Fara beint í efnið

Prentað þann 27. jan. 2022

Stofnreglugerð

1299/2013

Reglugerð um styrki til annarrar leiklistarstarfsemi en Þjóðleikhússins.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til stuðnings við aðra leiklistarstarfsemi en Þjóðleikhússins, sbr. III. og IV. kafla leiklistarlaga nr. 138/1998. Til annarrar leiklistarstarfsemi telst fjárstuðningur til leiklistarstarfsemi atvinnumanna og áhugamanna og samstarfssamningur við rekstraraðila atvinnuleikhúsa.

Fjárstuðningur getur verið til almennrar leikstarfsemi, barnaleikhúsa, brúðuleikhúsa, óperustarfsemi og listdans eða einhverrar blöndu af þessu.

2. gr. Hlutverk.

Með styrkjum til atvinnuleikhópa og rekstraraðila atvinnuleikhúsa skal leitast við að efla íslenskar sviðslistir og stuðla að nýsköpun og fjölbreytileika þeirra.

3. gr. Leiklistarráð.

Leiklistarráð er skipað af ráðherra til tveggja ára í senn, einn fulltrúi er tilnefndur af Leiklistarsambandi Íslands, einn af Bandalagi sjálfstæðra atvinnuleikhúsa og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Varaformaður skal skipaður úr hópi aðalmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við tilnefningu skal leitast við að tryggja sem jafnastan hlut karla og kvenna og þess skal gætt að sami aðili verði ekki tilnefndur oftar en tvö starfstímabil í röð, þ.e. fjögur ár.

4. gr. Verkefni leiklistarráðs.

Leiklistarráð gerir tillögu til ráðherra um úthlutun fjár sem veitt er í fjárlögum til stuðnings atvinnuleikhópum þar með talinn stuðning til rekstraraðila atvinnuleikhúsa. Leiklistarráð skal haga starfi sínu í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Leiklistarráð gerir tillögu um einstök áherslusvið sem skulu hafa forgang hverju sinni við úthlutun fjár og skal þess getið í auglýsingu. Það gerir tillögu að auglýsingu og umsóknareyðublaði.

Leiklistarráð skal veita ráðuneytinu umsögn um erindi sem ráðuneytið vísar til ráðsins. Ráðið getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum um leiklistarmálefni til ráðuneytisins. Allar umsagnir skulu vera skriflegar. Formaður ber ábyrgð á að fundargerðum og niðurstöðum sé skilað til ráðuneytisins.

Kostnaður við umsýslu, mat á umsóknum og við störf leiklistarráðs skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé leiklistarráðs.

5. gr. Auglýsing eftir umsóknum.

Ráðuneytið sér til þess að auglýst sé með tryggilegum hætti eftir umsóknum um styrki til atvinnuleikhópa og starfssamninga við rekstraraðila atvinnuleikhúsa. Auglýsingu skal birta í a.m.k. einu dagblaði sem gefið er út á landsvísu og á vef ráðuneytisins og þess aðila sem falin hefur verið umsýsla í þágu leiklistarráðs.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um tilgang og hlutverk stuðningsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum og hvar eyðublöð fyrir umsóknir er að finna. Þá skal skilgreindur umsóknarfrestur og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

Auglýst skal eftir umsóknum einu sinni á ári. Frestur til að skila inn umsókn skal vera fjórar vikur frá birtingu auglýsingar, hið minnsta.

6. gr. Umsóknir.

Umsóknum skal skilað á umsóknareyðublaði leiklistarráðs og skulu þær bera greinilega með sér hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Þeim skulu fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar eftir því sem við á:

 1. upplýsingar um umsækjanda og forsvarsmann
 2. heiti verkefnis
 3. upplýsingar um þátttakendur og hlutverk þeirra í verkefninu
 4. lýsing á verkefninu
 5. verk- og tímaáætlun
 6. fjárhagsáætlun þar sem fram koma upplýsingar um áætlaðan kostnað, helstu viðmið vegna launa, húsnæðis, kynningar- og markaðskostnaðar og efniskostnaðar, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða sótt um
 7. staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.

7. gr. Mat á umsóknum.

Leiklistarráð metur styrkhæfi umsókna og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu þeirra. Umsóknir sem uppfylla ekki formskilyrði, sbr. 6. gr., verður vísað frá og ekki teknar til greina.

