Prentað þann 26. des. 2024
1205/2020
Reglugerð um Sinfóníuhljómsveit Íslands.
1. gr.
Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík. Málefni hennar heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
2. gr.
Starf Sinfóníuhljómsveitarinnar miðar að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á sígildri- og samtímatónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með viðburðahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í útvarpi, sjónvarpi og streymi. Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, þegar tilefni gefast.
Í öllu starfi hljómsveitarinnar skal kappkosta að hafa sem best samstarf við þá aðila sem að skyldum markmiðum vinna, einkum aðra íslenska flytjendur tónlistar, einstaklinga, hópa og stofnanir.
3. gr.
Tengja ber starf hljómsveitarinnar tónlistaruppeldi í landinu svo sem kostur er. Efla ber samstarf við tónlistarskólana og auðvelda nemendum þeirra að sækja tónleika hljómsveitarinnar. Hljómsveitin skal vinna markvisst að tónlistarkynningu meðal annarra skólanema og styðja tónlistarstarfsemi æskufólks eftir því sem aðstæður leyfa.
4. gr.
Sinfóníuhljómsveit Íslands skal leggja sig eftir því að eiga í farsælu og öflugu samstarfi við aðrar menningarstofnanir.
Samstarfssamningur sé gerður milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins. Sinfóníuhljómsveitinni er einnig heimilt að efna til samvinnu við aðra á viðskiptagrundvelli um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir. Skal um slíka samvinnu gera skriflega samninga hverju sinni.
5. gr.
Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ákvörðunarvald um öll málefni hljómsveitarinnar. Hún heldur fundi svo oft sem þurfa þykir.
Þegar framkvæmdastjóri er fjarverandi skal stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands ákveða hver sé staðgengill hans, í samræmi við þarfir og skipurit hverju sinni.
6. gr.
Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður aðalhljómsveitarstjóra. Aðalhljómsveitarstjóri vinnur að tillögum um viðfangsefni sveitarinnar í samvinnu við verkefnavalsnefnd og framkvæmdastjóra. Nánari ákvæði um verksvið aðalhljómsveitarstjóra skulu tilgreind í starfssamningi.
Stjórnin ræður einnig aðra fasta hljómsveitarstjóra.
7. gr.
Stjórnin fastræður hljóðfæraleikara, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, í minnst 65 stöðugildi. Heimilt er að ráða í hlutastörf. Aðra hljóðfæraleikara ræður stjórnin á sama hátt eftir því sem viðfangsefni krefjast, enda hafi viðfangsefnið verið samþykkt í fjárhagsáætlun. Um ráðningu hljómsveitarfólks og framkvæmd hæfnisprófa skal fara eftir reglum sem stjórn hljómsveitarinnar setur.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 11. gr. laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands nr. 36/1982 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 196/1991 um Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 30. október 2020.
Lilja D. Alfreðsdóttir.
Páll Magnússon.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.