Prentað þann 21. des. 2024
1277/2007
Reglugerð um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun.
2. gr. Tryggingastofnun ríkisins.
Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, og reglugerðar þessarar.
Tryggingastofnun ríkisins metur á grundvelli umsóknar og fylgigagna, sbr. 3. gr., hvort og í hversu langan tíma foreldri eigi rétt til greiðslna samkvæmt lögunum og reglugerð þessari þegar það getur hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barns síns sem greinst hefur með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun.
3. gr. Umsókn um greiðslur.
Foreldri sækir um greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og reglugerð þessari til Tryggingastofnunar ríkisins á þar til gerðum eyðublöðum. Umsókn skal meðal annars fylgja eftir því sem við á:
- vottorð sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu um greiningu, meðferð og umönnunarþörf barns,
- staðfesting frá vinnuveitanda um að foreldri leggi niður störf og um starfstímabil þess, eða vottorð frá skóla um að foreldri hafi gert hlé á námi og fyrri námsvist,
- staðfesting sjúkra- eða styrktarsjóðs um að foreldri hafi nýtt sér réttindi sín þar, og
- aðrar upplýsingar sem Tryggingastofnun ríkisins telur nauðsynlegar.
Sækja skal sérstaklega um framlengingu á greiðslum skv. 3. mgr. 8. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, sbr. einnig 18. gr., eða greiðslur samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 12. gr. sömu laga.
Umsóknin skal undirrituð af báðum foreldrum enda fari þau bæði með forsjá barnsins. Forsjárlaust foreldri skal undirrita umsókn uppfylli það skilyrði 5. mgr. 8. gr., 5. mgr. 14. gr. eða 4. mgr. 19. gr. laganna um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, sem og maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki þegar það á við.
4. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 5. gr. og 31. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. einnig lög nr. 154/2007, skal öðlast gildi 1. janúar 2008. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 543/2006, um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlega fatlaðra barna.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. reglugerðar þessarar, mun Tryggingastofnun ríkisins taka við umsóknum frá foreldrum frá og með 1. febrúar 2008. Vinnumálastofnun mun annast greiðslur til foreldra sem stofnunin ákvarðaði að ættu rétt á greiðslum á grundvelli laganna á árinu 2007 og hafa ekki þegar fullnýtt rétt sinn 1. janúar 2008.
Félagsmálaráðuneytinu, 28. desember 2007.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.