Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 20. jan. 2022

Reglugerð með breytingum síðast breytt 11. sept. 2015

1185/2014

Reglugerð um daggjöld fyrir dvalarrými, dagdvalarrými og hjúkrunarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2015.

1. gr. Daggjöld fyrir dvalarrými og dagdvalarrými.

Daggjöldum vegna dvalarrýma fyrir aldraða og vegna dagdvalar aldraðra er ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis og skulu vera sem hér segir frá 1. janúar 2015:

1. Daggjald á dvalarrými fyrir aldraða 11.668 kr.
2. Gjald á dagdvöl fyrir aldraða 6.091 kr.

Nauðsynlegur flutningskostnaður heimilismanna er innifalinn í dagdvalargjaldi. Þeir sem njóta þjónustu dagdvalar skulu greiða 1.020 kr. á dag, sbr. 19. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Daggjald til dvalarheimilis fyrir aldraða er greitt frá upphafi dvalar og til loka þess mánaðar sem heimilismaður er tekinn inn á heimilið. Dvalargjald þetta skal ekki hafa áhrif á bætur Tryggingastofnunar ríkisins til heimilismannsins, greiðslu Tryggingastofnunar á dvalarframlagi til dvalarheimilisins og þátttöku heimilismanns í greiðslu dvalarkostnaðar, sbr. 21. og 22. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

2. gr. Þjónusta í dvalar- og dagdvalarrýmum.

Innifalin í daggjöldum skv. 1. gr. reglugerðar þessarar er hvers konar þjónusta sem heimilismönnum er látin í té á stofnunum, sbr. meðal annars reglugerð nr. 427/2013, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu.

3. gr. Daggjöld fyrir hjúkrunarrými og daggjöld fyrir sérhæfða dvöl.

 1. Hjúkrunarrými.

  Daggjald fyrir hjúkrunarrými skal vera jafnhátt daggjaldi fyrir dvalarrými skv. 1. gr. Daggjöldunum er ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án húsnæðisgjalds. Auk daggjalds skv. 1. gr. skal greitt fyrir heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum sem samið er um skv. 24. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar eða samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands.

  Daggjald í hjúkrunarrými skv. 1. mgr. skal vera frá 1. janúar 2015: 11.668 kr.

  Daggjald skal greitt þrátt fyrir að heimilismaður hverfi af stofnun í stuttan tíma, svo sem til aðstandenda yfir helgi eða hátíðar, enda hafi heilbrigðisyfirvöld ekki aukakostnað af dvölinni.

  Fari heimilismaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar skal greiða 70% af daggjaldi stofnunar í allt að 45 daga.

  Við andlát heimilismanns eða þegar heimilismaður flytur fyrir fullt og allt af stofnun skal greiða fullt daggjald í allt að sjö daga. Ef heimilismaður í hvíldarrými andast skal greiða fullt daggjald í allt að tvo daga.

  Daggjald skal greitt stofnun vegna sjúklinga með langvinna nýrnasjúkdóma þegar þeir vegna blóðskilunar eru innritaðir á sjúkrahús. Sjúkrahúsið greiðir kostnað vegna lyfjagjafar eins og fyrir aðra blóðskilunarsjúklinga sem skráðir eru inn á það. Greiða skal 1.688 kr. á dag til viðbótar daggjaldi stofnunar fyrir hvern sjúkling með langvinnan nýrnasjúkdóm sem dvelst á stofnun og þarf blóðskilun á sjúkrahúsi.

 2. Sérhæfð dvöl.

  Liður Viðf. Heiti stofnunar Daggjald kr.
  477 110 Árborg, dagdvöl aldraðra v/minnissjúkra 13.295
  477 110 Dagdvöl aldraðra í Reykjanesbæ v/minnissjúkra 13.295
  477 110 Dagdvöl í Eyjafjarðarsveit 13.295
  474 110 Dagdvöl og endurhæfingarstöð MS-sjúklinga 12.150
  477 110 Drafnarhús, Hafnarfirði 13.295
  470 110 Dvalarheimili aldraðra heyrnarlausa 14.155
  476 110 Fríðuhús, Reykjavík 13.295
  410 115 Hjúkrunarheimilið Eir 13.295
  412 171 Hjúkrunarheimilið Skógarbær, endurhæfingardeild 32.752
  472 110 Hlíðarbær, Reykjavík 13.295
  477 110 Hrafnista í Reykjavík, dagdvöl endurhæfing 16.609
  477 110 Jaðar, Ólafsvík 13.295
  477 110 Lagarás, Egilsstöðum v/minnissjúkra 13.295
  473 110 Lindargata, Reykjavík 13.295
  477 110 Maríuhús, Reykjavík 13.295
  475 110 Múlabær, Reykjavík 8.678
  477 110 Roðasalir, Kópavogi 13.295
  434 110 Öldrunarstofnun Akureyrar v/minnissjúkra 13.295

  Nauðsynlegur flutningskostnaður heimilismanna er innifalinn í dagdvalargjaldi. Þeir sem njóta þjónustu dagdvalar skulu greiða 1.020 kr. á dag, sbr. 19. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

4. gr. Húsnæðisgjald.

Tryggingastofnun ríkisins skal greiða húsnæðisgjald til að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis sem nýtt er til reksturs hjúkrunarrýma. Gjaldið árið 2015 er 10.677 kr. á m² á ári og reiknast að hámarki á 60 m² fyrir hvert hjúkrunarrými að meðtöldu sameiginlegu rými. Gjaldið reiknast aldrei á stærra rými en sem stærð húsnæðisins nemur.

Tryggingastofnun ríkisins skal greiða gjald til að mæta viðhaldskostnaði húsnæðis sem nýtt er til reksturs á dvalar- og dagdvalarrýmum. Gjaldið árið 2015 er 3.690 kr. á m² á ári og reiknast að hámarki á 30 m² fyrir hvert dagdvalarrými að meðtöldu sameiginlegu rými. Gjaldið reiknast aldrei á stærra rými en sem stærð húsnæðisins nemur.

Viðhaldshluta í húsnæðisgjaldi er ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði.

5. gr. Framkvæmd.

Sjúkratryggingar Íslands og Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 22. gr., 2. mgr. 24. gr., 55. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, 6. og 10. mgr. 48. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 1. og 3. mgr. 21. gr., 1. mgr. 22. gr. og 29. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, gildir frá 1. janúar 2015. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 99/2014 um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar og dagvistarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2014.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 4. gr. verða engar greiðslur húsnæðisgjalds til að mæta viðhaldskostnaði húsnæðis sem nýtt er til reksturs á dvalarrýmum, sem svarar til tímabilisins frá 1. ágúst 2015 til og með 31. desember 2015, inntar af hendi, með vísan til fjárlaga fyrir árið 2015.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.