Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 22. okt. 2024

1281/2014

Reglugerð um bifreiðamál ríkisins.

1. gr.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur yfirumsjón með bifreiðaeign ríkisins og bifreiðanotkun þess eftir því sem nánar segir í reglugerð þessari. Tekur hún til stofnana ríkisins annarra en fyrirtækja í E-hluta ríkisreiknings.

2. gr.

Reglur um bifreiðanotkun á vegum ríkisins gilda um bifreiðar í eigu ríkisins og rekstrarleigubifreiðar, sbr. 3.-4. gr., leigðar bifreiðar starfsmanna ríkisins, sbr. 5 gr., og bílaleigubíla og leigubíla, sbr. 7. gr.

Sérstakar reglur gilda um bifreiðar sem ríkið leggur ráðherrum til, sbr. 8. gr.

3. gr.

Þegar hagkvæmt er kaupir ríkið bifreiðar eða tekur bifreiðar á rekstrarleigu til að sinna vissum verkefnum stofnana ríkisins og rekur þær.

Skulu slíkar bifreiðar greinilega merktar viðkomandi ríkisstofnun eða sem ríkisbifreiðar og eru einkaafnot starfsmanna af þeim óheimil.

Að loknum starfsdegi skulu slíkar bifreiðar skildar eftir í vörslu stofnunar. Þó er forstöðumanna stofnunar heimilt, að fengnu samþykki bílanefndar f.h. fjármála- og efnahagsráðuneytisins að leyfa starfsmanni að hafa slíka bifreið í sinni vörslu utan vinnutíma þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

4. gr.

Kaup eða rekstrarleiga á bifreiðum skal eiga sér stað að fengnu samþykki bílanefndar f.h. fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Kaup og sala ríkisbifreiða skal fara fram á vegum Ríkiskaupa. Ríkiskaup skulu að öllu jöfnu kaupa bifreiðar og afla rekstrarleigubifreiða að undangengnu útboði.

Verði ágreiningur um kaup eða rekstrarleigu bifreiða milli forstöðumanns ríkisstofnunar (kaupanda) og Ríkiskaupa, sker bílanefnd úr.

Sala ríkisbifreiða skal fara fram samkvæmt reglugerð nr. 651/2004, um ráðstöfun eigna ríkisins. Ríkiskaup annast afsöl og nauðsynlegar tilkynningar vegna slíkra viðskipta svo og afhendingu bifreiða og innheimtu söluandvirðis.

5. gr.

Fari ríkisstarfsmaður einstakar ferðir á eigin bifreið að beiðni yfirmanns skal greiða fyrir þær með akstursgjaldi enda fylgi akstursskýrsla reikningi starfsmanns, sbr. 6. gr.

Ef áætlað er að akstur starfsmanns á eigin bifreið fari umfram 2.000 km á ári skal hlutaðeigandi ríkisstofnun gera sérstakan skriflegan aksturssamning við starfsmanninn og senda bílanefnd til umfjöllunar og ákvörðunar. Samningurinn er því aðeins gildur að hann sé samþykktur með áritun bílanefndar f.h. fjármála- og efnahagsráðuneytis, sem einnig er heimilt að fella aksturssamning úr gildi með uppsögn.

Ekki er heimilt að gera aksturssamning sem bundinn er við ákveðna tölu kílómetra nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

6. gr.

Leigugjald fyrir bifreiðaafnot skal greitt samkvæmt þar til gerðri akstursskýrslu og kílómetragjaldi sem ferðakostnaðarnefnd, samkvæmt kjarasamningum fjármála- og efnahagsráðuneytis, BSRB og BHM, ákveður hverju sinni.

Ökumaður bifreiðar skal sjá um að færa akstursskýrslu þegar að loknum akstri. Ökumaður undirritar akstursskýrsluna, en forstöðumaður stofnunar eða umboðsmaður hans staðfestir aksturinn og nauðsyn hans.

7. gr.

Ríkiskaup annast samninga fyrir hönd ríkisstofnana um leigu bifreiða við bílaleigur og starfsstöðvar leigubifreiða. Eftir því sem við verður komið skal það gert að undangengnu útboði. Á reikningi frá bílaleigum sem skilað er til greiðslu, skulu koma fram, auk dagsetningar og undirskriftar, upplýsingar um aksturserindi, vegalengdir og ákvörðunarstaði, annað hvort skráðar á reikninginn sjálfan eða sérstakt fylgiskjal með honum.

8. gr.

Ríkið skal leggja ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Bifreiðin skal vera sérútbúin með öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og vera í eigu og rekstri ríkisins. Slíkri bifreið skal að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinnir jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.

Ákvæði 3. gr. um merkingar ríkisbifreiða gilda ekki um bifreiðar ráðherra en þær skulu í stað þess auðkenndar sérstaklega með íslenska skjaldarmerkinu sem fest er á skráningarplötur þeirra.

Ríkiskaup annast kaup ráðherrabifreiða, sbr. 4. gr., og sjá um ráðstöfun þeirra á grundvelli reglugerðar um ráðstöfun eigna ríkisins. Slíkar bifreiðar skal ávallt auglýsa opinberlega til sölu nema þær séu teknar sem greiðsla vegna kaupa á nýrri bifreið

9. gr.

Bílanefnd, sem fjármála- og efnahagsráðherra skipar, er fjármála- og efnahagsráðuneytinu til aðstoðar um framkvæmd þessarar reglugerðar. Nefndin skal hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar hjá einstökum stofnunum og úrskurða um greiðslu fyrir bifreiðaafnot svo og önnur atriði þegar ástæða er til og tilefni gefst, sbr. ákvæði reglugerðar þessarar.

Ágreiningi milli nefndarinnar og stofnunar eða ráðuneytis má skjóta til fjármála- og efnahagsráðuneytis til úrskurðar.

10. gr.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með yfirstjórn bifreiðamála ríkisins, sbr. 3. tl. C-liðar 2. gr. forsetaúrskurðar, nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 51. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, sbr. 2. mgr. 85. gr. og 104. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi en við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 816/2013 um bifreiðamál ríkisins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 22. desember 2014.

F. h. r.

Guðmundur Árnason.

Hafsteinn S. Hafsteinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.