Mat á umsóknum um verkefnastyrki skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á:

 1. listrænu gildi og mikilvægi verkefnisins fyrir þróun og eflingu íslenskra sviðslista
 2. gildi og mikilvægi verkefnisins til að stuðla að fjölbreytileika og til að koma til móts við mismunandi áhorfendur
 3. nýsköpun s.s. á sviði leikritunar eða nýrrar leikgerðar
 4. að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að
 5. starfsferli, faglegum og/eða listrænum bakgrunni þátttakenda
 6. fjárhagsgrundvelli verkefnisins.

Mat á umsóknum um samstarfssamning við atvinnuleikhús skal auk ofangreinds byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á:

 1. stuðningi viðkomandi sveitarfélags/sveitarfélaga vegna reksturs
 2. stöðu leikhússins meðal annarra sviðslistastofnana
 3. faglegri og rekstrarlegri getu
 4. samstarfi við aðra listahópa.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk af fjárveitingu til starfsemi atvinnuleikhópa skal það vera ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir afgreiðslu nýrrar styrkumsóknar að fyrir liggi greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrkfjárins. Leiklistarráð getur kallað eftir frekari upplýsingum vegna umsóknar ef nauðsyn krefur.

Að jafnaði er ekki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna sem er lokið.

8. gr. Ákvörðun um styrkveitingar.

Ráðherra tekur ákvörðun um verkefnastyrk og gerð samstarfssamninga á grundvelli tillagna frá leiklistarráði sem skulu vera skriflegar og geyma í stuttu máli almenna lýsingu á framkvæmd og málsmeðferð við tillögugerðina.

Ráðherra er heimilt að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri framvindu þeirra verkefna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu nema að uppfylltum þessum skilyrðum.

Heimilt er ráðherra að gera samstarfssamning við rekstraraðila atvinnuleikhúsa og hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélög á grundvelli tillögu frá leiklistarráði enda greiðist fjárframlagið af ráðstöfunarfé til starfsemi atvinnuleikhópa.

Þá er ráðherra heimilt, að fengnu samþykki þess ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins, að gera samning við rekstraraðila atvinnuleikhúss og hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélög um fjárstuðning við leikhúsið, með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum á samningstímanum. Heimilt er einnig að gera slíka samninga við lögaðila, félög eða stofnanir á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista. Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði.

9. gr. Tilkynning um afgreiðslu umsóknar.

Umsýsluaðili styrkveitinga tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna þeirra. Umsækjendum um styrki til verkefna, sem fallist er á að styrkja, skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög ef út af bregður.

Ráðuneytið annast greiðslu styrkja. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin.

Að öðru jöfnu skulu styrkir greiddir út í þrennu lagi. Í upphafi æfingatímabils verkefnis, um miðbik þess og að lokinni frumsýningu.

Upplýsingar um styrkveitingar skulu birtar á vef umsýsluaðila og á vef ráðuneytisins.

Á öllu útgefnu efni, auglýsingum o.s.frv. sem tengist hinu styrkta verkefni skal koma fram að það er styrkt af ráðuneytinu. Styrkþegi skal sjá til þess að samstarfsaðilar geri slíkt hið sama.

10. gr. Niðurfelling styrkja.

Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi til önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, skal leiklistarráð fjalla um málið og getur það lagt til við ráðherra að styrkur verði felldur niður. Að öðru jöfnu skulu styrkþegar nýta styrki sína innan 14 mánaða frá úthlutun.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, má krefjast þess að styrkurinn verði endurgreiddur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun samkvæmt 1. og 2. mgr. er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.

11. gr. Eftirlit.

Styrkþegar skulu skila greinargerð um verkefnið og fjárhagsuppgjöri eigi síðar en 6 mánuðum eftir lok þess. Í uppgjörinu skal tiltaka kostnað og tekjur vegna verkefnisins. Greinargerðin og fjárhagsuppgjörið skulu staðfest af styrkþega og óháðum einstaklingi/ skoðunarmanni eða endurskoðanda. Styrkþegi ber ábyrgð á að skila skattayfirvöldum fjárhagsuppgjöri og að öll gögn sem uppgjör byggir á séu varðveitt í a.m.k. fimm ár.

12. gr. Stuðningur við starfsemi áhugaleikfélaga.

Bandalag íslenskra leikfélaga gerir tillögu til ráðherra um úthlutun styrkja til starfsemi áhugaleikfélaga á grundvelli reiknireglu sem stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga setur. Fjárframlag til starfsemi áhugaleikfélaga greiðist af sérstöku framlagi á fjárlögum hverju sinni.

13. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 19. gr. leiklistarlaga nr. 138/1998, öðlast gildi 1. febrúar 2014. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 786/1982.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 23. desember 2013.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.