Fara beint í efnið

Prentað þann 21. jan. 2022

Stofnreglugerð

1271/2016

Reglugerð um endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

1. gr.

Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði 25% af kostnaði sem talinn er upp í 6. gr. laga nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

2. gr.

Umsókn um endurgreiðslu fyrir hljóðritun tónlistar skal senda til þess ráðuneytis er fer með málefni iðnaðar.

Séu fleiri en einn skráðir sameiginlegir útgefendur að hljóðritunum skulu þeir sækja um endurgreiðslu vegna þeirra sameiginlega til ráðuneytisins.

3. gr.

Nefnd sem skipuð er skv. 4. gr. laga nr. 110/2016 fer yfir innkomnar umsóknir sem skulu vera í samræmi við leiðbeiningar ráðuneytisins um form umsókna.

4. gr.

Til að útgefandi geti hlotið endurgreiðslu vegna hljóðrita sem gefin hafa verið út og gerð aðgengileg almenningi skulu eftirfarandi skilyrði vera uppfyllt:

 1. Samanlagður spilunartími tónlistar á þeim hljóðritum sem sótt er um endurgreiðslu vegna nái 30 mínútum.
 2. Að ekki hafi liðið lengri tími en 18 mánuðir frá útgáfu elsta til yngsta hljóðritsins.
 3. Að ekki séu liðnir sex mánuðir frá því að yngsta hljóðritið var gefið út þar til umsókn barst til ráðuneytis.
 4. Að sundurliðað bókhald liggi fyrir um endurgreiðsluhæfan kostnað sem féll til við hljóðritun ásamt afritum reikninga.
 5. Að upplýsingar liggi fyrir um þá aðila sem komu að hljóðritun og tónlistarflutningi.
 6. Að upplýsingar liggi fyrir um hvenær hljóðritin hafi verið gefin út og gerð aðgengileg almenningi.
 7. Að upplýsingar liggi fyrir um það hvernig hljóðritin hafi verið gerð aðgengileg almenningi.
 8. Að ISRC-kóða hafi verið úthlutað fyrir hljóðritin og fullnaðarskráningu hljóðritanna verið lokið á www.hljodrit.is, þegar um íslenska útgáfu er að ræða.
 9. Að fullnaðarskráningu hljóðritaðra verka hafi verið lokið hjá viðurkenndum höfundarréttarsamtökum sem og greiðslu höfundaréttargjalda ef við á.
 10. Að útgefandi eigi ekki vangreidda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga eða aðrar opinberar vangoldnar kröfur.

5. gr.

Heimilt er að endurgreiða 25% af eftirtöldum kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar:

 1. Tímagjald í hljóðveri fyrir hljóðritun.
 2. Launakostnað aðkeyptra flytjenda og/eða tæknimanna sem fellur til við hljóðritun.
 3. Eftirvinnslu (m.a. hljóðblöndun og lokahljóðvinnslu).
 4. Ferða- og flutningskostnað á hljóðfærum og aðalflytjendum.
 5. Eigin vinnu, sbr. 7. gr. laga nr. 110/2016.

6. gr.

Með umsókn um endurgreiðslu er skylt að skila:

 1. Samantekt um þau hljóðrit sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Þar skal koma fram hver sé aðalflytjandi á hljóðritunum og hverjir séu aðrir flytjendur. Einnig hver sé samanlagður spilunartími tónlistar á hljóðritunum og hvenær og hvernig hljóðritin voru gefin út og gerð aðgengileg almenningi.
 2. Upplýsingum um ISRC-kóða hljóðritanna og skráningu á hljodrit.is ef um er að ræða útgáfu á Íslandi.
 3. Yfirlýsingu frá STEF, eða frá höfundarréttarsamtökum þar sem hljóðritin hafa verið gefin út, um að útgefandi skuldi samtökunum ekki höfundarréttargreiðslur vegna útgáfu hljóðritanna.
 4. Yfirlýsingu frá tollstjóra eða sýslumanni um að útgefandi eigi ekki vangoldnar opinberar kröfur.
 5. Upplýsingar um það hvort útgefandi hafi hlotið endurgreiðslu fyrir hljóðritun á tónlist á undanförnum þremur árum.

7. gr.

Með umsókn um endurgreiðslu skal skila, eftir því sem við á:

 1. Reikningi frá hljóðveri og sönnun fyrir greiðslu.
 2. Reikningi fyrir greiddum launum aðkeyptra flytjenda eða tæknimanna og sönnun fyrir greiðslu.
 3. Reikningi fyrir eftirvinnslu og sönnun fyrir greiðslu.
 4. Reikningi fyrir ferða- og flutningskostnaði hljóðfæra og aðalflytjenda.
 5. Reikningi fyrir eigin vinnu, sbr. 7. gr. laga nr. 110/2016.
 6. Upplýsingum um styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu hljóðrita.

8. gr.

Nefnd skv. 4. gr. laga nr. 110/2016 fer yfir umsóknir, metur hvort skilyrði fyrir endurgreiðslu séu uppfyllt og gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu.

Við mat á umsóknum, og hvað telst hæfilegur endurgreiðsluhæfur kostnaður, getur nefndin aflað álits sérfróðra aðila, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 110/2016.

9. gr.

Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu hljóðrita dregst styrkurinn frá endurgreiðsluhæfum kostnaði skv. 5. gr.

Samanlagður styrkur opinberra aðila og heildarfjárhæð endurgreiðslu skv. 1. gr. skal ekki fara yfir 85% af heildar endurgreiðsluhæfum kostnaði vegna hljóðritunar á tónlist.

Fjárhæð endurgreiðslna samkvæmt reglugerð þessari er háð fjárveitingum Alþingis í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ráðherra hefur heimild til að fresta útborgun endurgreiðslna sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni. Séu samþykktar endurgreiðslur á fjárlagaárinu umfram fjárveitingar er ráðherra heimilt að fresta endurgreiðslu, annaðhvort að öllu leyti eða að hluta til, yfir á næsta fjárlagaár.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 110/2016, um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi og öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 16. desember 2016.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Erna Jónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.