Prentað þann 21. des. 2024
1251/2019
Reglugerð um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Efni og gildissvið.
- 2. gr. Reglur varðandi innflutning á dýraafurðum til einkaneyslu.
- 3. gr. Upplýsingar til ferðamanna og almennings.
- 4. gr. Upplýsingar sem rekstraraðilar sem stunda farþegaflutninga og póstþjónustu milli landa skulu veita viðskiptavinum sínum.
- 5. gr. Eftirlit.
- 6. gr. Viðurlög.
- 7. gr. Lagastoð og gildisstaka.
1. gr. Efni og gildissvið.
Í þessari reglugerð er mælt fyrir um reglur varðandi innflutning á dýraafurðum til einkaneyslu sem ekki eru til sölu eða dreifingar, sem eru hluti af farangri ferðamanna eða póstsendinga til einstaklinga.
2. gr. Reglur varðandi innflutning á dýraafurðum til einkaneyslu.
Óheimilt er að flytja inn til einkaneyslu frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins eftirfarandi dýraafurðir: kjöt, kjötafurðir, mjólk og mjólkurafurðir.
Eftirfarandi er undanþegið banni:
- Dýraafurðir (kjöt, kjötafurðir, mjólk og mjólkurafurðir) frá Andorra, Liechtenstein, San Marínó og Sviss.
- Slægðar eða tilreiddar lagarafurðir eða unnar lagarafurðir og samanlagt magn þeirra fer ekki yfir þyngdarmörkin 20 kg eða þyngd eins fisks.
- Lagarafurðir frá Færeyjum.
- Dýraafurðir (kjöt, kjötafurðir, mjólk og mjólkurafurðir) að hámarki 10 kg frá Færeyjum og Grænlandi.
-
Allt að 2 kg af ungbarnamjólkurdufti, ungbarnafæði og sjúkrafæði sem nauðsynlegt er viðkomandi vegna læknisfræðilegra ástæðna að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Að varan geymist við stofuhita.
- Að varan sé í neytendapakkningum frá framleiðanda.
- Að innsigli pakkningar sé órofið nema varan sé í notkun.
-
Allt að 2 kg af sérstöku sjúkrafóðri fyrir gæludýr að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Að varan geymist við stofuhita.
- Að varan sé í neytendapakkningum frá framleiðanda.
- Að innsigli pakkningar sé órofið.
- Allt að 2 kg af öðrum dýraafurðum sem teljast til matvæla, svo sem hunangi, ostrum, kræklingi og sniglum.
- Allt að 2 kg af niðursoðnum dýraafurðum sem hafa Fo-gildi 3.00 eða hærra.
3. gr. Upplýsingar til ferðamanna og almennings.
Matvælastofnun skal tryggja að við alla komustaði sé athygli ferðamanna, sem koma frá þriðju löndum, vakin á reglum um innflutning dýraafurða til einkaneyslu.
Í leiðbeiningum fyrir ferðamenn skal koma á framfæri upplýsingum um dýraafurðir sem geta borið með sér smitefni.
Leiðbeiningar fyrir ferðamenn skulu vera á íslensku og ensku.
Almenningur skal upplýstur um reglur sem gilda um dýraafurðir til einkaneyslu sem fluttar eru til Íslands með flutningsfyrirtækjum.
4. gr. Upplýsingar sem rekstraraðilar sem stunda farþegaflutninga og póstþjónustu milli landa skulu veita viðskiptavinum sínum.
Rekstraraðilar sem stunda farþegaflutninga milli landa, þ.m.t. rekstraraðilar flugvalla og hafna og ferðaskrifstofur, auk póstþjónustu og annarrar flutningaþjónustu skulu beina athygli viðskiptavina að þeim reglum sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, einkum með því að veita þær upplýsingar sem nefndar eru í 2. og 3. gr.
5. gr. Eftirlit.
Matvælastofnun og embætti tollstjóra, í samstarfi við rekstraraðila hafna, flugvalla og þeirra sem bera ábyrgð á öðrum komustöðum vörusendinga með afurðum úr dýraríkinu til einkaneyslu, undir yfirumsjón Matvælastofnunar, fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt í samræmi við 6. og 22. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum.
6. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Mál út af brotum samkvæmt reglugerð þessari skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
Afurðir dýra og vörur sem reglugerð þessi nær til og fluttar eru inn án heimildar skal Matvælastofnun eyða með tryggilegum hætti, bótalaust og á kostnað innflytjanda.
7. gr. Lagastoð og gildisstaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, með, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru nr. 22/1994 og lögum um matvæli nr. 93/1995, öll með síðari breytingum.
Reglugerð þessi öðlast gildi 1. janúar 2020.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 19. desember 2019.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Iðunn Guðjónsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.