Prentað þann 21. nóv. 2024
1188/2020
Reglugerð um skoðanakerfi fyrir öruggan rekstur ekjufarþegaskipa og háhraðafarþegafara í áætlunarferðum.
Efnisyfirlit
- I. KAFLI Almenn ákvæði.
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Skilgreiningar.
- 4. gr. Forskoðun.
- 5. gr. Undanþága frá skyldu um forskoðun.
- 6. gr. Reglubundnar skoðanir.
- 7. gr. Skoðunarskýrslur.
- 8. gr. Úrbætur, farbann og stöðvun.
- 9. gr. Stjórnsýslukæra.
- 10. gr. Endurgreiðsla kostnaðar.
- 11. gr. Skoðunargagnagrunnur.
- 12. gr. Viðurlög.
- 13. gr. Innleiðing.
- 14. gr. Gildistaka.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi í rekstri ekjuferja og háhraðafarþegafara sem falla undir reglugerðina og koma á skilvirku og samræmdu eftirlitskerfi með þeim skipum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um ekjufarþegaskip og háhraðafarþegafar sem er í:
- Áætlunarferðum milli hafnar á Íslandi og hafnar í þriðja ríkið ef skipið siglir undir íslenskum fána.
- Áætlanarferðum innanlands á hafsvæðum sem skipum í flokki A er heimilt að sigla á, sbr. Reglugerð nr. 666/2001.
3. gr. Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:
- Ekjufarþegaskip: skip sem er útbúið þannig að hægt er að aka ökutækjum eða járnbrautarvögnum beint um borð og frá borði og getur flutt fleiri en tólf farþega.
- Háhraðafarþegafar: far eins og það er skilgreint í reglu 1 í X. kafla SOLAS 74 og getur flutt fleiri en tólf farþega.
- SOLAS74: alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 ásamt tilheyrandi bókunum og breytingum, í uppfærðri útgáfu.
- Kóði um háhraðaför: alþjóðakóðinn um öryggi háhraðafara, sem er í ályktun siglingaöryggisnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.36(63) frá 20. maí 1994, eða alþjóðakóðinn um öryggi háhraðafara frá 2000 (HSC-kóðinn frá 2000), sem er í ályktun Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar MSC.97(73) frá desember 2000, í uppfærðum útgáfum.
- HSSC: viðmiðunarreglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um samhæft kerfi fyrir skoðanir og útgáfu skírteina, í uppfærðri útgáfu.
-
Áætlunarferðir:siglingar ekjufarþegaskipa eða háhraðafarþegafara milli sömu tveggja eða fleiri hafna eða siglingar frá og til sömu hafnar án viðkomu á öðrum stöðum, annaðhvort:
- samkvæmt birtri áætlun, eða
- með svo reglulegum eða tíðum ferðum að telja má að um reglubundnar ferðir sé að ræða.
- Hafsvæði: sérhvert hafsvæði eða siglingaleið sem ákveðin er skv. reglugerð nr. 666/2001, sbr. 4. gr. tilskipunar 2009/45/EB.
-
Skírteini:
- að því er varðar ekjufarþegaskip og háhraðafarþegaför í millilandasiglingum, öryggisskírteini gefin út samkvæmt SOLAS 74 annars vegar eða kóðanum um háhraðaför hins vegar, ásamt viðeigandi, meðfylgjandi skrám yfir búnað,
- að því er varðar ekjufarþegaskip og háhraðafarþegaför í innanlandssiglingum, öryggisskírteini gefin út í samræmi við reglugerð nr. 666/2001, sbr. tilskipun 2009/45/EB, ásamt viðeigandi, meðfylgjandi skrám yfir búnað.
- Stjórnvald fánaríkis: lögbær yfirvöld ríkis sem ekjufarþegaskipinu eða háhraðafarþegafarinu er heimilt að sigla undir fána hjá.
- Innanlandssiglingar: siglingar á hafsvæðum frá höfn aðildarríkis til sömu eða annarrar hafnar í því aðildarríki.
