Fara beint í efnið

Prentað þann 21. des. 2024

Stofnreglugerð

1277/2018

Reglugerð um lögheimili og aðsetur.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðseturs einstaklinga á hverjum tíma.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari og reglum sem settar eru með stoð í henni er merking hugtaka sem hér segir:

  1. Aðsetur er tímabundin búseta í húsnæði sem uppfyllir skilyrði lögheimilis, þ.e. skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi, við tiltekna götu eða í dreifbýli, sem er skráð íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og hefur staðfang.
  2. Atvinna er starf, vinna eða lífsviðurværi sem maður lifir af og er framkvæmt í lögmætum tilgangi.
  3. Áfangaheimili er heimili þar sem einstaklingur dvelur hluta af tildæmdri refsingu eða sem hluta af meðferð sem honum er gert að sæta eða sækir af fúsum og frjálsum vilja.
  4. Dreifbýli er svæði á láglendi utan svæða sem skilgreind eru sem þéttbýli í aðalskipulagi.
  5. Dulið lögheimili er lögheimili sem ekki er hægt að fletta upp í þjóðskrá samkvæmt ákvörðun Þjóðskrár Íslands. Dulið lögheimili er ávallt tímabundið.
  6. Föst búseta er búseta einstaklings á stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
  7. Lögheimilaskrá er skrá yfir íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands þar sem einstaklingum er heimilt að skrá lögheimili sitt.
  8. Nám er samfellt nám á framhaldsskóla- eða háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar (stúdentspróf eða sambærilegt nám, þ.e. nám á framhaldsskólastigi). Þá nær nám yfir sérnám erlendis, svo sem iðnnám, starfsnám eða annað nám sem viðurkennt er af menntamálayfirvöldum í viðkomandi landi enda standi námsdvöl í a.m.k. eitt skólaár.
  9. Persónuskilríki er skjal með andlitsmynd af viðkomandi, fullu nafni og kennitölu og gefin eru út af Þjóðskrá Íslands. Gild persónuskilríki eru nafnskírteini, vegabréf og ökuskírteini.
  10. Réttaráhrif skráningar er bindandi áhrif skráningar.
  11. Sambærilegt húsnæði er húsnæði þar sem sambærileg atvinnu- og/eða félagsstarfsemi á sér stað og á áfangaheimilum og starfsmannabúðum.
  12. Sjálfræði er það þegar einstaklingur ræður högum sínum og dvalarstað sjálfur, nema lög mæli sérstaklega á annan veg. Sjálfræðisaldur er 18 ár.
  13. Staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn, númer og hnit.
  14. Starfsmannabúðir eru færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.
  15. Starfsmannabústaður er varanlegt íbúðarhúsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks í tengslum við atvinnustarfsemi.

II. KAFLI Hlutverk og ábyrgð.

3. gr. Þjóðskrá Íslands.

Þjóðskrá Íslands skráir lögheimili einstaklinga í þjóðskrá og heldur lögheimilaskrá. Þjóðskrá Íslands fer með viðhald gagnagrunns, gerð hugbúnaðar til skráningar, miðlun lögheimilisupplýsinga og annað sem viðkemur uppbyggingu lögheimilaskrár.

Þjóðskrá Íslands getur, hvenær sem hún telur þörf á, endurskoðað skráningu lögheimilis.

Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu í pósthólf þinglýsts eiganda fasteignar á Ísland.is eða senda tilkynningu í formi tölvupósts á tölvupóstfang þinglýsts eiganda fasteignar á Ísland.is þegar breytingar á lögheimili verða á eign hans. Þá er heimilt að senda tilkynningu um tölvupóstinn í farsíma þinglýsts eiganda í formi smáskilaboða.

4. gr. Þinglýstir eigendur fasteigna.

Þinglýstir eigendur skulu hlutast til um rétta skráningu lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans.

Nú verður þinglýstur eigandi var við eða hefur grun um að einstaklingur sé skráður með lögheimili í fasteign hans án þess að hafa þar fasta búsetu og skal hann eins fljótt og kostur er tilkynna það til Þjóðskrár Íslands.

5. gr. Stjórnvöld og fyrirtæki í einkarekstri.

Stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri ber skylda til að veita Þjóðskrá Íslands upplýsingar um búsetu einstaklinga samkvæmt beiðni Þjóðskrár Íslands.

Stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri ber skylda til að tilkynna Þjóðskrá Íslands verði þau vör við að lögheimili einstaklinga uppfylli ekki skilyrði laga.

6. gr. Lögreglustjórar.

Lögreglustjórum, hver í sínu umdæmi, ber að aðstoða Þjóðskrá Íslands við að sannreyna lögheimili einstaklinga sé þess þörf.

Þjóðskrá Íslands setur reglur um viðtöku flutningstilkynninga og auðkenningu í samráði við lögreglustjóra.

