Prentað þann 22. des. 2024
1250/2019
Reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Tilgangur og gildissvið.
- II. KAFLI Varnir gegn dýrasjúkdómum.
- III. KAFLI Almenn ákvæði um innflutning.
- 4. gr. Innflutningsleyfi.
- 5. gr. Hráar dýraafurðir frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- 6. gr. Gæludýrafóður.
- 7. gr. Innflutningur notaðra landbúnaðartækja.
- 8. gr. Ábyrgð innflytjanda.
- 9. gr. Sláturafurðir sem berast með skipum og flugvélum sem koma frá ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.
- 10. gr. Umflutningur.
- 11. gr. Viðurlög.
- 12. gr. Gildistaka.
I. KAFLI Tilgangur og gildissvið.
1. gr. Tilgangur.
Tilgangur reglugerðar þessarar er að hindra að smitsjúkdómar berist til landsins með sláturafurðum, eggjum, mjólkurafurðum og öðrum vörum sem reglugerðin tekur til.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin gildir um innflutning á hvers konar afurðum dýra og öðrum vörum, sem smitefni geta borist með er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum.
II. KAFLI Varnir gegn dýrasjúkdómum.
3. gr. Bann við innflutningi.
Eftirtaldar afurðir dýra og vörur sem geta borið með sér smitefni er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum er óheimilt að flytja til landsins samanber þó nánari útlistun í III. kafla:
- Hrátt kjöt, unnið sem óunnið, kælt sem frosið, svo og innmat og sláturúrgang, frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem ekki hefur hlotið hitameðferð, þannig að kjarnhiti hafi náð 72°C í 15 sekúndur eða aðra sambærilega meðferð að mati Matvælastofnunar.
- Dýrafóður sem inniheldur hráar dýraafurðir frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Kjötmjöl, beinamjöl, blóðmjöl, fitu sem fellur til við vinnslu þessara efna og fóðurvörur unnar úr afurðum eða úrgangi spendýra og fugla.
- Hvers konar poka eða aðrar umbúðir sem notaðar hafa verið í landbúnaði eða hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang.
- Ómeðhöndluð egg, eggjaskurn og eggjaafurðir, frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem ekki hafa hlotið hitameðferð, þannig að varan hafi verið hituð í 65°C í fimm mínútur eða aðra sambærilega meðferð að mati Matvælastofnunar.
- Ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir unnar úr ógerilsneyddri mjólk frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Hey, hálm, alidýraáburð og rotmassa og aðrar sambærilegar vörur blandað alidýraáburði.
- Blóð, sermi og aðrar lífrænar vörur úr dýraríkinu, þ.m.t. sýkla, veirur, blóð-, blóðvatns-, frumu-, vefja- og dýraeggjahvítusýni.
- Notuð reiðtygi og ósótthreinsuð reiðföt, óhreinan fatnað og tuskur svo og búnað sem notaður hefur verið til geymslu og flutninga á dýrum og dýraafurðum.
- Notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði eða hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang.
- Notaðan veiðibúnað til stangveiði, nema að undangenginni sótthreinsun.
III. KAFLI Almenn ákvæði um innflutning.
4. gr. Innflutningsleyfi.
Matvælastofnun er heimilt að leyfa innflutning á vörum, sem taldar eru upp í 3. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum, enda þyki tryggt að ekki berist smitefni með þeim er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum og þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir innflutningnum séu uppfyllt, sjá þó 7. gr. Þegar sótt er um innflutning í fyrsta sinn á vöru skv. a-, b-, e- og f-lið 1. mgr. sem upprunin er frá ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði skal innflytjandi láta Matvælastofnun í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykkis áður en varan er send frá útflutningslandi. Hið sama á við um innflutning á gæludýrafóðri.
Innflytjandi vöru skv. 2. mgr. sem upprunnin er frá ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði skal alltaf sækja um leyfi til Matvælastofnunar og leggja fram, aðflutningsskýrslu, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða skv. 5. og 6. gr.
Allur innflutningur dýraafurða frá ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði skal fara um landamærastöðvar, sbr. eftirlitsstöð á landamærum Evrópska efnahagssvæðisins, tilnefnd og samþykkt til að þar megi fara fram heilbrigðiseftirlit með afurðum frá þriðju ríkjum.
Opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð sem uppfyllir skilyrði löggjafar um reglur um sannprófun skjala og auðkenna og um eftirlit með heilnæmi vara sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skal fylgja öllum dýraafurðum sem fara um landamærastöðvar.