- Félag: sú stofnun eða sá einstaklingur sem hefur gengist við öllum þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem felast í alþjóðakóðanum um öryggisstjórnun skipa og mengunarvarnir (ISM-kóðinn), í uppfærðri útgáfu, eða í þeim tilvikum þar sem IX. kafli SOLAS 74 á ekki við, eigandi ekjufarþegaskips eða háhraðafarþegafars eða sérhver önnur stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri eða skipamiðlari þurrleiguskipa, sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri ekjufarþegaskipsins eða háhraðafarþegafarsins fyrir hönd eiganda þess.
- Skoðunarmaður: opinber starfsmaður eða annar einstaklingur sem hlotið hefur viðurkenningu Samgöngustofu til þess að annast þær skoðanir sem kveðið er á um í þessari reglugerð og uppfyllir lágmarkskröfurnar sem tilgreindar eru í XI. viðauka við tilskipun 2009/16/EB,
- Lögbært yfirvald í aðildarríki: það yfirvald sem aðildarríki tilnefnir, samkvæmt þessari tilskipun, og ber ábyrgð á að framkvæma þau verkefni sem því er falið samkvæmt þessari tilskipun.
- Tilskipunin: tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2110 frá 15. nóvember 2017 um skoðunarkerfi fyrir öruggan rekstur ekjufarþegaskipa og háhraðafarþegafara í áætlunarferðum og um breytingu á tilskipun 2009/16/EB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 1999/35/EB.
4. gr. Forskoðun.
Áður en áætlunarferðir ekjufarþegaskips eða háhraðafarþegafars sem fellur undir þessa reglugerð hefjast skal framkvæma forskoðun sem felur í sér:
- Staðfestingu á að farið sé að kröfunum sem mælt er fyrir um í I. viðauka.
- Skoðun í samræmi við II. viðauka til að ganga úr skugga um að ekjufarþegaskipið eða háhraðafarið uppfylli nauðsynlegar kröfur um öruggan rekstur í áætlunarferðum.
Skoðunarmaður skal framkvæma forskoðun.
Félag skal leggja fram gögn um að skilyrði I. viðauka séu uppfyllt þegar Samgöngustofa óskar þess en þó ekki fyrr en einum mánuði áður en forskoðun fer fram.
5. gr. Undanþága frá skyldu um forskoðun.
Hafi árlegar skoðanir farið fram á áðurliðnum 6 mánuðum áður en forskoðun skal fara fram skv. 4. gr. er heimilt að beiðni félags að beita einfaldari skoðun er eingöngu lýtur að þeim atriðum I. og II. viðauka sem ekki voru könnuð í áðurgreindum reglulegum skoðunum.
Hafi ekjufarþegaskip eða háhraðafarþegafar verið í áætlunarferðum á annarri leið og hlotið skoðanir og sætt eftirliti samkvæmt þessari reglugerð eða tilskipuninni getur Samgöngustofa veitt undanþágu frá forskoðun skv. 1. mgr. 4. gr. liggi fyrir fullnægjandi gögn og aðstæður á fyrri áætlunarleið séu sambærilegar á hinni nýju leið.
Samgöngustofu er heimilt að veita staðfestingu á að skilyrði 2. mgr. séu uppfyllt áður en óskað er eftir að hefja áætlunarferðir.
Ef nauðsynlegt er, af ófyrirsjáanlegum ástæðum, að skipta út í skyndi ekjufarþegaskipi eða háhraðafarþegafari til að tryggja áframhaldandi þjónustu, og 2. mgr. á ekki við, getur Samgöngustofa heimilað að áætlunarferðir ekjufarþegaskipsins eða háhraðafarþegafarsins hefjist á ný, að því tilskildu að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
- Sjónræn skoðun og athugun skjala gefi ekki tilefni til að ætla að ekjufarþegaskipið eða háhraðafarþegafarið uppfylli ekki nauðsynlegar kröfur um öruggan rekstur og
- Forskoðun skv. 1. mgr. 4. gr. fari fram innan eins mánaðar.