7. gr. Útlendingastofnun.

Útlendingastofnun ber við veitingu dvalarleyfis að tilkynna Þjóðskrá Íslands um lögheimili þeirra einstaklinga.

III. KAFLI Lögheimili.

8. gr. Tilkynning um skráningu lögheimilis.

Tilkynning um breytingu á lögheimili innanlands skal gerð rafrænt eða á starfstöðvum Þjóðskrár Íslands. Að auki má tilkynna flutning til landsins á starfsstöð lögreglu í viðkomandi umdæmi.

Tilkynnandi skal framvísa gildum persónuskilríkjum eða auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli útgefnum af Þjóðskrá Íslands.

Réttaráhrif skráningar eru frá þeim degi þegar fullnægjandi tilkynning berst Þjóðskrá Íslands nema óskað sé sérstaklega eftir leiðréttingu, sbr. 18. gr.

Nú telur Þjóðskrá Íslands að framlögð gögn séu ófullnægjandi og skal þá tilkynnandi upplýstur um það og honum gefið færi á að bæta úr eða gæta andmæla.

9. gr. Frávik frá meginreglunni um lögheimilisskráningu.

Skráning lögheimilis á áfangaheimili, í starfsmannabúðum eða sambærilegt húsnæði gildir aðeins til eins árs í senn og skal þeim sem hlutast til um skráningu tilkynnt með 14 daga fyrirvara um niðurfellingu skráningar.

10. gr. Lögheimili íslenskra starfsmanna sendiráða Íslands, ræðiskrifstofa o.fl.

Þeir sem falla undir ákvæði 10. gr. laga um lögheimili og aðsetur geta átt lögheimili í húsakynnum utanríkisráðuneytisins samkvæmt leyfi þess ráðuneytis og sama á við um skyldulið þeirra sem þar um ræðir sem dvelur með þeim erlendis.

11. gr. Óvissa um lögheimili.

Sé óskað skráningar í sveitarfélagi án tilgreinds heimilisfangs er Þjóðskrá Íslands heimilt að óska eftir gögnum og upplýsingum sem staðfesta að einstaklingur hafi haft þriggja mánaða samfellda dvöld í viðkomandi sveitarfélagi.

12. gr. Dulið lögheimili.

Einstaklingur og fjölskylda á sama lögheimili getur óskað eftir því að fá lögheimili sitt dulið. Í því felst að lögheimili sé ekki miðlað til annarra en tiltekinna opinberra aðila. Einstaklingur sem óskar eftir því að lögheimili hans og fjölskyldu hans sé dulið þarf að sýna fram á það með staðfestingu frá lögreglustjóra að hann og fjölskylda hans sé í hættu. Beiðni um dulið lögheimili getur einnig komið frá lögreglustjóra.

Í staðfestingu lögreglustjóra þarf að koma fram að viðkomandi sé í hættu og alvarleiki hættunnar. Þá þarf lögreglustjóri að upplýsa Þjóðskrá Íslands hvort óhætt sé að upplýsingum um lögheimili viðkomandi, þrátt fyrir að það sé dulið, sé miðlað til skattayfirvalda og/eða fleiri opinberra aðila svo sem Tryggingastofnunar ríkisins.

Nú er viðkomandi einstaklingur í bráðri hættu og getur lögreglustjóri farið þess á leit við Þjóðskrá Íslands að upplýsingum um viðkomandi sé ekki miðlað til annarra opinberra aðila.

Dulið lögheimili getur aðeins gilt til eins árs í senn. Sækja þarf um framlengingu fyrir lok gildistíma.

Heimild fyrir að hafa lögheimili dulið skal ekki vara lengur en þörf er á. Heimildin fellur niður annað hvort að ári liðnu eða fyrr ef hættan er liðin hjá.

Nú berst Þjóðskrá Íslands ekki beiðni um framlengingu og skal þá lögheimili einstaklings og eftir atvikum fjölskyldu hans, miðlað að nýju. Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu um niðurfellingu dulins lögheimilis á pósthólf viðkomandi á Ísland.is.

IV. KAFLI Aðsetur.

13. gr. Tilkynning um skráningu aðseturs vegna veikinda eða náms innanlands.

Tilkynning um skráningu aðseturs innanlands skal gerð rafrænt eða á starfstöðvum Þjóðskrár Íslands.

Nú fer tilkynning um skráningu fram á starfsstöðvum Þjóðskrár Íslands og skal tilkynnandi þá framvísa gildum persónuskilríkjum eða auðkenna sig með rafrænum skilríkjum eða Íslykli útgefnum af Þjóðskrá Íslands.

Nú fer tilkynning fram rafrænt og skal þá tilkynnandi sanna á sér deili með rafrænum skilríkjum eða Íslykli.

Tilkynnandi skal leggja fram staðfestingu á skólavist vegna skráningar aðseturs á grundvelli náms eða læknisvottorði, útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi, vegna skráningar aðseturs vegna veikinda.

