Fara beint í efnið

Prentað þann 26. des. 2024

Stofnreglugerð

1169/2008

Reglugerð um einkennisbúninga og merki Landhelgisgæslu Íslands.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um einkennisbúninga og merki Landhelgisgæslu Íslands. Öðrum en starfsmönnum Landhelgisgæslunnar er óheimilt að nota einkenni, merki og/eða einkennisbúning Landhelgisgæslunnar opinberlega eða í ólögmætum tilgangi, eða einkenni/merki eða búning sem er svo áþekkur þeim er Landhelgisgæslan notar, að hætta er á að á verði villst.

Brot á þessum reglum getur varðað refsingu sbr. 117. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2. gr. Úthlutun og skylda til að eiga tiltækan einkennisfatnað.

Allir starfsmenn Landhelgisgæslunnar skulu fá úthlutað einkennisfatnaði samkvæmt þessari reglugerð. Við afgreiðslu einkennisfatnaðar skal taka fullt tillit til þess að fatnaður henti báðum kynjum.

Öllum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar er skylt að eiga tiltækan einkennisfatnað.

II. KAFLI Merki Landhelgisgæslu Íslands.

3. gr. Landhelgisgæslumerkið.

Landhelgisgæslumerkið skal vera skjöldur með mynd af akkeri, lóðréttu með stokk og keðju, sjá mynd.

Er við á skal áletrunin "Landhelgisgæslan" vera yfir skildinum með leturgerðinni Arial (eða sambærilegt). Þegar skjöldurinn er prentaður í lit skal hann vera blár (litur PANTONE 287 CVC), akkerið og keðjan hvít og hvítur kantur umhverfis skjöldinn.

Áletrunin Landhelgisgæslan á einkennisfatnaði telst til landhelgisgæslumerkja. Sama á við um orðin "Icelandic Coast Guard" eða "Coast Guard" þar sem það er notað.

Merki

4. gr. Landhelgisgæslumerki.

Landhelgisgæslumerkið skal vera á einkennispeysum, yfirhöfnum og öðrum einkennis- og vinnusamfestingum stofnunarinnar að frátöldum viðhafnar- og sparieinkennisfatnaði. Merkið skal haft á hægri upphandlegg og skal efri brún merkis vera mest 100 mm neðan við axlasaum.

Þjóðareinkenni (þjóð- eða ríkisfáni með eða án orðsins Ísland) skal haft á vinstri upphandlegg skv. nánari ákvörðun í verklagsreglum. Efri brún orðsins skal vera mest 50 mm frá axlasaum og þjóðfáni þar fyrir neðan. Bil milli orðsins Ísland og þjóðfána skal mest vera 15 mm.

5. gr. Einkennishnappar.

Einkennishnappar Landhelgisgæslunnar skulu vera hringlaga, gylltir með upphleyptri mynd af Landhelgisgæslumerkinu (akkeri). Hnapparnir skulu vera í tveimur stærðum. Minni gerðin skal vera 14-16 mm, en hin stærri 24 mm, í þvermál. Festing hnappanna skal vera með tvennum hætti, annars vegar saumaðir og hins vegar pressaðir (smella).

6. gr. Armmerki.

Armmerki skal vera skjaldarlaga úr dökkbláu klæði, 9 sm á hæð og 7,8 sm þar sem það er breiðast. Landhelgisgæslumerkið samkvæmt lýsingu í 3. gr. skal ísaumað í skjöldinn með hvítum þræði. Yst á armmerkinu skal vera ísaumuð hvít rönd 1 mm á breidd. Efst á merkinu skal vera ísaumað með hvítum þræði orðið "LANDHELGISGÆSLAN", leturgerð Arial, eða sambærilegt, stafahæð 6 mm.

7. gr. Fagmerki og nafnspjöld.

Fagmerki, þegar það er notað, skal borið á vinstra jakkabrjósti ofan við efri brún á brjóstvasa. Neðri brún merkis skal vera 6 mm ofan við vasann. Beri menn heiðursmerki skal það vera 6 mm ofan við brjóstvasa og fagmerkið 6 mm þar fyrir ofan.

Forstjóri getur ákveðið að starfsmenn Landhelgisgæslunnar skuli bera nafnmerki í skyrtu og peysu innandyra. Forstjóri getur sett verklagsreglur um notkun nafnmerkja, bæði innan- og utanhúss.

Ef borin eru nafnspjöld eða önnur auðkenni einstaklings eða deildar, skulu þau höfð á hægra brjósti um 6 mm fyrir ofan brjóstvasa.

III. KAFLI Einkennisfatnaður Landhelgisgæslu Íslands.

8. gr. Viðhafnar- og sparieinkennisföt.

Viðhafnarbúningur (sparibúningur) karla og kvenna er svartur jakki og svartar buxur, hvít skyrta, svart bindi (hálstau), svartir sokkar, svartir skór og hvítir hanskar eftir því sem við á. Kvenfólk getur jafnframt valið að vera í svörtu hnésíðu pilsi og sokkabuxum og svörtum stígvélum eða skóm en nánar skal kveðið á um samræmi o.fl. varðandi klæðaburð kvenna í verklagsreglum Landhelgisgæslunnar.

