameiginlegrar EES-nefndar nr. 98/2014 frá 16. maí 2014, sbr. b-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1165/2015 um gildistöku reglugerða framkvæmdastjórnarinnar um ríkisaðstoð.

2. gr. Gildissvið og viðfangsefni.

Heimilt er að greiða sérstaka styrki, sýningarstyrki, úr ríkissjóði vegna sýninga kvikmynda á íslensku, sem eru að lágmarki 70 mínútur í sýningu, í kvikmyndahúsum hér á landi.

Með kvikmynd á íslensku er átt við að frumútgáfa kvikmyndar, sem sýnd hefur verið í kvikmyndahúsi hér á landi, sé með íslensku tali. Þar er vísað til þess að meira en helmingur talmáls sé á íslensku. Kvikmyndir sem eru talsettar eða textaðar á íslensku fyrir sýningar í íslenskum kvikmyndahúsum teljast því ekki vera á íslensku í samhengi þessarar reglugerðar.

Sýningarstyrkir eru ekki greiddir vegna sjónvarpsþátta sem teknir eru til sýninga í kvikmyndahúsum.

3. gr. Hverjir geta sótt um sýningarstyrk.

Umsókn um sýningarstyrk vegna kvikmyndar skal vera í nafni framleiðslufyrirtækis sem bar ábyrgð á gerð og fjármögnun hennar. Sé um samframleiðsluverkefni að ræða skal umsókn lögð fram í nafni aðalframleiðanda, eða aðila sem hann veitir til þess umboð.

Framleiðslufyrirtækið skal hafa staðfestu á Íslandi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

4. gr. Fjárhæð sýningarstyrks.

Ráðherra ákveður hvaða fjárhæð skuli varið til sýningarstyrkja af fjárveitingum í Kvikmyndasjóð.

Sýningarstyrkir eru reiknaðir út á ársgrundvelli. Við veitingu sýningarstyrkja skal miða við almennar sýningar á næstliðnu almanaksári.

Sýningarstyrkir skulu nema allt að 20% af heildarsölutekjum kvikmynda í almennum sýningum á íslensku í innlendum kvikmyndahúsum á því ári eftir því sem fjárveitingar leyfa skv. 1. mgr.

Hámarksfjárhæð sýningarstyrks skal taka mið af því að heildarríkisstyrkir til hverrar kvikmyndar nemi ekki hærri fjárhæð en 85% af framleiðslukostnaði sem vísað er til í 6. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Hámarksfjárhæð sýningarstyrks skal taka mið af reglum um minniháttar aðstoð, sbr. 1. gr. Sýningarstyrkur til framleiðslufyrirtækis hverrar kvikmyndar skal falla innan þeirra marka að framleiðslufyrirtæki kvikmyndarinnar hafi ekki notið minniháttar styrkja umfram 200 þúsund evrur á næstliðnum tveimur árum og yfirstandandi reikningsári. Við umreikning yfir í íslenskar krónur skal miða við gengi sem ESA gefur út og birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins og á vef stofnunarinnar.

5. gr. Efniskröfur til umsókna og umsóknargögn.

Umsækjandi skal staðfesta að hann sé framleiðandi kvikmyndar, að hann hafi borið ábyrgð á gerð hennar og fjármögnun. Hann skal staðfesta að hann hafi staðfestu á Íslandi eða Evrópska efnahagssvæðinu, að umsókn sé vegna sýninga á kvikmynd á íslensku og að frumgerð kvikmyndarinnar sé með íslensku tali.

Þá skal umsókn um sýningarstyrki að lágmarki innihalda eftirtaldar upplýsingar:

  1. Yfirlit yfir tekjur af sölu aðgöngumiða kvikmyndar á almennum sýningum hjá innlendum kvikmyndahúsum.
  2. Kostnaðaruppgjör kvikmyndar, staðfest af endurskoðanda eða stjórn framleiðslufélags sem staðfestir heildarframleiðslukostnað kvikmyndar.
  3. Upplýsingar um styrki sem aflað var vegna framleiðslu kvikmyndarinnar frá opinberum aðilum, auk yfirlýsingar framleiðanda um hvort fjárhæð styrkja sem falla undir reglur um minniháttar styrki á síðustu þremur árum nemi hærri fjárhæð en jafnvirði 200 þúsund evra.

Umsækjandi ber ábyrgð á réttmæti umsóknargagna, þau séu áreiðanleg og staðfesti án vafa fjárhæð tekna af sýningum í innlendum kvikmyndahúsum, heildarframleiðslukostnað við gerð kvikmyndarinnar og styrki sem opinberir aðilar hafa veitt við gerð kvikmyndarinnar.

6. gr. Meðferð og umsýsla umsókna.

Kvikmyndamiðstöð Íslands auglýsir eftir og tekur á móti umsóknum, leggur mat á umsóknir og greiðslu styrkja, auk þess að gefa út leiðbeiningar og skilgreina nánar kröfur sem gerðar eru til umsóknargagna.

Kvikmyndamiðstöð Íslands er heimilt að óska viðbótargagna úr bókhaldi framleiðslufélags til staðfestingar á sölutekjum og öðrum rekstrarstærðum sem gefnar eru upp í umsóknargögnum. Við mat á tekjum af sölu aðgöngumiða í innlendum kvikmyndahúsum skal Kvikmyndamiðstöð líta til skráningar í gagnagrunn Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði.

Heimilt er að senda umsóknargögn vegna sýningarstyrkja með rafrænum hætti skv. nánari ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um umsóknargögn.

Hafi umsækjandi þegar skilað inn viðeigandi gögnum til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands vegna sama kvikmyndaverks á grundvelli kvikmyndalaga, nr. 137/2001 eða laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi nr. 43/1999, þarf umsækjandi ekki að skila inn sömu umsóknargögnum á ný en getur gefið Kvikmyndamiðstöð heimild til að nýta gögn sem þegar hafa verið lögð fram. Hér er vísað til staðfestra ársreikninga framleiðslufélaga kvikmynda, eða annarra gagna eftir því sem við á.

7. gr. Forsendur greiðslu sýningarstyrks og endurgreiðslu.

Endurkrefja ber sýningarstyrk ef í ljós kemur að styrkþegi hafi vísvitandi veitt rangar eða villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum sem hafa áhrif á veitingu og fjárhæð styrksins.

Komi í ljós að fjárhæð sýningarstyrks er umfram það hámark sem kveðið er á um í 4. gr. skal endurkrefja styrkþega um styrkinn í heild.

Áður en Kvikmyndamiðstöð tekur ákvörðun um að endurkrefja styrk skv. 2. og 3. mgr. skal styrkþega tilkynnt um að mál hans sé til athugunar og honum gefinn kostur á að láta í té gögn og skýringar vegna málsins. Um meðferð endurkröfumáls gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar, andmælarétt, birtingu ákvörðunar og kæruleiðbeiningar.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 13. gr. laga nr. 137/2001 og með hliðsjón af reglugerð nr. 1165/2015 um gildistöku reglugerða framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um ríkisaðstoð, og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 21. desember 2018.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.