Prentað þann 26. des. 2024
1173/2008
Reglugerð um sjómælingar og sjókortagerð Landhelgisgæslu Íslands og menntun sjókortagerðarfólks.
1. gr. Gildissvið.
Með reglugerð þessari er kveðið á um eftir hvaða reglum sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands skal starfa og kveðið á um rit og kort sem stofnunin gefur út og hæfisskilyrði, menntun og starfsreynslu sjómælinga- og sjókortagerðarfólks. Einnig er kveðið á um starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðarinnar og heimild þeirra til að halda réttindanámskeið í faginu.
2. gr. Verkefni.
Landhelgisgæsla Íslands, sjómælingasvið, skal stuðla að öruggum siglingum innan íslensku efnahagslögsögunnar með því að uppfylla skyldur íslenska ríkisins á sviði sjómælinga samkvæmt alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) og jafnframt uppfylla kröfur Alþjóðasjómælingastofnunarinnar (IHO) til sjómælinga og sjókortagerðar.
Landhelgisgæslan ber ábyrgð á útgáfu íslenskra sjókorta samkvæmt skuldbindingum íslenska ríkisins skv. alþjóðasamningnum um öryggi mannslífa á hafinu.1 Þá sér Landhelgisgæslan um milliríkjasamstarf fyrir Íslands hönd á sviði sjómælinga og sjókortagerðar. Íslensk sjókort eru gefin út undir heitinu "Sjómælingar Íslands".
Landhelgisgæslan skal:
- Sjá um sjómælingar (dýptarmælingar) meðfram strönd Íslands, utan hafna og innan íslenskrar efnahagslögsögu eftir því sem nauðsynlegt er talið á hverjum tíma.
- Annast gerð og útgáfu prentaðra og rafrænna sjókorta yfir hafsvæðið umhverfis Ísland, þ.e. aðsiglingakorta, strandsiglingakorta og yfirsiglingakorta. Jafnframt að uppfæra og endurnýja kortin eftir því sem þörf krefur.
- Gefa út tilkynningar til sjófarenda og önnur upplýsingarit og sjóferðagögn, s.s. sjávarfallatöflur, leiðsögubók (-bækur) fyrir sjómenn við Ísland, upplýsingarit um tákn og skammstafanir í sjókortum og kortaskrá.
- Safna gögnum sem tengjast sjómælingum og sjókortagerð og varðveita þau.
- Vera dómsmálaráðuneyti til ráðuneytis á fagsviðum sem stofnunin starfar á samkvæmt reglugerð þessari varðandi stefnumótun á sviði sjómælinga og opinberrar sjókortagerðar.
1 Sjá fylgiskjal.
3. gr. Skipulag.
Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar skiptist í tvær deildir; mælingadeild og kortadeild. Mælingadeild annast sjómælingar, athuganir á sjávarföllum, yfirborðsstraumum og landmælingar ef þörf krefur ásamt úrvinnslu gagna.
Kortadeild sér um gerð og útgáfu sjókorta auk útgáfu annarra sjóferðagagna.
4. gr. Hæfisskilyrði, menntun og starfsreynsla starfsmanna sjómælingasviðs.
Sjómælingasvið skal hafa í þjónustu sinni sérþjálfað starfslið, tæki og búnað sem nauðsynleg eru fyrir framkvæmd þeirra verkefna sem getið er í 2. gr. II. kafla.
Starfsréttindi starfsmanna sjómælingasviðs skulu taka mið af kröfum Alþjóðasjómælingastofnunarinnar (IHO), Alþjóðasamtökum mælingamanna (FIG) og Alþjóðakortagerðarsambandsins (ICA) sem settar eru fram í eftirtöldum ritum Alþjóðasjómælingastofnunarinnar:
Útg. M-5: "Standards of Competence for Hydrographic Surveyors".
Útg. M-8: "Standards of Competence for Nautical Cartographers".
Útg. S-47: "Courses in Hydrography and Nautical Cartography".
Sjómælingamaður skal hafa lokið 3. stigi skipstjórnarmenntunar. Byrjandi skal starfa undir stjórn fullgilds sjómælingamanns að lágmarki í eitt ár. Til að hljóta starfsréttindi sem sjómælingamaður skal viðkomandi ljúka námi hjá viðurkenndum aðila í sjómælingum (Hydrographic Surveying).
Byrjandi í sjókortagerð skal vinna undir stjórn fullgilds sjókortagerðarmanns að lágmarki í eitt ár. Til að hljóta réttindi skal viðkomandi ljúka námi hjá viðurkenndum aðila í sjókortagerð (Nautical Cartography). Eftir nám skal viðkomandi starfa undir eftirliti fullgilds sjókortagerðarmanns í eitt ár.
5. gr. Starfsleyfi.
Landhelgisgæsla Íslands gefur út starfsleyfi til starfsmanna sem uppfylla kröfur reglugerðar þessarar um menntun og starfsreynslu sjómælinga- og sjókortagerðarmanna og veitir þeim heimild til að halda réttindanámskeið í faginu þegar tilefni gefst til.
6. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 17. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52/2006, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 10. desember 2008.
Björn Bjarnason.
Skúli Þór Gunnsteinsson.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.