Fara beint í efnið

Prentað þann 21. jan. 2022

Stofnreglugerð

1290/2016

Reglugerð um útsendingu stuttra myndskeiða frá viðburðum sem vekja mikinn áhuga meðal almennings.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Fjölmiðlaveita, sem hefur einkarétt á sjónvarpsútsendingum frá innlendum og erlendum viðburðum sem vekja mikinn áhuga meðal almennings, skal veita öðrum fjölmiðlaveitum sem starfrækja myndmiðlun og eru með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu aðgang að stuttum myndskeiðum að eigin vali frá viðkomandi sjónvarpsútsendingum.

Heimilt er að nota þessi stuttu myndskeið í almennum fréttaþáttum sem sendir eru út í línulegri myndmiðlun, og í myndmiðlun eftir pöntun ef sami dagskrárliður er í boði í seinkaðri útsendingu frá sömu fjölmiðlaveitu.

2. gr.

Með viðburðum sem vekja mikinn áhuga almennings er átt við viðburði sem hafa fréttagildi að mati þeirrar fjölmiðlaveitu sem óskar eftir afnotaleyfi, höfða til margra og eru jafnframt áhugaverðir fyrir aðra en þá sem að jafnaði fylgjast með viðburðum af sama tagi.

Þegar um íþróttaviðburði er að ræða, þar sem keppt er í mörgum íþróttagreinum, skal hver keppnisgrein teljast stakur viðburður sem vekur mikinn áhuga almennings. Þegar um eina keppnisgrein er að ræða og keppnin stendur yfir í marga daga skal hver keppnisdagur teljast stakur viðburður sem vekur mikinn áhuga almennings.

3. gr.

Fjölmiðlaveita sem leitar eftir aðgangi að efni til eigin nota í útsendingu á almennum fréttaþætti hjá annarri fjölmiðlaveitu, sem hefur einkarétt á útsendingu á viðkomandi efni, skal fyrst leita eftir slíkum aðgangi hjá annarri fjölmiðlaveitu hér á landi en að öðrum kosti hjá fjölmiðlaveitu í öðru aðildarríki EES-samningsins.

4. gr.

Tímalengd þeirra stuttu myndskeiða sem skylt er að veita aðgang að skv. 1. gr., skal ekki vera lengri en upplýsingagildi þeirra gefur tilefni til og ekki lengri en 90 sekúndur. Í sérstökum tilvikum má með heimild þeirrar fjölmiðlaveitu, sem fer með einkarétt á viðkomandi efni, senda út lengri myndskeið.

Aðeins má senda út stutt myndskeið, sem veittur er aðgangur að, eftir að útsendingu frá viðkomandi viðburði er lokið.

5. gr.

Stutt myndskeið, sem veittur er aðgangur að skv. 1. gr., má aðeins nota í almennum fréttaþáttum á hvers kyns sjónvarpsstöðvum eða rásum.

Með almennum fréttaþáttum er átt við dagskrárliði sem fjalla um marga atburði eða fjölbreytt efni sem talið er hafa fréttagildi. Almennur fréttaþáttur getur eftir atvikum fjallað um afmarkaða grein viðburða eins og til dæmis íþróttir.

Heimild til aðgangs að efni gildir ekki um efni úr skemmtiþáttum.

6. gr.

Fjölmiðlaveita sem hefur fengið aðgang að stuttu myndskeiði til útsendingar skal geta uppruna og rétthafa þess við útsendingu ef þess er kostur.

Óheimilt er að nota kynningu eða tal yfir myndskeið frá þeirri fjölmiðlaveitu sem hefur einkarétt á sjónvarpsútsendingum frá innlendum og erlendum viðburðum, við útsendingu á stuttum myndskeiðum í öðrum fjölmiðlum.

Öll afnot af myndefni skulu að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði höfundalaga.

Óheimilt er að krefjast greiðslu fyrir aðgang að og afnot af þeim stuttu myndskeiðum sem hér um ræðir.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í e-lið 1. mgr. 62. gr., sbr. 6. og 7. mgr. 45. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 og tekur þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 16. desember 2016.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.