Prentað þann 9. nóv. 2024
1179/2015
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 80/2013, um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa.
1. gr.
III. viðauki reglugerðarinnar orðast svo:
III. VIÐAUKI
Skilaboð á rafrænu formi og rafrænt tilkynningakerfi og rafrænt tilkynningakerfi
á EES um skipakomur (SafeSeaNet-kerfið).
1. Almennt fyrirkomulag og uppbygging.
SafeSeaNet-kerfið skal gera kleift að taka við, varðveita, sækja og skiptast á upplýsingum í þágu siglingaöryggis, hafnar- og siglingaverndar, verndar sjávarumhverfis og skilvirkni skipaumferðar og flutninga á sjó.
SafeSeaNet-kerfið er sérhæft kerfi sem komið hefur verið á fót til að greiða fyrir skiptum á upplýsingum á rafrænu formi milli EES-ríkjanna og til að sjá framkvæmdastjórninni/Eftirlitsstofnun EFTA og EES-ríkjunum fyrir upplýsingum, sem máli skipta, í samræmi við EES-samninginn. Það samanstendur af neti SafeSeaNet-kerfa í hverju ríki og miðlægu SafeSeaNet-kerfi sem virkar sem hnútpunktur.
SafeSeaNet-kerfið skal tengja saman öll SafeSeaNet-kerfin í hverju ríki og ennfremur miðlæga SafeSeaNet-kerfið.
2. Stjórnun, rekstur, þróun og viðhald.
2.1 Ábyrgð.
2.1.1 Safe-SeaNet-kerfi í hverju EES-ríki.
Vegagerðin skal koma á fót og viðhalda eigin SafeSeaNet-kerfi, sem gerir viðurkenndum notendum, sem eru á ábyrgð lögbærs yfirvalds í hverju EES-ríki, kleift að skiptast á siglingaupplýsingum.
Vegagerðin skal bera ábyrgð á stjórnun eigin kerfis en það felur í sér samhæfingu notenda og veitenda gagna í hverju ríki fyrir sig auk þess að tryggja úthlutun UN/LOCODE-kóða fyrir tiltekin svæði og að nauðsynleg landsbundin grunnvirki fyrir upplýsingatækni og verklagsreglur, sem lýst er í eftirlitsskjalinu um skilflöt og virkni og um getur í lið 2.3, séu innleidd og þeim viðhaldið.
SafeSeaNet-kerfið skal gera kleift að samtengja viðurkennda notendur, sem eru á ábyrgð lögbærs yfirvalds í hverju ríki, og gera má kerfið aðgengilegt fyrir skilgreinda aðila á sviði sjóflutninga (skipaeigendur, umboðsaðila, skipstjóra, farmsendendur og aðra) þegar þeir hafa verið viðurkenndir af hálfu lögbærs yfirvalds í hverju ríki, einkum í því skyni að greiða fyrir rafrænum skilum og móttöku á skýrslum í samræmi við viðeigandi löggjöf.
2.1.2 Miðlæg SafeSeaNet-kerfi.
Framkvæmdastjórnin ber ábyrgð á stjórnun og þróun miðlæga SafeSeaNet-kerfisins á stefnumörkunarstigi og hefur eftirlit með því í samstarfi við EES-ríkin en í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1406/2002 ber Siglingaöryggisstofnun Evrópu (EMSA), í samstarfi við EES-ríkin og framkvæmdastjórnina, ábyrgð:
á tæknilegri framkvæmd og skrásetningu SafeSeaNet-kerfisins,
á þróun, rekstri og samþættingu rafrænna skilaboða og gagna, sem og á viðhaldi skilflata við miðlæga SafeSeaNet-kerfið, þ.m.t. gögn sjálfvirka auðkenniskerfisins sem berast fyrir milligöngu gervihnatta, og við hin ýmsu upplýsingakerfi í þessari tilskipun og eins og um getur í 3. lið.