6. gr. Reglubundnar skoðanir.
Á tólf mánaða fresti skal framkvæma:
- Skoðun í samræmi við II. viðauka og
- Skoðun meðan á áætlunarferð stendur, sem skal fara fram í fyrsta lagi fjórum mánuðum fyrir en eigi síðar en átta mánuðum eftir skoðunina sem um getur í a-lið og sem tekur til þeirra atriða sem talin eru upp í III. viðauka sem og til nægilegs fjölda atriða sem talin eru upp í I. og II. viðauka, að mati skoðunarmanns, til að tryggja að ekjufarþegaskipið eða háhraðafarþegafarið haldi áfram að uppfylla allar nauðsynlegar kröfur um öruggan rekstur.
Forskoðun, sem er framkvæmd í samræmi við 4. gr., skal teljast skoðun að því er a-lið varðar.
Skoðun skal framkvæma í samræmi við II. viðauka í hvert sinn sem meiri háttar viðgerðir, breytingar og endurbætur eru gerðar á ekjufarþegaskipinu eða háhraðafarþegafarinu eða þegar breyting verður á stjórnun eða tilfærsla verður milli flokka Samgöngustofu er heimilt að veita skipinu eða farinu undanþágu frá þeirri skoðun sem krafist er samkvæmt fyrsta málslið þessarar málsgreinar þegar stjórnun eða flokkun er breytt, að teknu tilliti til fyrri skoðana á skipinu eða farinu, að því tilskildu að breytingin eða tilfærslan hafi ekki áhrif á öryggi skipsins eða farsins.
7. gr. Skoðunarskýrslur.
Að lokinni skoðun, sem framkvæmd er í samræmi við þessa reglugerð, skal skoðunarmaður taka saman skýrslu í samræmi við IX. viðauka við reglugerð nr. 316/2011, sbr. tilskipun 2009/16/EB.
Upplýsingarnar í skýrslunni skulu skráðar í skoðunargagnagrunninn sem kveðið er á um í 11. gr. Skipstjóri skal einnig fá afrit af skoðunarskýrslunni.
8. gr. Úrbætur, farbann og stöðvun.
Félag skal ráða bót á hvers konar staðfestum annmörkum eða annmörkum sem komu í ljós við skoðun sem framkvæmd er í samræmi við þessa reglugerð, sbr. einnig reglugerð nr. 1017/2003.
Ef um er að ræða annmarka, sem sannarlega stofna öryggi eða heilbrigði manna í hættu eða sem fela í sér bráða hættu fyrir heilbrigði eða líf manna, fyrir ekjufarþegaskipið eða háhraðafarþegafarið, fyrir skipverja þess og farþega, skal ekjufarþegaskipið eða háhraðafarþegafarið sæta farbanni, sbr. IV kafla laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003. Skipstjóri skal fá afrit af þessu farbanni.
Farbanninu skal ekki aflétt fyrr en ráðin hefur verið bót á annmarkanum og hættan er liðin hjá, þannig að Samgöngustofa telji það fullnægjandi eða þar til gengið hefur verið úr skugga um að skipið eða farið geti, að teknu tilliti til nauðsynlegra skilyrða sem kunna að verða sett, haldið til hafs á ný eða unnt sé að halda rekstrinum áfram án þess að öryggi og heilbrigði farþega eða áhafnar sé stefnt í hættu eða ekjufarþegaskipinu eða háhraðafarþegafarinu eða öðrum skipum sé stefnt í hættu.
Ef ekki er hægt að ráða auðveldlega bót á annmarkanum, sem um getur í 2. mgr., í þeirri höfn þar sem annmarkinn var staðfestur eða kom í ljós, getur Samgöngustofa samþykkt að heimila skipinu eða farinu að fara til viðeigandi skipaviðgerðarstöðvar þar sem hægt er að ráða bót á annmarkanum.
