Prentað þann 22. des. 2024
1165/2021
Reglugerð um (10.) breytingu á reglugerð nr. 674/2017 um heilbrigðisreglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til manneldis.
1. gr.
6. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. desember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl.
Þó er heimilt að bera moltu og kjötmjöl að vori á land sem síðan er unnið til túnræktar, kornræktar eða til ræktunar einærra fóðurjurta, enda sé borið á landið áður en jarðvinnsla fer fram þannig að moltan eða kjötmjölið gangi niður í jarðveginn.
Ekki er heimilt að bera kjötmjöl á frosna eða snæviþakta jörð.
Umbúðir og fylgiseðlar áburðar úr kjötmjöli og moltu skulu merktar með eftirfarandi áletrun: "Lífrænn áburður eða jarðvegsbætandi efni - Ef nýta á land til beitar eða fóðurframleiðslu má ekki bera á það moltu eða kjötmjöl síðar en 1. desember árið áður og skal landið þá friðað fyrir beit a.m.k. til 1. apríl. Efnið má plægja niður í flög að vori, sem ætluð eru til nýræktar eða ræktunar einærra fóðurjurta."
2. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 13. gr. og 29. gr. a laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og 7. gr. laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, með síðari breytingum.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 8. október 2021.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Iðunn Guðjónsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.