Leyfi Matvælastofnunar varðandi sjúkdómavarnir skulu byggjast á mati, sem m.a. tekur mið af dýrasjúkdómastöðu útflutningsríkis. Um framkvæmd þessarar greinar fer eftir ákvæðum samningsins um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
5. gr. Hráar dýraafurðir frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Innfluttum matvælum frá framleiðendum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem flokkast undir vöruliði: 0202, 0203, 0204, 0207, 0208, 0210, 1601 og 1602, sbr. viðauka I við tollalög nr. 88/2005, sem Matvælastofnun hefur veitt heimild til að flytja til landsins, sbr. 4. gr., og hafa ekki hlotið fullnægjandi hitameðferð skulu fylgja þau gögn sem hér greinir:
- Opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð sem uppfyllir skilyrði löggjafar um reglur um sannprófun skjala og auðkenna og um eftirlit með heilnæmi vara sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
- Vottorð sem staðfestir að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C samfellt í 30 sólarhringa fyrir tollafgreiðslu.
- Vottorð eða niðurstöður frá viðurkenndri rannsóknarstofu sem staðfestir að afurðirnar séu lausar við salmonellusýkla. Varðandi vottorð vegna innflutnings á kjúklingakjöti, hænueggjum, kalkúnakjöti, nautakjöti og svínakjöti gilda ákvæði reglugerðar nr. 877/2019 og reglugerðar nr. 1155/2019.
Innfluttum matvælum sem flokkast undir vöruliði 0210 og 1601 og hlotið hafa eina af eftirfarandi meðferðum skal fylgja staðfesting á að varan hafi hlotið viðeigandi meðferð sem hér greinir:
- Hitameðferð þar sem varan er í loftþéttum umbúðum með Fc gildi 3.00 eða meira eða meðferð þar sem kjarnhiti hefur náð 72°C í 15 sekúndur eða,
- náttúruleg gerjun og þroskun. Kjötið skal hafa hlotið meðferð sem felst í gerjun eða þroskun og hefur aw gildi sem er ekki hærra en 0,93 og pH gildi sem er ekki hærra en 6,0. Hráskinka skal hafa hlotið meðferð í minnst 190 daga og hrálendar í minnst 140 daga eða,
- kjöt þurrkað, verkað til geymslu. Kjötið skal hafa hlotið meðferð, sem er að mati Matvælastofnunar sambærileg við meðferðir sem fram koma í liðum a og b hér að ofan.
Innfluttir ostar sem flokkast undir tollskrárnúmer 0406.2000 og 0406.3000 skulu hafa hlotið viðeigandi meðferð þannig að ostamassinn hefur fengið hitameðhöndlun að lágmarki 48°C, varan hafi verið geymd í a.m.k. 6 mánuði við hitastig sem er ekki lægra en 10°C og með rakastig minna en 36%.
6. gr. Gæludýrafóður.
Innflutningur á hráu gæludýrafóðri sem framleitt er í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og Matvælastofnun hefur veitt heimild til að flytja til landsins, sbr. 4. gr. skal fylgja opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð sem uppfyllir skilyrði löggjafar um reglur um sannprófun skjala og auðkenna og um eftirlit með heilnæmi vara sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
7. gr. Innflutningur notaðra landbúnaðartækja.
Innflytjandi notaðra landbúnaðarvéla og áhalda, þar með talinna hestakerra og annarra tækja sem notuð hafa verið í landbúnaði eða sambærilegri starfsemi, sbr. j-lið 3. gr., skal ávallt tilkynna Matvælastofnun um fyrirhugaðan innflutning tuttugu dögum fyrir áætlaðan innflutningsdag, eða með styttri fyrirvara ef skilyrði a-f-liða hér að neðan eru þegar uppfyllt. Fyrir innflutning skal framkvæma sérstaka sótthreinsun. Allur kostnaður vegna innflutningsins skal greiddur af innflytjanda. Eftirfarandi skilyrði skulu uppfyllt fyrir innflutning:
- Upplýsingar um tegundarheiti, árgerð, lýsingu og verksmiðju-/framleiðslunúmer skal senda Matvælastofnun. Framangreind atriði skulu skráð á öll vottorð og önnur upprunaleg gögn er málið varða.
- Alla hluta, innan sem utan, hjólbarða og hjólabúnað, eftir því sem við á, skal þvo með heitu vatni undir þrýstingi.