Við sérstakar aðstæður, ef greinilegt er að almennt ástand ekjufarþegaskips eða háhraðafarþegafars uppfyllir ekki tilskildar kröfur, getur Samgöngustofa stöðvað skoðun skipsins eða farsins þar til félagið gerir viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að ekjufarþegaskipið eða háhraðafarþegafarið stofni öryggi eða heilbrigði manna sannarlega ekki lengur í hættu eða felur ekki lengur í sér bráða lífshættu fyrir skipverja og farþega eða til að tryggja að það uppfylli viðeigandi kröfur gildandi alþjóðasamninga.
Ef Samgöngustofa stöðvar skoðunina, í samræmi við 5. mgr., skal farbann lagt á ekjufarþegaskipið eða háhraðafarþegafarið. Aflétta skal farbanninu þegar skoðun hefst aftur og henni hefur verið lokið með fullnægjandi hætti og þegar skilyrðin, sem sett eru fram í 3. mgr. þessarar greinar og 2. mgr. 10. gr., hafa verið uppfyllt.
Í því skyni að komast hjá þrengslum í höfn má Samgöngustofa heimila að ekjufarþegaskip eða háhraðafarþegafar, sem farbann hefur verið lagt á, verði fært til annars hluta hafnar, sé það öruggt. Þó skal hætta á þrengslum í höfn ekki vera til fyrirstöðu þegar ákvörðun um farbann eða um niðurfellingu farbanns er tekin. Hafnaryfirvöld eða -aðilar skulu grípa til aðgerða til að liðka fyrir móttöku skipa þegar það á við.
9. gr. Stjórnsýslukæra.
Ákvörðun samkvæmt 8. gr. er kæranleg til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisns, skv. 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Skipstjóra skips skal leiðbeint um kæruheimild skv. 1. mgr. Niðurstaða kæru skv. 1. mgr. skal skráð í gagnagrunn sbr. 11. gr. tafarlaust og niðurstaða liggur fyrir.
10. gr. Endurgreiðsla kostnaðar.
Ef skoðanirnar, sem um getur í 4. og 6. gr., staðfesta eða leiða í ljós annmarka sem réttlæta farbann skal félagið standa straum af þeim kostnaði sem fellur til vegna skoðananna.
Farbanni skal ekki aflétt fyrr en full greiðsla hefur borist eða tryggt hefur verið með fullnægjandi hætti að kostnaður verði endurgreiddur, svo sem með framlagningu tryggingar.
11. gr. Skoðunargagnagrunnur.
Samgöngustofa skal tryggja að upplýsingarnar, sem tengjast skoðunum sem hafa verið framkvæmdar í samræmi við þessa reglugerð, þ.m.t. upplýsingar um annmarka og farbönn, séu færðar án tafar inn í skoðunargagnagrunninn sem fjallað er um í 10. gr. tilskipunarinnar, um leið og skoðunarskýrslan er tilbúin eða farbanni hefur verið aflétt. Hvað varðar einstök atriði upplýsinganna gilda ákvæði XIII. viðauka við tilskipun 2009/16/EB að breyttu breytanda, sbr. XIII. viðauka reglugerðar nr. 816/2011 með áorðnum breytingum.
Samgöngustofa skal tryggja að upplýsingarnar, sem færðar eru í skoðunargagnagrunninn, séu fullgiltar til birtingar innan 72 klukkustunda.
12. gr. Viðurlög.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt VII. kafla laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 með síðari breytingum.
13. gr. Innleiðing.
Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2110 frá 15. nóvember 2017 um skoðunarkerfi fyrir öruggan rekstur ekjufarþegaskipa og háhraðafarþegafara í áætlunarferðum og um breytingu á tilskipun 2009/16/EB og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 1999/35/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107 frá 2020, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans.
14. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 4. mgr. 1. gr. laga um eftirlit með skipum nr. 47/2003 með áorðnum breytingum og öðlast þegar gildi. Um leið fellur reglugerð nr. 743/2001, um skoðanir ekjuferja og háhraðafarþegafara í innanlands- og millilandasiglingum, með áorðnum breytingum, úr gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 26. nóvember 2020.
F. h. r.
Sigurbergur Björnsson.
Eggert Ólafsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.