Fara beint í efnið

Prentað þann 2. des. 2021

Brottfallin reglugerð felld brott 5. nóv. 2021

1215/2021

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1100/2021, um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19.

1. gr.

2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Læknir má aflétta einangrun vegna COVID-19 þegar 14 dagar eru liðnir frá greiningu og sjúklingur hefur verið einkennalaus í a.m.k. sjö daga. Þó er heimilt að aflétta einangrun eftir sjö daga hjá einkennalausum fullbólusettum einstakling og einkennalausu barni fæddu 2009 og síðar. Eftir tíu daga er lækni jafnframt heimilt að aflétta einangrun fullbólusetts einstaklings eða barns sem fætt er 2009 og síðar, ef einkenni eru í rénun og viðkomandi hefur verið hitalaus í 48 klst. fyrir afléttingu, sem og einangrun einkennalauss óbólusetts einstaklings. Að öðru leyti fer um afléttingu einangrunar eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis, sbr. fylgiskjal 2.

2. gr.

1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Allir þeir sem grunur leikur á að hafi umgengist einstakling með COVID-19 skulu fara í sóttkví í 5 daga frá því að þeir umgengust síðast smitaðan einstakling sem þeir losna úr með neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi. Dveljist einstaklingur í sóttkví án þess að viðhafa fullan aðskilnað við einstakling í einangrun skal sóttkví þó aldrei aflétt fyrr en degi eftir afléttingu einangrunar þess einstaklings sem henni sætti í kjölfar neikvæðrar niðurstöðu úr PCR-prófi þess sem sætir sóttkví. Þá skal einstaklingur sem gengst ekki undir PCR-próf til afléttingar á sóttkví sæta henni í 14 daga frá útsetningu fyrir smiti.

3. gr.

Í stað fylgiskjals 1 og 2 koma ný fylgiskjöl 1 og 2 sem birt eru með reglugerð þessari.

4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er á grundvelli 12., 13., 14. og 18. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, með síðari breytingum, tekur gildi 29. október 2021. Reglugerð þessi gildir um alla einstaklinga sem sæta sóttkví og einangrun við gildistöku.

Heilbrigðisráðuneytinu, 28. október 2021.

Svandís Svavarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.