2.2 Meginreglur um stjórnun.
[Hér á að vera eyða]
2.3 Eftirlitsskjalið um skilflöt og virkni ásamt tæknigögnum.
[Hér á að vera eyða]
3. Gagnaskipti og miðlun upplýsinga.
Í kerfinu skulu notaðir iðnaðarstaðlar og skal kerfið geta haft samskipti við opinber kerfi og einkakerfi, sem notuð eru til að búa til upplýsingar, veita þær eða taka á móti þeim innan SafeSeaNet-kerfisins.
Framkvæmdastjórnin/Eftirlitsstofnun EFTA og EES-ríkin skulu hafa með sér samvinnu í því skyni að skoða hagkvæmni og þróun þeirrar virkni sem mun tryggja, eftir því sem kostur er, að þeir sem leggja fram gögn, þ.m.t. skipstjórar, eigendur, umboðsaðilar, rekstraraðilar, farmsendendur og hlutaðeigandi yfirvöld, þurfi aðeins að leggja fram upplýsingarnar einu sinni, að teknu tilhlýðilegu tilliti til skuldbindinganna í tilskipun 2010/65/ESB og í annarri viðeigandi EES-löggjöf. EES-ríki skulu tryggja að upplýsingarnar, sem lagðar eru fram, séu tiltækar til notkunar í tengslum við öll viðkomandi kerfi fyrir skýrslugjöf, tilkynningar og upplýsingaskipti sem og eftirlits- og upplýsingakerfi fyrir umferð á sjó.
Vegagerðin skal þróa og viðhalda nauðsynlegum skilflötum fyrir sjálfvirka sendingu gagna með rafrænum hætti til SafeSeaNet-kerfisins.
Miðlæga SafeSeaNet-kerfið skal notað í tengslum við dreifingu rafrænna skilaboða og við gagnaskipti eða -miðlun í samræmi við þessa tilskipun og viðeigandi EES-löggjöf, m.a.:
tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/59/EB frá 27. nóvember 2000 um aðstöðu í höfnum til að taka á móti úrgangi skipa og farmleifum, einkum 3. mgr. 12. gr.,
tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB frá 7. september 2005 um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga, þ.m.t. refsiviðurlaga sökum mengunarbrota, einkum 10. gr.,
tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/16/EB frá 23. apríl 2009 um hafnarríkiseftirlit, einkum 24. gr.,
tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/65/ESB frá 20. október 2010 um formsatriði við skýrslugjöf að því er varðar skip sem koma í og/eða láta úr höfn í aðildarríkjum Bandalagsins, svo fremi að 6. gr. gildi.
Starfræksla SafeSeaNet-kerfisins ætti að greiða fyrir þróun evrópska sjóflutningasvæðisins án hindrana.
Heimili reglur, sem hafa verið samþykktar á alþjóðavísu, að senda upplýsingar um auðkennis- og fjarvöktun skipa, sem varða skip frá þriðju löndum, skal nota SafeSeaNet-netkerfin til að dreifa meðal aðildarríkjanna, með viðeigandi öryggisstigi, þeim upplýsingum um auðkennis- og fjarvöktun skipa sem tekið er á móti í samræmi við 6. gr. b þessarar tilskipunar.
4. Vernd og aðgangsréttur.
Miðlæga SafeSeaNet-kerfið og SafeSeaNet-kerfi skulu uppfylla kröfur þessarar reglugerðar að því er varðar trúnað við meðferð upplýsinga auk reglna og forskrifta um vernd sem lýst er í eftirlitsskjalinu um skilflöt og virkni, einkum að því er varðar aðgangsrétt.
Samgöngustofa skal tilgreina alla notendur sem hafa fengið hlutverk og verið úthlutað aðgangsrétti í samræmi við eftirlitsskjalið um skilflöt og virkni.
2. gr. Innleiðing á EES-gerð.
Með reglugerð þessari eru innleidd í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar 2014/100/ESB frá 28. október 2014 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis Bandalagsins fyrir umferð á sjó.
3. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.
Innanríkisráðuneytinu, 9. desember 2015.
F. h. r.
Sigurbergur Björnsson.
Björn Freyr Björnsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.