14. gr. Aðsetur vegna náms erlendis.

Einstaklingi sem flytur til útlanda vegna náms utan Norðurlandanna, ber að tilkynna Þjóðskrá Íslands um námsdvöl sína og framvísa staðfestingu á skólavist ætli hann að halda lögheimilisskráningu hér á landi. Heimild til að halda lögheimili hér á landi fellur niður að liðnum fjórum árum berist Þjóðskrá Íslands ekki staðfesting á áframhaldandi skólavist erlendis. Um tilkynningu aðseturs fer skv. 13. gr.

Berist ekki staðfesting á áframhaldandi skólavist er Þjóðskrá Íslands heimilt að skrá viðkomandi einstakling og eftir atvikum fjölskyldu hans, með lögheimili erlendis. Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu um breytingu á lögheimili í pósthólf viðkomandi á Ísland.is.

15. gr. Aðsetur erlendis vegna veikinda.

Einstaklingum er heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi þrátt fyrir nauðsynlega dvöl erlendis vegna veikinda. Framvísa skal vottorði, útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi, hjá Þjóðskrá Íslands um nauðsyn dvalar erlendis vegna veikindanna og tilkynna um aðsetur erlendis. Um tilkynningu aðseturs fer skv. 13. gr.

Einstaklingur skal hafa átt lögheimili hér á landi samfellt í tvö ár hið minnsta áður en veikindi hófust.

Heimildin fellur niður að einu ári liðnu nema óskað sé áframhaldandi aðsetursskráningar erlendis.

Nú er óskað eftir áframhaldandi aðsetursskráningu erlendis og skal þá lagt fram nýtt læknisvottorð.

Berist ekki staðfesting á áframhaldandi dvöl erlendis vegna veikinda er Þjóðskrá Íslands heimilt að skrá viðkomandi einstakling með lögheimili erlendis. Þjóðskrá Íslands skal senda tilkynningu um breytingu á lögheimili í pósthólf viðkomandi á Ísland.is.

V. KAFLI Eftirlit, leiðrétting o.fl.

16. gr. Framkvæmd eftirlits.

Þjóðskrá Íslands fer með eftirlit með skráningu lögheimilis og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu og Útlendingastofnunar í þeim tilgangi.

Þjóðskrá Íslands getur tekið skráningu lögheimilis einstaklings eða hóp einstaklinga til endurskoðunar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu frá þriðja aðila.

Nú er lögheimilisskráning einstaklings tekin til skoðunar og getur Þjóðskrá Íslands óskað upplýsinga og gagna frá einstaklingnum sjálfum. Stofnuninni er heimilt að hafa samband við viðkomandi einstakling í gegnum pósthólf á Ísland.is. Þá er stofnuninni heimilt að leitast við að tilkynna einstaklingnum með smáskilaboðum um að hann eigi póst í pósthólfinu sínu sé það hægt.

Nú leikur vafi á að lögheimilisskráning sé rétt þrátt fyrir upplýsingar frá hinum skráða eða hann veitir engar upplýsingar eða ekki næst í hann og er þá Þjóðskrá Íslands heimilt að kalla eftir upplýsingum frá öðrum stjórnvöldum og fyrirtækjum í einkarekstri ýmist beint eða í gegnum uppflettingar á netinu.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að fara þess á leit við lögreglustjóra, að lögreglan kanni raunverulega fasta búsetu einstaklings, hvort sem er um að ræða skráð lögheimili eða þar sem hann er talinn vera búsettur. Lögreglu er heimilt að kanna hjá nágrönnum hins skráða hvort vitað sé til að hann búi á umræddum stað.

Nú er hinn skráði erlendur ríkisborgari og getur Þjóðskrá Íslands þá einnig leitað upplýsinga frá Útlendingastofnun.

17. gr. Leiðrétting.

Þjóðskrá Íslands er heimilt að leiðrétta augljósar villur sem orðið hafa á skráningu lögheimilis einstaklinga og hafna skráningu tilkynningar um lögheimili sem er augljóslega röng.

Þannig skal Þjóðskrá Íslands hafna skráningu tilkynningar um lögheimili í opinberum byggingum og öðrum fasteignum sem ekki teljast til íbúðarhúsnæðis í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Þjóðskrá Íslands getur þegar sérstaklega stendur á breytt skráningu lögheimilis allt að eitt ár aftur í tímann, talið frá þeim degi þegar beiðni er lögð fram, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn, að mati Þjóðskrár Íslands, um að einstaklingur hafi haft fasta búsetu á tilgreindu lögheimili á því tímabili sem um ræðir.

VI. KAFLI Ýmis ákvæði.

18. gr. Refsiákvæði.

Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum.

19. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 18. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur og öðlast gildi 1. janúar 2019, að undanskilinni 12. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2020.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 20. desember 2018.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.