Einkennishúfa með svörtu deri og svartri hökureim er fest með tveimur gylltum hnöppum með merki Landhelgisgæslunnar á. Merki á húfum geta verið mismunandi skv. verklagsreglum. Framan á húfum stjórnenda er gyllt skjaldarmerki úr málmi og fyrir neðan það er akkeri, lóðrétt með stokk og keðju, ísaumað með silfurþræði. Merki á húfum annarra starfsmanna skulu ákveðin í verklagsreglum. Undir akkerinu og upp með því og skjaldarmerkinu er ísaumaður krans með gylltum þræði. Húfuder er svart án einkenna eða með einföldu eða tvöföldu laufi skv. verklagsreglum um einkenni. Kollur hvítur, skiptanlegur.

Svartur einhnepptur regnfrakki með einkennistölum ásamt viðeigandi einkennum skv. verklagsreglum Landhelgisgæslunnar.

Í verklagsreglum er heimilt að kveða á um sérstakan hátíðarbúning.

9. gr. Almennur landhelgisgæslufatnaður og vinnufatnaður.

Almennur landhelgisgæslufatnaður er mismunandi eftir starfssviði og deildum og er ákveðinn í verklagsreglum Landhelgisgæslunnar um einkennisbúninga og skv. ákvörðun sviðs- og deildarstjóra. Jafnframt skal kveðið á um vinnu- og öryggisfatnað mismunandi starfsstétta í verklagsreglum Landhelgisgæslunnar.

10. gr. Útvegun einkennisfatnaðar o.fl.

Landhelgisgæslan skal hafa einkennisfatnað á lager eða panta hann fyrir starfsmenn auk annars nauðsynlegs búnaðar. Haldin skal skrá yfir afhentan einkennisfatnað og annan búnað.

Venjulegt viðhald einkennisfatnaðar skulu starfsmenn greiða sjálfir nema kjarasamningar kveði á um annað. Þeir skulu þó fá greitt fyrir tvær fatahreinsanir á ári. Tjón á einkennisfatnaði sem rekja má til starfsins skal bætt með nýjum einkennisfatnaði.

11. gr. Eignarheimild og skil á einkennisfatnaði.

Einkennisfatnaður, sem fastráðinn starfsmaður Landhelgisgæslunnar hefur notað lengur en tvö ár, skal teljast hans eign. Tilheyrandi einkennum og búnaði ber honum þó að skila til Landhelgisgæslunnar við starfslok.

Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, sem láta af störfum á reynslutíma eða hafa starfað skemur en tvö ár, ber að skila öllum einkennisfatnaði, búnaði og einkennum, sem þeir hafa fengið afhent.

12. gr. Notkun einkennisfatnaðar utan starfs.

Starfsmönnum Landhelgisgæslunnar er óheimilt að nota einkennisfatnaðinn utan starfs, nema með heimild yfirmanns.

Ekki er heimilt að afhenda utanaðkomandi aðila einkennisfatnað eða annan búnað Landhelgisgæslunnar nema með sérstakri heimild forstjóra.

13. gr. Lán eða leiga fatnaðar Landhelgisgæslunnar og annars búnaðar.

Forstjóra Landhelgisgæslunnar er heimilt við sérstök undantekningartilvik að lána einkennisbúninga og annan búnað sem tengist starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Um útlán eða leigu einkennisbúninga gilda eftirfarandi reglur:

  1. Forstjóra er heimilt að samþykkja útleigu á einkennisbúningum til kvikmynda- og fjölmiðlafyrirtækja vegna notkunar við gerð kvikmynda eða sjónvarpsþátta.
  2. Notkun einkennisbúninga Landhelgisgæslunnar skal takmörkuð við viðkomandi kvikmynd og á meðan tökur standa. Óheimilt er að nota einkennisbúninginn við aðstæður sem teljast augljóslega vanvirðandi fyrir Landhelgisgæsluna.
  3. Óheimilt er að samþykkja lán eða leigu á einkennisbúningum vegna auglýsinga nema um sé að ræða sérstakar forvarnarauglýsingar svo sem varðandi öryggi sjómanna.

IV. KAFLI Nánari útfærsla.

14. gr. Verklagsreglur.

Forstjóri getur sett nánari fyrirmæli um notkun einkennisklæðnaðar Landhelgisgæslunnar.

Forstjóri skal setja verklagsreglur um útfærslu einkennisfatnaðar, stöðueinkenni, klæðaburð og úthlutun einkennisfatnaðar og búnaðar.

Heimilt er að úthluta starfsmönnum fatabeiðnum í stað reglubundinnar úthlutunar einkennisfatnaðar. Forstjóri má setja skilyrði fyrir úthlutun fatabeiðna í verklagsreglum og ákveður upphæð þeirra.

V. KAFLI Gildistaka.

15. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 21. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52 14. júní 2006, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 10. desember 2008.

Björn Bjarnason.

Skúli Þór Gunnsteinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.