- Fjarlægja skal öll skilrúm, stoðir og aðra lausa hluta til að auðvelda aðgengi til þvottar á holrýmum. Timbur, gúmmí, plast og slitna/skemmda hluta skal fjarlægja eftir föngum.
- Sótthreinsa skal alla hluta, utan sem innan. Sérstaka áherslu skal leggja á sótthreinsun á undirvagni, öxlum, hjólbörðum og stýrishúsi, eftir því sem við á. Nota skal viðurkennd sótthreinsiefni.
- Stafrænar myndir af tækinu eða áhaldinu, sérstaklega af stöðum þar sem líklegt er að óhreinindi safnist fyrir, bæði að utan og innan og af undirvagni, skal senda Matvælastofnun að verki loknu.
- Vottorð frá opinberum dýralækni í útflutningslandi sem staðfestir að þrif og sótthreinsun hafi farið fram skal sent Matvælastofnun.
- Innflutningsaðili skal leita heimildar Matvælastofnunar áður en útskipun fer fram. Matvælastofnun veitir heimild til útskipunar frá útflutningslandi að uppfylltum skilyrðum samkvæmt a-f-lið.
- Vélar eða tæki skulu flutt til uppskipunarhafnar og ekki tollafgreidd fyrr en farið hefur fram úttekt af hálfu Matvælastofnunar um að þvottur og sótthreinsun hafi verið fullnægjandi. Að öðrum kosti skulu vélar eða tæki þvegin og/eða sótthreinsuð að nýju ef þörf krefur að mati Matvælastofnunar.
Óheimilt er að flytja notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði eða gætu hafa verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang til landsins ef skilyrði, sbr. 1. mgr., eru ekki uppfyllt. Telji Matvælastofnun hættu á því að smitefni berist til landsins með notaðri landbúnaðarvél eða tæki, þrátt fyrir að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. fyrir innflutning eða hreinsun viðkomandi vélar eða tækis er ekki fullnægjandi við innflutning, er stofnuninni heimilt að stöðva innflutning.
Matvælastofnun getur heimilað innflutning á notuðum landbúnaðarvélum og tækjum hafi innflutningur verið stöðvaður enda hafi verið framkvæmd sérstök hreinsun og sótthreinsun á kostnað innflytjanda eða viðeigandi breytingar verið gerðar á viðkomandi vél eða tæki. Matvælastofnun skal setja þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að búfé stafi ekki hætta af slíkum innflutningi.
8. gr. Ábyrgð innflytjanda.
Innflytjandi vöru skal sjá til þess að öll nauðsynleg vottorð fylgi vörunni við innflutning og ber hann allan kostnað sem kann að leiða af öflun vottorða og þeim sóttvarnarráðstöfunum sem uppfylla þarf vegna innflutningsins, þ.m.t. nauðsynlegri sýnatöku og rannsóknum sem Matvælastofnun telur nauðsynlegar.
9. gr. Sláturafurðir sem berast með skipum og flugvélum sem koma frá ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.
Stjórnendur skipa og flugvéla sem koma til landsins frá ríkjum sem ekki eru samningsaðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði skulu sjá til þess að matvæli og matarleifar sem í eru dýraafurðir séu losaðar í sérstaka lekahelda sorpgáma og síðan eytt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 674/2017 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1069/2009 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, með síðari breytingum.
10. gr. Umflutningur.
Matvælastofnun getur heimilað umflutning á vörum þeim sem taldar eru upp í 3. gr. enda sé varan flutt úr landi á ný. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að varan sé flutt í vandlega lokuðum umbúðum, þar sem innihald er tilgreint og sendingunni fylgi uppruna- og heilbrigðisvottorð sem uppfyllir skilyrði löggjafar um reglur um sannprófun skjala og auðkenna og um eftirlit með heilnæmi vara sem koma frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
11. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Mál út af brotum samkvæmt reglugerð þessari skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
Afurðir dýra og vörur sem reglugerð þessi nær til og fluttar eru inn án heimildar skal Matvælastofnun eyða með tryggilegum hætti, bótalaust og á kostnað innflytjanda.
12. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, með síðari breytingum, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998, með síðari breytingum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, með síðari breytingum, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru nr. 22/1994 og lögum um matvæli nr. 93/1995, með síðari breytingum. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins nr. 448/2012, með síðari breytingum.
Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2020.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 19. desember 2019.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Ása Þórhildur Þórðardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.